Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

sunnudagur, desember 31, 2006

 

Gleðilegt ár!

Nú eru bara örfáar klukkustundir eftir af þessu ári og það gæti vel farið svo að ég endurtæki leikinn frá 1983. Þá stóð ég við stofugluggann heima á Hvammstanga og grét því mér fannst svo leiðinlegt að árið væri á enda og kæmi aldrei aftur til baka. Þá var ég 6 ára og afi minn var nýdáinn svo ég var með samviskubit yfir því að hafa fundist árið gott. Nú þarf ég hins vegar ekki að hafa samviskubit yfir neinu. Árið 2006 hefur verið afburða gott ár fyrir mig og mjög viðburðaríkt. Ég vissi nú alltaf að ég ætti eftir að njóta þess að vera mamma en það hefur þó verið enn betra en ég gat ímyndað mér. Það er svo yndislegt að upplifa allar þær tilfinningar sem því fylgir og að fylgjast með litla barninu sínu vaxa og dafna. Nú eru bara 26 dagar þangað til hann verður alveg heils árs gamall. Það finnst mér ótrúlegt! Hann er samt orðinn svo stór og skilur svo margt. Svo er hann líka kominn með heilmikið skap og við rífumst til dæmis þegar hann vill taka niður jólaskrautið af trénu.

Við fluttum náttúrulega líka í nýja húsið okkar á árinu. Það er frábær tilfinning að vera í sínu eigin, kaupa húsgögn sem mann langar til að eiga og koma sér almennilega fyrir. Hingað til höfum við alltaf ætlað að stoppa stutt á þeim stöðum sem við höfum verið á svo það hefur aldrei tekið því að gera notalegt í kringum sig. Nú erum við alveg búin að koma okkur fyrir, það er verið að klára garðinn og eina sem eftir er að kaupa eru húsgögn á veröndina.

Það var líka frábært að koma heim í haust og hafa mikinn tíma til að eyða með sínum nánustu. Eiginlega held ég að Hvammstangi standi þar uppúr. Það var svo notalegt að hanga með mömmu og pabba og fylgjast með þeim og Arinze kynnast. Ég á slatta af videoi frá þeim tíma og nú síðustu daga höfum við Arinze verið að horfa á það á matartímanum.

Áramótin eru mjög óhefðbundin í ár. Bræðurnir plús einn Ameríkani fóru á körfuboltaleik og því engin áramótasteik á gamlárskvöld. Ég ætla hins vegar að elda lambalæri í fyrramálið til að hafa í hádeginu og svo stendur til að fara á ströndina. Öðruvísi en ekkert slæmt. Kannski ég nái líka áramótaskaupinu þó líklega skilji ég ekkert í því.

Að lokum vil ég bara segja Gleðilegt nýtt ár öll! Takk fyrir það gamla þið sem ég hitti á árinu. Lifið heil, atsjú.

|

laugardagur, desember 30, 2006

 

Í jólarest.

Jólin eru háannatími fyrir heimavinnandi húsmæður og ég hef ekkert mátt vera að því að blogga. Nú er svo langt um liðið að ég man bara brot af því sem hefur á daga okkar drifið. Það var heilmikið vesen að finna óreykt svínakjöt og fyrir þá sem vilja gera almennilega pörusteik í útlöndum þá kallast kjötið pickled pork. Ég hafði aldrei gert svona áður svo Skype kom mér til hjálpar. Já og Raggi bróðir á hinum endanum. Svo klikkaði náttúrulega brúneringin á kartöflunum, nú eða þangað til Eyrún syss hjálpaði mér líka í gegnum Skype. Minnið mig á að senda Skype jólakort á næsta ári. Okezie var að vinna svo við borðuðum ekki fyrr en klukkan 10 um kvöldið og nenntum ekki að hafa fyrir því að dressa okkur upp.

Við opnuðum alla pakkana á jóladagsmorgun í náttfötunum. Fórum svo öll saman í tennis, frisbí og rúgbý í garði hér í nágrenninu. Við vorum úti á hálfgerðum banntíma, þ.e. meðan sólin er sem sterkust svo enginn annar var úti. Það var engin jólasteik, bara salöt og brauðréttur og afgangur af gumsi. Svo fórum við nú nokkrum sinnum á ströndina og í sjóinn sem var um 28 gráðu heitur. Við skruppum líka í sundlaug sem er niðrí bæ bara eins og tjörnin í Rvík og fór Arinze loksins í sund. Honum fannst það alveg æði og var ekkert hræddur. Ég verð að vera dugleg að fara með hann.

