Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

þriðjudagur, janúar 31, 2006

 
Í dag var loksins sett upp auka loftkæling í húsinu okkar. Það hefur staðið til nokkuð lengi og vorum við í raun búin að gefa upp alla von. Einn eigenda apóteksins er hérna núna að vinna fyrir Okezie og var hann hér í húsinu meðan við vorum í burtu og hefur líklega séð sjálfur að þetta gekk náttúrulega ekki. Nú er því ekkert mál að lifa af 40+ stiga hita. Reyndar ræður kælingin bara við stofuna og kannski tölvuherbergið svo við höfum bara lokað á milli herbergja og gamla loftkælingin "sér um" afganginn af húsinu. Ég get ekki lýst hvað þetta er mikill munur. Það var nógu heitt venjulega en enn verra að gefa unganum að drekka og við svitnuðum svo mikið. Þetta er allt miklu betra núna.

Annars er það að frétta af Arinze að hann svaf vært fyrstu nóttina heima hjá sér. Pabbinn vaknaði hins vegar við minnsta hljóð og er hann vanur að rumska aldrei við neitt. Í dag fórum við svo með Arinze á vinnustaði okkar beggja og stóð hann sig eins og hetja við það verk.

Takk öllsömul fyrir hamingjuóskir og kveðjur. Verst að maður getur ekki skroppið með hann í sýningarferð en ég lofa að vera dugleg að setja myndir inn á barnalandið.

|

mánudagur, janúar 30, 2006

 

Barnalandssíðan

Ég er búin að skella inn fullt af myndum af litla kappanum. www.arinze.barnaland.is
Lykilorðið í albúmið og gestabókina er Cairns.

|  

Komin heim

Þarf maður að afsaka bloggleti ef maður hefur góða ástæðu fyrir fjarveru frá tölvu? Nei, held ekki. Eins og stóra systir upplýsti í kommenti hér að neðan þá fæddist frumburðurinn, Arinze Tómas Nzeakor, 26. janúar 2006. Hann var 3900 grömm (næstum 16 merkur, 8pund og 10 únsur). Það fóru nokkrir fram á að fá hann í afmælisgjöf en eftir því sem ég best veit þá stóðum við ekki við það. Nema þá er hann kannski hálfpartinn afmælisgjöf til Bibbu frænku því þegar hann fæddist hér klukkan rúmlega 9 um morgun þá var klukkan 10 að kvöldi 25. jan heima á Íslandi. Ragga Sveins hafði farið fram á að hann fæddist 27. á hennar afmælisdegi sem var bara sanngjörn ósk þar sem hún átti sinn frumburð á mínu afmæli en þetta var ekki í mínum höndum...

Bara svona rétt á meðan ég man ennþá hvað fæðingin var ótrúlega sársaukafull þá vil ég bara vara þær sem hafa ekki lagt í þetta enn við. Arinze Tómas var ´posterior´og eftir hetjulegar ýtingar með örlítilli hjálp frá gasi þá fylltist herbergið af læknum og hjúkrunarfólki sem tók hann út með sogklukku (ekki töngum eins og ég sagði Eyglósunni fyrst). Svo var klippt og skorið (kannski örlitlar ýkjur) og ég held ég viti núna hvering það er að fá spark frá fótboltamanni í támjóum skóm upp í óæðri endann. En nú er ég kannski búin að vera hæfilega ruddaleg í frásögn. Þetta er svo líka allt að gleymast núna og hér að neðan fáið þið að sjá myndir af litla stráknum mínum sem mér finnst svo yndislegur.



Fyrsta baðið á sjúkrahúsinu.

Lubbalíus alveg undrandi á þessu öllu saman! Hér eru börn reifuð í teppi og engar sængur notaðar. Þetta á að gera börn rólegri þar sem þau eru vön því að hafa lítið pláss og vekja sig ekki með höndunum.

