Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

sunnudagur, september 25, 2005

 

Helgarfléttan

Systir Okezie eignaðist barn í gær. Hún var búin að bíða síðan á mánudaginn og loks kom að þessu. Hún er búin að eiga algjöra hörmungarmeðgöngu. Hefur marg oft haldið og verið sagt að hún væri búin að missa barnið og var alveg svakalega veik líka svo hún hefur ekkert unnið síðan hún varð ólétt. Svo fékk hún að rembast við að fæða barnið í 24 tíma þangað til þeir ákváðu að taka með keisara. Við erum hins vegar búin að fylgjast spennt með og í hvert sinn sem síminn hringdi var ég viss um að barnið væri komið.

Mér datt í hug að kíkja á Spaugstofuna á netinu þegar ég var að skoða fréttirnar. Er þetta grínþáttur eða er bara grín hjá Sjónvarpinu að sýna þetta. Ég get ekki betur séð en atriðin séu alveg nákvæmlega eins og fyrir svona 15 árum! Þeim þykir enn fyndið að nota löng óalgeng nöfn eins og "Yfir til þín Guðfreður", "Takk fyrir Hallsteinn". Ómægad. Ég gafst fljótt upp og mun ekki bíða spennt eftir næsta þætti.

Helgin hefur verið eins róleg og planað var. Ég hef ekki farið út fyrir hússins dyr og er búin að vera á stuttbuxum og hlýrab0l upp í sófa að lesa og horfa á video, reyndar með nokkrum ferðum í tölvuna. Reyndar datt mér í hug að elda gulrótarsúpu. Það átti nú ekki að taka nema svona korter en með þrifum var það mun lengri tími. Ég yfirfyllti nefnilega blandarann soldið og það skvettist út um allt, þar á meðal á höndina á mér og finn ég all hressilega fyrir því. Er samt svo "heppin" að eiga gel sem maður setur á flugnabit og það kælir ágætlega.

Á morgun eiga svo systurnar mínar afmæli. Til hamingju með það til beggja. Vona að þær geri sér glaðan dag og við þær verði dekrað.

Ég er ekki alveg að fíla þennan klukkleik og er búin að velta fyrir mér hvort ég eigi að dissa þetta klukk hennar Unu. Ég var alltaf léleg í stórfiskaleik enda er ekki mikill munur á mínum hlaupum og röskri göngu. Hins vegar held ég að Unan mín myndi kannski ekkert fyrirgefa mér það diss svo ég skal skella hér einhverjum tilgangslausum upplýsinum.

1. Mér finnst óþolandi þegar fólk sturtar ekki niður í klósettinu.
2. Ég vildi að ég gæti sofið á maganum.
3. Ég hlakka til að flytja í húsið mitt en kvíði fyrir að þurfa að velja flísar, innréttingar und so widere.
4. Ég er mjög varfærin enda hef ég aldrei beinbrotnað eða tognað og reyndar ekki einu sinni aldrei fengið gat á hausinn.
5. Ég er nammisjúklingur. Hei, þetta er ekki tilgangslaust fyrir ykkur að vita, ykkur gæti langað að gleðja mig og senda nammi hingað....

Ég er viss um að Una verði mjög skilningsrík og fyrirgefi mér að ég nenni ekkert að klukka neinn...

Comments: Skrifa ummæli

<< Home
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?