Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

föstudagur, september 30, 2005

 

Föstudagur til frís?

Dagurinn byrjaði svona einstaklega vel. Í sturtunni fattaði ég nefnilega að það var kominn föstudagur en ekki fimmtudagur eins og ég hafði staðið í trú um. Alltaf gleðilegt að græða dag! Ekki nóg með það heldur er Labour Day á mánudaginn svo helgin er löng.

Af skjósmálinu er það að frétta að hann lét ekki derhúfu án augna blekkja sig og bjóst til árásar aftur. Hins vegar er skjórinn svo ragur að hann ræðst ekki á fólk nema það sjái hann ekki. Ég sá hann í tíma svo hann sneri við, settist á grein og sneri sér undan. Einmitt eins og ég félli fyrir því...nunnunu ekki nú aldeilis, ég leit ekki af honum nema rétt til að vera viss um að ég væri ekki að labba á neitt og hann lét aftur til skarar skríða. Svona gekk þetta þrisvar sinnum og ég vann í öll skiptin. Svo fékk ég far heim úr vinnunni... Kann annars einhver að fallbeygja orðið skjór? Fleirtalan er mér algjörlega hulin svo ég tel mig heppna að hafa bara orðið fyrir árás eins skjós. Hef fulla trú á Héðni sem finnur alltaf á íslenskunni svar.

|

fimmtudagur, september 29, 2005

 

Kaldhæðni örlaganna

Það var frekar kalt í morgun þegar ég gekk í vinnuna. Sólin skein en vindurinn var ansi napur svo ég skellti mér í jakka og hélt af stað. Í jákvæðni minni hugsaði ég þó með mér að alla vega væru flugurnar sem hafa gert mér lífið leitt/óbærilegt síðustu morgna stæðu alla vega ekki í þeirri trú að ég væri almenningssamgöngur þeirra í þessum kulda. Svo ég gekk í þetta venjulega korter í vinnuna nokkuð ánægð. Ég átti ekki mörg skref óstigin þegar agressívi magpie-inn (kannski skjór, veit samt ekki) tók eitt laglegt kríuflug yfir hausinn á mér. Magpie er álíka stór og hrafn, hvítur og svartur og gefur frá sér alveg skelfilega leiðinlegt garg. Þessi tiltekni magpie býr í einu trjánna nálægt vinnunni og hefur verið í hlutverki ógnvalds síðustu vikur enda í hreiðurgerð. Um daginn kom svo maður í heimsókn í vinnuna frá wildlife services þar sem búið var að kvarta og kona sem hafði verið á gangi með barn sitt vildi að hann yrði skotinn. Við börðumst hatrammlega gegn þvílíkri villimennsku og sögðumst aldrei hafa lent í neinu. Tveimur dögum síðar var einn vistmannanna goggaður til blóðs og þurfti að fá tetanus bólusetningu. Ég get ekki líst því hvað mér brá rosalega við að heyra háan vængjaþyt rétt yfir höfðinu á mér og sjá stóran skugga fuglsins fyrir framan mig. Í kvöld tek ég til minna ráða svo þetta endurtaki sig ekki. Nei, ég ætla ekki að heimsækja hann með byssu, hins vegar ætla ég að föndra augu til að setja ofan á derhúfu sem ég get haft á hausnum í fyrramálið. Haldið þið að það verði ekki flott? Annars held ég bara að ég kjósi frekar að hafa flugurnar í nefinu en magpie sveimandi yfir höfðinu.

|

miðvikudagur, september 28, 2005

 

Smábærinn

Cobar er stundum svo skemmtilega mikill smábær. Í dag fékk ég pakka frá mömmu og systrum mínum (takk kærlega fyrir, allt passaði og mér líkar vel við - velheppnað!). Þar sem við vorum ekki heima þegar póstberinn kom þá tók hún bara pakkann í apótekið og lét Okezie fá hann. Samt var pakkinn náttúrulega stílaður á mig og við þekkjum póstberann ekki neitt. Og hér býr yfir fimm þúsund manns. Mér finnst þetta bara soldið ótrúlegt.