Frekar þreytuleg mamman.

|

miðvikudagur, janúar 18, 2006

 

Skammdegi í Cobar

Það var yndislegt sólarleysi hér frameftir degi. Ég naut þess í botn að kúra mig undir sæng og horfa á sjónvarpið í íslensku skammdegisrökkri um hádegisbilið og lét þrumur ekki hræða mig. Meir að segja ljósið blikkaði nokkrum sinnum í baráttunni við rafmagnið eða skortinn á því altsvo. Svo rigndi eins og hellt væri úr fötu og úti er ilmandi gróðurlykt í stað eyðimerkurhitasvækjunnar. Hitastigið fór ekki einu sinni yfir 30 stig og ég hefði farið í síðbuxur ef ég bara passaði í svoleiðis lengur.

|

laugardagur, janúar 14, 2006

 
Síðasti dagurinn í vinnunni var á föstudaginn og nú verð ég í fullu starfi að bíða eftir fyrstu samdráttum! Ég var mjög fegin að klára í vinnunni enda bæði orðin þreytt á fullri vinnu og þreytt á að kenna konunni sem tók við af mér. Ég á samt örugglega eftir að sakna vinnunnar að mörgu leyti, alla vega morgunkaffisins og hádegishlésins... Það hefur verið dekstrað við mig þarna, afmæliskaffi á afmælinu mínu, tvær "babyshower", svo tóku nokkrar mig í kveðjulunch og svo á þriðjudaginn er kveðjupartý. Ég lofaði starfsfólki og vistmönnum að fyrsta heimsókn litla mannsins yrði að vera í vinnunna og mun ég að sjálfsögðu standa við það.

|

miðvikudagur, janúar 11, 2006

 
Það fauk rosalega í mig í gær yfir "frétt" í sjónvarpinu hér í gær. Þannig var að amerískir hermenn björguðu barni með fæðingargalla í Írak og vippuðu því yfir til Ameríku til að fá rándýra meðferð. Þetta finnst mér ekki vera frétt, þetta er bara áróður. Góðu hermennirnir! Góði herinn að bjarga! Hvað eru þessir sömu hermenn búnir að valda dauða margra barna, eða gera mörg börn munaðarlaus? Fyrir utan spurninguna um hversu mörg börn í Ameríku fá enga meðferð vegna heilbrigðiskerfisins þar. Þetta finnst mér reyndar sýna siðblindu Bandaríkjamanna vel. Ég vona að fjölmiðlarnir heima hafi ekki fallið fyrir þessum áróðri og gert að frétt.

|

þriðjudagur, janúar 10, 2006

 
Nú er ég held ég alveg tilbúin. Við fórum til Dubbo um helgina og keyptum kerru, bað og dýnu í vögguna ásamt fleiru. Svo er ég búin undirbúa eitt herbergi undir barnadót. Við fórum líka í smá kynningarferð um fæðingardeildina svo nú má afkvæmið koma. Ég er reyndar enn að vinna, síðasti dagurinn er á föstudaginn og svo fer ég líklega í næstu viku í nokkra tíma kannski tvo daga að hjálpa til. Öll síðasta vika fór í þjálfun konunnar sem tekur við af mér og sú þjálfun stendur enn yfir.

Ég á örugglega eftir að sakna vinnunnar soldið. Reyndar ekki vinnunnar sjálfrar heldur starfsfólksins sem hefur tekið mér mjög vel og er mjög vinsamlegt að öllu leyti. Ég verð reyndar líka fegin að hætta þar sem ég er mjög þreytt þegar ég kem heim á kvöldin og hitinn fer ekkert vel í mig. Það verður gott að fá nokkra daga í afslöppun og jafnvel að maður skelli sér í sund þá. Reyndar væri það svo sem vel þegið að komast bara af stað í næstu viku, ég get varla beðið eftir að fá ungann í hendurnar (og þar með losna við bumbuna og bakverkinn). Ég er búin að stofna barnalandssíðu eins og allir samviskusamir íslenskir foreldrar og læt ykkur vita slóðina þegar unginn er fæddur og eitthvað er á síðunni.