Soldið óvenjuleg jól en mjög góð að mínu mati. Það var mjög notalegt og gaman að hafa Ólöfu og Tómas hér. Þau túristuðust heilmikið og fóru m.a. tvisvar út á kóralrifið. Svo spiluðum við heilmikið á spil á kvöldin og drukkum bjór. Núna er bara mágur minn hér og verður hann framyfir nýár. Þeir bræður ætla á körfuboltaleik á gamlárskvöld svo ég hugsa að ég baki bara pizzu og eldi svo lambalæri á nýársdag frekar.

Arinze er í stuði. Hann fékk 3 tennur í gær. Frekar mikil aukning frá bara einni tönn áður. Hann fékk kvef og erum við foreldrarnir búnir að sleikja það upp úr honum. Frekar fúlt. Hann er líka orðinn soldið stór. Til dæmis þá stökk hann upp úr göngugrindinni sinni. Ég var í tölvunni og hann var ekkert hress með það, hélt í mig og stóð allt í einu við hliðina á mér. Hann klifrar líka upp á allt og er stórhættulegur þegar hann kemst upp í sófa.

Nú er verið að klára garðinn hjá okkur svo vonandi getum við fljótlega farið að leika okkur þar. Arinze finnst svo gaman að skríða á grasi. Hann er orðinn mjög duglegur í leikskólanum og fannst mjög gaman þar síðast. Grenjaði þó af vana þegar ég kom að sækja hann.

Í lokin skelli ég inn mynd sem ég tók af Arinze núna í dag. Hann var að borða sjálfur eins og sést framan í honum. Svo þarf nú kannski að súmma soldið til að sjá tennurnar...

|

miðvikudagur, desember 20, 2006

 

Jólaskap

Í fyrra missti ég af jólunum. Það var ekkert tré, engin ljós, alltof heitt og svona mætti lengi áfram telja. Meir að segja opnuðum við skötuhjú þessa fáu pakka sem við fengum uppi í rúmi á jóladagsmorgun. Núna er ég sko hins vegar komin í mikið jólaskap. Arinze er búinn að fara í jólaklippingu, gestirnir eru allir komnir í hús, jólaseríur í tveimur gluggum, það er fullt af pökkum uppi í skáp, jólastjarna á borðstofuborðinu og 2ja metra gervijólatré í stofunni. Það tók reyndar allt kvöldið að setja það saman og í þessum skrifuðu orðum er það hálf skreytt. Serían komin á og nokkrar kúlur en þar sem ég þarf að setja þráð í kúlurnar þá bíður það morgundagsins enda klukkan næstum eitt um nótt. Ég er ein vakandi þar sem ég á frí í fyrramálið, húsbóndinn er búinn að taka að sér morgunvaktina á morgun eins og í dag. Mín er í góðu skapi á þessari stundu!

|

fimmtudagur, desember 14, 2006

 

Um blogg

Ok, nú megið þið fara að vara ykkur því það virðist sem ég sé á góðri leið með að verða ofurbloggari... Þriðja bloggið bara í dag, fjúff.

Annars langaði mig bara til að spurja hvað er þetta eiginlega með þetta blog.is dæmi? Þegar heimavinnandi húsmóðir í útlöndum hefur ekkert að gera (lesist: nennir ekki að gera eitthvað leiðinlegt) þá fer hún stundum á bloggrall. Byrjar náttúrulega á vinum og vandamönnum sem hafa linka hér til hliðar. En þar sem flestir af þeim eru eymingjabloggarar þá er linkað af þessum hingað og svo þangað. Nú finnst mér bara allir vera farnir að blogga um fréttir, með sínar eigin fréttaskýringar og skúbb. Margt af þessu fólki er fjölmiðlungar sem virðist bara ekki fá nóg af vinnunni sinni. Ekki vorkenna þeim næst þegar þeir kvarta undan of miklu vinnuálagi. Svo kommentar sama fólkið hjá öllum, eins og það fái ekki einu sinni útrás á sínu eigin bloggi.

Mér finnst skemmtilegast að lesa blogg hjá fólki sem ég þekki. Mest skemmtilegast er þegar Mattamín bloggar, en það er eins með hana og margt annað gott að það fæst bara ekki nóg af því. Hún bloggar skemmtilegast þegar hún er í geislavirkri einangrun en ég er nú ekki svo sjálfselsk að ég vilji hafa hana þar bara til að skemmta mér.

Mér finnst líka oft skemmtilegt að lesa blogg fyrrverandi íslenskukennara úr ML. Hún getur verið skemmtileg en þó ekki þegar hún lýsir mjög náið geðveikinni sem hrjáir hana og heldur ekki þegar hún talar illa um ML.

Það er ekki séns að ég myndi blogga byggi ég á Íslandi. Ég byrjaði á þessu til að halda betri tengslum við ykkur heima og held því áfram því það virkar. Samt er ég líka með skype og tala oft við fjölskylduna, sérstaklega núna þegar ég vakna upp fyrir allar aldir með snúði litla (alltaf fyrir 6) og er því við tölvuna á kristilegum íslenskum tíma.