|

þriðjudagur, september 27, 2005

 

Bernskubrek

Ég er ekki minnug og hef alltaf reyndar vitað það. En nú þegar ég var að lesa blogg Aldísar og Ástu æskuvinkvenna minna (er að setja link á þær núna) komst ég að því að ég er ekki bara gleymin, ég held ég sé blackout á bernskuna. Á bloggum sínum rifjuðu þær upp atvik með mér sem mig rámar bara varla í. Var ég svona stríðinn krakki að samviska mín leyfir mér ekki að muna það? Mér til málsbóta hef ég það þó að öll fjölskylda mín, að pabba undanskildum, er alveg hrikalega stríðin og hvernig er kenningin - þeir hæfustu lifa af... Með aldrinum hefur stríðnin samt minnkað, alveg satt! Ég væri samt til í að muna meira, svona til að geta skrifað ævisöguna einn góðan veðurdag. Kannski ég þyrfti að hitta æskuvinkonurnar næst þegar ég kem heim eða senda þeim tölvupóst - hugsa að ég óski ekkert sérstaklega eftir því að fá upplýsingarnar á bloggformi...

Ég er viss um að þið sem hafið kynnst mér á gamals aldri trúið ekkert upp á mig sem þær skrifuðu...

|

mánudagur, september 26, 2005

 

Er allt að verða vitlaust?

Hvað er eiginlega í gangi á Íslandi? Valdníðsla, spilling og svínarí? Getur það verið? Stuð!

|

sunnudagur, september 25, 2005

 

Helgarfléttan

Systir Okezie eignaðist barn í gær. Hún var búin að bíða síðan á mánudaginn og loks kom að þessu. Hún er búin að eiga algjöra hörmungarmeðgöngu. Hefur marg oft haldið og verið sagt að hún væri búin að missa barnið og var alveg svakalega veik líka svo hún hefur ekkert unnið síðan hún varð ólétt. Svo fékk hún að rembast við að fæða barnið í 24 tíma þangað til þeir ákváðu að taka með keisara. Við erum hins vegar búin að fylgjast spennt með og í hvert sinn sem síminn hringdi var ég viss um að barnið væri komið.

Mér datt í hug að kíkja á Spaugstofuna á netinu þegar ég var að skoða fréttirnar. Er þetta grínþáttur eða er bara grín hjá Sjónvarpinu að sýna þetta. Ég get ekki betur séð en atriðin séu alveg nákvæmlega eins og fyrir svona 15 árum! Þeim þykir enn fyndið að nota löng óalgeng nöfn eins og "Yfir til þín Guðfreður", "Takk fyrir Hallsteinn". Ómægad. Ég gafst fljótt upp og mun ekki bíða spennt eftir næsta þætti.

Helgin hefur verið eins róleg og planað var. Ég hef ekki farið út fyrir hússins dyr og er búin að vera á stuttbuxum og hlýrab0l upp í sófa að lesa og horfa á video, reyndar með nokkrum ferðum í tölvuna. Reyndar datt mér í hug að elda gulrótarsúpu. Það átti nú ekki að taka nema svona korter en með þrifum var það mun lengri tími. Ég yfirfyllti nefnilega blandarann soldið og það skvettist út um allt, þar á meðal á höndina á mér og finn ég all hressilega fyrir því. Er samt svo "heppin" að eiga gel sem maður setur á flugnabit og það kælir ágætlega.

Á morgun eiga svo systurnar mínar afmæli. Til hamingju með það til beggja. Vona að þær geri sér glaðan dag og við þær verði dekrað.

Ég er ekki alveg að fíla þennan klukkleik og er búin að velta fyrir mér hvort ég eigi að dissa þetta klukk hennar Unu. Ég var alltaf léleg í stórfiskaleik enda er ekki mikill munur á mínum hlaupum og röskri göngu. Hins vegar held ég að Unan mín myndi kannski ekkert fyrirgefa mér það diss svo ég skal skella hér einhverjum tilgangslausum upplýsinum.