Í dag leiddist heimavinnandi húsmóðurinni ekki neitt og þurfti því ekkert að lesa blogg sjálfskipaðra fréttaritara. Húsmóðirin ein með sjálfri sér þar sem snúðurinn var í leikskólanum í annað skiptið og notaði tækifærið og þreif allt húsið. Sé eftir að hafa fengið mér svona stórt hús með tveimur baðherbergjum. Ég tók meir að segja ísskápinn í gegn þó ég sé bara búin að nota hann í 2 mánuði. Sé eftir að hafa ekki bara kattþvegið hann. Heyrði mömmu í huganum spurja hvort mér liði ekki vel með að vera búin að því. Svarið var "Nei ekkert sérstaklega". En jólin mættu koma á morgun svo ég þurfi ekki að þrífa meir fyrir þau. Í lokin, nú þurfið þið að tékka á mér mörgum sinnum á dag til að missa ekki af neinu markverðu...

|  

Ground beetle.

Hvernig fyndist ykkur að búa í návígi við svona dýr? Ég er nefnilega bara alveg að venjast því. Hef reyndar ekki fengið svona í heimsókn inn og fer ekki sjálf með rusl í ruslatunnuna þegar dimmt er.

|  

Hvað er...

... með fólk sem spænir af stað í bílastæðahúsi og heldur að það sé Michael bloody Schumacher?
og
... fólk sem fer yfir á rauðu sem þriðji bíll þó það sé einhver (já, ÉG) sem þarf að beygja hægri beygju?

Ég var s.s. haldin roadrage í gær. Þurfti bara að pústa.

|

föstudagur, desember 08, 2006

 
Ég má til með að setja inn þessar nýju myndir af prinsinum. Annars er það helst í fréttum að hann fór í fyrsta sinn í leikskólann í gær. Það gekk svona og svona, hann saknaði mömmu sinnar náttúrulega soldið sko. En þetta venst allt og hann á örugglega eftir að njóta sín vel þarna. Hann verður bara einn dag í viku til að byrja með.

Nú eru gestaherbergin tilbúin og aldrei að vita nema ég taki nokkrar myndir þegar rúmfötin eru þurr og setji þá hingað inn. Helga hefur þá nógan tíma til að velja sér herbergi ;) og þið hin getið farið að skipuleggja ykkur..

Hvernig er það, finnst öllum 10 mánaða strákum leiðinlegt þegar mamma er í tölvunni? Verð ég að skella Siggu og Maríu og söngvaborg í tækið enn einu sinni? Kannski ég fari bara að sinna honum.

Þekkja móðursystur mínar þessa höku? Því miður sést ekki tönnin, ég verð að vinna í að ná mynd af henni (ath. við erum að tala um tönn í eintölu)






Í fyrsta húsinu










Sjómaður

|

sunnudagur, desember 03, 2006

 
Nú er sunnudagur og ég að horfa á krikket eins og undanfarna daga. "Ha hvað?" Hljótið þið að spyrja ykkur. Jamm mín er svo dugleg að aðlagast. Nú er rosa krikket keppni í gangi milli Ástralíu og Englands. Þeir spila 6 leiki á einhverjum 2 mánuðum. Nú kann ég aðalreglurnar og svona og held með Englandi. Er ekki viss um að ég haldi að skrifa áfram um krikket, held að heimsóknir á síðuna gætu farið í negatíva tölu svo nóg um það! Okezie vinnur á sunnudögum svo það eru rólegir dagar hjá okkur Arinze. Hann er reyndar búinn að eiga pínu bágt síðustu tvo daga, er að fá fyrstu tönnina loksins og fékk svo líka nefkvef. Ég er nú ekki enn búin að fá að sjá tönnina en hef fundið fyrir henni. Svo ákvað hann núna um helgina að hlýða mömmu sinni og fara að skríða á fjórum fótum enda miklu skemmtilegra að vera ekki alltaf með nefið ofan í gólfinu.

Við förum í fyrramálið á mömmumorguninn okkar. Arinze hélt uppi stuðinu þar í síðustu viku. Ég held að jafnöldrum hans þar þyki nú stundum nóg um stuðið í honum. Hann var til dæmis að æfa ameríska glímu um daginn og skellti hausnum á henni Felicity beint í gólfið. Það sá nú alla vega ekkert á henni...

Jólin verða stuð hér. Ekki nóg með að Nna bróðir Okezie verði hér þá verða Ólöf æskuvinkona mín og hennar maður hér líka. Kannski maður leigi bát og kíki á þetta blessaða kóralrif yfir jólin.


Við erum s.s. búin að prófa ströndina tvisvar

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?