1. Mér finnst óþolandi þegar fólk sturtar ekki niður í klósettinu.
2. Ég vildi að ég gæti sofið á maganum.
3. Ég hlakka til að flytja í húsið mitt en kvíði fyrir að þurfa að velja flísar, innréttingar und so widere.
4. Ég er mjög varfærin enda hef ég aldrei beinbrotnað eða tognað og reyndar ekki einu sinni aldrei fengið gat á hausinn.
5. Ég er nammisjúklingur. Hei, þetta er ekki tilgangslaust fyrir ykkur að vita, ykkur gæti langað að gleðja mig og senda nammi hingað....

Ég er viss um að Una verði mjög skilningsrík og fyrirgefi mér að ég nenni ekkert að klukka neinn...

|

laugardagur, september 24, 2005

 
Ástralir, eins og aðrir íbúar þessa heims, kvarta sáran yfir háu olíuverði. Nú kostar líterinn af bensíni $1,20 að ég held (hef aldrei tekið bensín hér) og er það u.þ.b. 60 krónur íslenskar. Hvað kostar líterinn á Íslandinu? Reyndar þurfa Ástralir oft að keyra lengri vegalengdir en venjulegt (!) fólk, munar ekki um að keyra 11 tíma á dag, skiptast bara á. Ég ætla hins vegar aldrei að gera það, finnst 3 tímar algjört max á einum degi.

Vorið er komið. Alla vega var 30 stiga hiti í gær. Það kallast samt alls ekki sumar hér, það eru enn 12-20 gráður í viðbót við 30 stigin til að það kallist sumar. Úff, ég bíð ekkert sérlega spennt eftir að upplifa 48 gráður. Flugurnar aukast í einhverju hlutfalli við hækkandi hita, ég ætla að leita að höttum með neti fyrir okkur skötuhjú. Ef ég finn það ekki þá ætla ég að útbúa e-k hármottu til að stinga upp í nef svo það verði aðeins erfiðara inngöngu fyrir flugur.

Um helgina skal bara slappað af. Kannski að reita aðeins úr beðum, þvo þvott og versla í matinn en ætli það verði ekki bara það eina. Svo ætla ég á bókasafnið og sitja úti í garði, með sólarvörn, og lesa eitthvað skemmtilegt. Ágætis plan ekki satt?

|

þriðjudagur, september 20, 2005

 

Af hátíðarhöldum

Sambýlingurinn varð árinu eldri í gær. Að því tilefni fékk hann ekkert í afmælisgjöf ef frá er talið eitt snickers. Eitt Snickers er kannski ekki mjög rausnarlegt þegar skoðað er hvað hann gaf mér á mínu afmæli en svona er það, síðan þá hafa útgjöldin hlaðist á okkur í formi lóðakaupa og reyndar annarra fyrirsjáanlegra útgjalda líka. En í dag fann ég loksins eitthvað handa honum í þessu krummaskuði, keypti skáktölvu. Hann tefldi nefnilega við stórmeistara Ragnar Karl í síðasta fríi og hafði gaman af - en þótti verra að eiga ekki séns í að vinna. Nú getur hann æft sig og má stórmeistarinn fara að vara sig.

Skáktölvuna fann ég í nýopnaðri búð hér á staðnum. Reyndar á það nú reyndar að vera meira apótek og þar með vinnustaður sambýlingsins en búð. Er samt meir búð þar sem þau selja ýmsa gjafavöru og svo er meir að segja ísbúð. Staðarbúar eru hæstánægðir með nýju "búðina".

Ég missti af hátíðarhöldum í tilefni af 85 ára afmæli Ömmu Gullu um síðustu helgi. Er búin að sjá myndir og sé að ég hef misst af góðu geimi. Í staðinn fór ég íklædd rúgbýfötum í vinnuna og hjálpaði til við að setja upp fína skemmtun þar. Footie Tipping Competition Presentation var það, vistmennirnir hafa keppt í að tippa á leiki í Rúgbý og var komið að leikslokum. Það var bara þónokkuð gaman, t.d. voru klappstýrur úr hópi vistmanna og þessi líka fíni matur. Jamm, maður er orðinn svona integrated inn í þetta samfélag, er farinn að gefa vinnuna sína. Suss.

|

fimmtudagur, september 15, 2005

 

Alvöru rojaltí


Getur það verið að Hið konunglega fjelag sem önnur systra minna hefur einhvern skrýtinn titil í hafi misst af brúðkaupi ársins? Þessar venjulegu evrópsku konungsfjölskyldur eiga ekki séns í þau Jordan og Peter Andre. Þau eru meira barbí en Barbie og Ken. Styttur á brúðartertum ættu að vera gerð með þau í huga. Fyrir þá sem hafa ekki haft aðgang að skyldulesningu eins og OK, Hello og News of the World (uppáhaldinu mínu) þá get ég t.d. sagt ykkur að Peter Andre söng "Mysterious Girl" og stóð í læk ber að ofan með magavöðva dauðans í myndbandinu. Flestir strákar ættu að kannast alla vega við tútturnar á henni Jordan/Katie Price, Victoria Beckham söng "Who let the dogs out" þegar Jordan kom í partý, Jordan á son með Dwight Yorke og hefur held ég líka sofið hjá 90% frægra manna í Bretlandi, t.d. Fat Frankie Lampard. Það þótti einkar ósmekklegt þegar hún afsveinaði Gareth Gates, litla strákinn sem var í öðru sæti í allra fyrsta Idolinu, þessi sem stamaði. Hún var gengin 6 mánuði með fyrra barnið þá. Að sjálfsögðu seldu þau OK réttinn á myndatökum í brúðkaupinu sem var allt bleikt. Þau hjónakorn kynntust líka fyrir framan alheiminn, í raunveruleikaþætti sem kallast "I´m a celebrity, get me out of here". Hún dissaði hann framan af enda trúlofuð öðrum en svo fóru töfrar klígjunnar að virka.

Skyldi ég fá inngöngu í Hið konunglega fjelag ef ég gerist fréttaritari fjelagsins af fræga fólkinu? Já og eitt enn, ég setti myndina af Jordan og Peter á desktop-inn. Posted by Picasa

|

þriðjudagur, september 13, 2005

 

Vóhóóóó - ég er orðin bloggóð

Ég gleymdi bara að þakka Flugleiðum alveg kærlega fyrir að ætla að fara loksins að fljúga í áætlunarflugi til Manchester. Passar einmitt að ég sé flutt og eigi ekki nokkurn möguleika á að nýta mér þetta. Fannst einmitt mjög gaman að vesenast þetta til London eftir hinum ýmsu misleiðinlegu (en öllum leiðinlegum) leiðum og vera alltaf drulluþreytt eftir þetta allt saman. Vona bara að þetta verði nógu ódýrt hjá þeim líka - bara svona til að strá salti í sárin. Takk takk.

|  

Meira af tölum

Ekki að það sé alveg eins merkilegt og að verða 106 ára þá er það samt nokkuð merkilegt að foreldrarnir mínir áttu 41. árs brúðkaupsafmæli í gær. Ég gleymdi að óska þeim til hamingju þá svo ég geri það bara núna -Til hamingju. Vel af sér vikið

|  

Fædd 1899.

Þá er enn einn vistmaðurinn dáinn. Þessi var elst, aðeins 106 ára gömul. Hún var fædd á Valentínusardaginn 1899. Pælið í því, 1899! Eldri en elstu menn. Þrettán ára var hún seld afgönskum kamelhirði fyrir svolítið vín. Hún eignaðist sitt eina barn fljótlega eftir það. Hún var búin að vera á hjúkrunarheimilinu í 15 ár og var fyrst á hostel-hliðinni og mjög sjálfstæð. Hún var samt búin að vera lengi rúmföst og var talin vera bæði blind og heyrnarlaus. Það er ekki öfundsvert ástand. Samt var hún líklega með þeim hraustustu þarna, var bara á verkjalyfjum og augndropum, engum öðrum lyfjum. Þessi kona er sú fimmta sem deyr síðan ég byrjaði, það hafði enginn dáið frá því á jólum fyrr en þessi hrina hófst. Hingað til hefur samt enginn kennt mér um sem betur fer. Nú er sú elsta 105 ára. Meir að segja fædd á nýársdag á nýrri öld, 01.01.1900. Hún verður samt örugglega ekki næst.

Ég hef aldrei unnið við umönnunarstörf þrátt fyrir að hafa látlaust verið hvött til þess á vorin af mömmunni minni. Þess vegna er allt þetta frekar nýtt fyrir mér. Mér finnst mjög óþægilegt að vita af líki í vinnunni og fer ekkert nálægt því herbergi þegar það er upptekið. Mér finnst samt eiginlega verra að ég heyri ekkert svona sögur af fólkinu fyrr en það deyr, mér finnst svo skemmtilegt að heyra svona reynslusögur. Þess vegna varð ég að deila þessu með ykkur hinum.

|

laugardagur, september 10, 2005

 

Sorrý - meir af veðri

því nú geisar hér sannkallað þrumuveður. Það er sama út um hvaða glugga ég lít, ég get bókað eldingu á svona 10 sekúndna fresti. Er meir að segja orðin pínu hrædd. Gervihnötturinn er dottinn út og venjulegt sjónvarp datt út líka í smá stund. Ég bíð eftir að rafmagnið fari af (er með vasaljós við höndina) og er með mestar áhyggjur af laugardagssteikinni í ofninum. Reyndar er laugardagssteikin bara fiskstautur, vorrúlla og franskar en það er sama, ég er svöng. Og smá hrædd. En þetta gengur vonandi yfir - nema þá að syndaflóð hafi skollið á. Ef kallið kemur og ég verð beðin um að taka tvö af hverri tegund með mér þá ætla ég óvart að gleyma köngulóm, kakkalökkum og húsaflugum.

|  

Það var eins og við manninn mælt...

...að það byrjaði að rigna um leið og ég var búin að hengja síðasta sokkinn upp á snúru. Reyndar hafði gengið á með skúrum síðan seint í gær og í nótt vaknaði ég nokkrum sinnum upp við þrumurnar. En ég hengdi ekki þvottinn út fyrr en að vel athugu máli, léttskýjað og þau bara ljós grá, nokkur vindur og hitinn eins og í AEG þurrkara. Hvaðan þessi rigning kom veit ég ekki.

|

fimmtudagur, september 08, 2005

 

Veðurfregnir

Hitastig 27 gráður.
Flugnafjöldi ein trilljón.

Það er að koma sumar og hitastigið fer sífellt hækkandi. Í dag var hálfóbærilegt ef svo má segja. Táfýlan magnast, svitablettir á baki og það sem verst er: Flugurnar eru svo ótrúlega margar. Ég gekk heim úr vinnunni með lokaðan munn, lokuð augu og andaði bara út með nefinu. Og þetta er víst bara byrjunin. Ég bíð spennt eftir 40 stiga hita og tíu trilljón flugum.

|

sunnudagur, september 04, 2005

 

Fólk

Ég er alltaf að sannfærast meira og meira um að fólk sé alls staðar eins. Alla vega eiga allir sér að minnsta kosti tvífara. Ég er til dæmis búin að sjá tvífara Drafnar Freys á skyndihjálparnámskeiði hér í Cobar fyrir nokkrum mánuðum. Hún var mjög lík henni, bar sig einhvern veginn eins og sat meir að segja hjá strákunum. Ég hef ekki tölu á hve oft ég sé einhvern og hugsa: "Nei, er þetta ekki....nei hún er í Englandi/á Íslandi". Á ferðalaginu um daginn þá var tælenskur lyftuvörður voðalega eitthvað líkur yngsta bróður Okezie, ég sá kínverskan Gunnstein í Singapore og það sem toppaði allt saman og sannar að mínu mati að fólk sé alls staðar eins var að ég sá tvífara Sigga í sjoppunni. Sá var trúlega af indverskum uppruna. Ef manni dettur Siggi í sjoppunni í hug í búðarferðum í Singapore eftir að hafa hvorki séð né heyrt af manninum í mörg mörg ár og jafnvel fyrir utan það að þekkja manninn svo sem ekki neitt þá hlytur þetta að sanna mál mitt.

Annars finnst mér alltaf áhugavert að sjá hvernig fólk skilgreinir sjálft sig og aðra. Ég var til dæmis frekar rugluð í ríminu fyrst þegar ég var í Englandi og fólk talaði um Asians. Þar eru Asians nefnilega bara fólk frá Indlandi, Pakistan og Bangladesh. Allir aðrir sem koma frá Asíu eru "Chinese". Það skiptir þá engu máli hvort það eru Kóreubúar, Kínverjar eða Víetnamar. Gæti reyndar verið að Japanir flokkist sér, er ekki viss um það.

Ég er ekki enn búin að venjast því að ókunnugir heilsi Okezie út á götu í hvaða landi sem er bara af því að þeir eru líka svartir. Ég spurði alltaf hver þetta væri nú í fyrstu en fékk alltaf sama svarið: "I don´t know". Núna veit ég náttúrulega alveg að þetta eru "bræður" en mér finnst þetta alltaf jafn skrýtið.

Í Tælandi fórum við í skoðunarferð í lítilli rútu. Við vorum reyndar bara 4 í ferðinni, þrjú hvít og svo Okezie. Leiðsögukonan spurði hvaðan við værum og hin tvö voru frá Suður-Afríku og Írlandi. Leiðsögukonan sagði þá að hún hefði aldrei getað giskað á það enda værum við hvíta fólkið öll eins! Þetta fannst Okezie MJÖG fyndið og minnti mig á þetta nokkrum sinnum. Varð ég fyrir kynþáttafordómum frá konunni? Ég er bara ekki viss.

Kannski að fólk sé bara alls staðar í heiminum eins.

|

laugardagur, september 03, 2005

 

Tímarnir breytast...

Já nú á hann Pálmi "litli" frændi minn afmæli. Hann er jú 6 vikum yngri en ég svo hann verður alltaf litli frændi. Til hamingju með daginn gamli minn. Við Pálmi erum eiginlega stjúpsystkin þar sem við ólumst saman upp til tvítugs. Vorum saman í bekk á Tanganum og fórum svo saman í ML. Þegar ég hugsa til Sigríðar bróðurdóttur minnar sem var að byrja alein í menntó núna þá man ég hvað það var gott að hafa Pálma með mér á Laugarvatni. Við Pálmi verðum sko alltaf bestu vinir þó við hittumst nú ekki oft.

Mér skilst að Pálmi og félagar hans séu með "íslenskt dagsverk" í dag. Það er hefð sem þeir félagar hafa staðið fyrir síðan í 4. bekk í ML að ég held. Einhvern veginn held ég að samkoman í ár verði ekki eins skrautleg og oft áður enda eru þetta flest allir orðnir ráðsettir menn og margra barna feður (alla vega samanlagt) og golfáhugamenn upp til hópa. Jú þroskinn hefur komið með aldrinum og finnst mér ólíklegt að þá megi finna berstrípaða á Laugardagsvellinum í þetta skiptið. Ef fólk vill giska á hvað verður aðal skandall dagsins hjá þeim í kommentakerfinu mínu þá er það frjálst. Ég held ég veðji á að einhver rífi ullarfrakkann sinn eða álíka spennandi. Ekki að ég hafi ekkert álit á ykkur strákar mínir - skemmtanalífið hjá ykkur má líklega bara muna sinn fífil fegurri.

Ekki að ég stæri mig af djammsögum enda ákaflega siðprúð "amma". Kannski að við séum bara öll orðin hálf kvótalaus. Kannski að kapparnir komi manni á óvart og maður geti lesið af afrekum þeirra í lögregluskýrslum helgarinnar.

Vinnuvikan var mjög góð og við vorum bæði fegin að vera aftur komin í rútínuna. Hins vegar er ekkert alltof skemmtilegt að það rignir hér, sem gerist bara þegar ég þarf að standa í stórþvottum. En það er svona, hef þá bara góða og gilda ástæðu til að gera nákvæmlega ekki neitt.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?