Í vinnunni hefur verið opnaður veðbanki til að veðja á hvaða dag drengurinn mætir á svæðið. Áætlaður dagur skv. sónar er 23. janúar, eruð þið með einhverjar tillögur?

|

fimmtudagur, janúar 05, 2006

 
Á nýársdag fannst ungur strákur meðvitundarlaus fyrir utan húsið sitt hér í Cobar. Hann hafði farið út að skokka (í 44 stiga hita!) og sá sem kom að honum hélt að yfir hann hefði liðið af vökvaskorti. Hann var náttúrulega sendur upp á spítala þar sem hann dó. Í ljós kom að hann hafði verið bitinn af snáki þannig að meðferð við vökvaskorti dugði skammt. Hann hafði reynt að skríða heim ´til sín svo hann hlýtur að hafa verið mjög kvalinn áður en hann dó. Finnst ykkur þetta ekki óhugnanlegt?

Hér verða mánuðir að vikum og vikur að dögum fyrr en varir. Ég á núna bara eftir að vinna í viku og er á fullu að kenna arftaka mínum í vinnunni tökin. Það mun taka tvær vikur. Ég fékk tvo daga, með viku millibili, í þjálfun þegar ég byrjaði. Í gær var önnur babyshower fyrir mig. Í þetta sinn voru það vistmennirnir og sjálfboðaliðarnir sem héldu það. Gjafirnar voru nú ekki eins margar og í fyrri "barnasturtunni" en ég átti frekar bágt með mig þetta var svo sætt. Þetta var á sama tíma og formlega afmælispartýið fyrir eina konuna. Hún varð 105 ára þann 1. janúar og á því fæðingardaginn 01.01.01. Bæjarstjórinn kom og afhenti blóm, hún fékk bréf frá Elísabetu Englandsdrottningu, John Howard forsetisráðherra og þingamanninum. Ljósmyndari frá bæjarblaðinu tók líka myndir af henni og mér líka með vistmönnum. Vonandi kemur það nú ekki í blaðinu.

Helgin verður notuð í að leggja lokahönd á undirbúning. Við bregðum okkur meðal annars í bæjarferð á sunnudaginn til að kaupa kerru og fleira. Það er allt að verða tilbúið.

|

mánudagur, janúar 02, 2006

 

Gleðilegt ár!

Gleðilegt ár öllsömul og takk fyrir gamla árið.
2005 var gott ár fyrir okkur og viðburðaríkt og það lítur út fyrir að 2006 verði enn viðburðaríkara. Áramótin sjálf voru ekkert sérlega ánægjuleg reyndar þó ég væri í fríi frá föstudegi til mánudags. Bæði gamlársdagur og nýársdagur voru heitustu dagarnir til þessa og legg ég til og mæli um að Cobar taki við af Dimmuborgum (eða Heklu) sem inngangur helvítis. Hitinn fór upp í 45 gráður og var bara óbærilegur. Báða dagana flúðum við heimilið og drápum tímann í apótekinu þar sem loftkælingin er mun betri þar en hér. Reyndar komumst við að því seinni daginn að líklega er betra að slökkva á kerfinu eftir að hitinn fer yfir 40 gráður. Það er erfitt að lýsa svona hita. Allt verður einhvern veginn heitt. Sápan í sturtunni, veggirnir, klósettsetan og meir að segja kalda vatnið í krananum. Ég fór í 3 sturtur yfir miðjan daginn og píndi mig líka til að leggja mig til að láta tímann líða hraðar. Þegar ég vaknaði og var næstum farin að grenja (í alvöru) þá fórum við í apótekið og vorum í tölvunum þar og tókum reyndar líka með okkur bækur til að lesa. Það er svo skrýtið að þegar sólin er sest og myrkur úti þá kólnar næstum ekki neitt, klukkan 9 í gærkvöldi var enn 40 gráðu hiti. Þetta er náttúrulega bara rugl. Við erum búin að drekka endalaust þessa helgi. Drukkum til dæmis djús úr 3 lítrum af mixi, 2 lítra af appelsínusafa, 2 lítra af kóki, 1 lítra af sódavatni, mjólk og fleira. Svo þarf ekki einu sinni að pissa þessu. Þetta voru ekki réttu dagarnir til að vera heima í fríi, það get ég sagt ykkur. Nú ár reyndar að vera kaldara í vikunni, bara fara upp í 39 gráður og það er alveg viðráðanlegt.

Við teljum nú niður vikurnar, bara 3 vikur í áætlaðan fæðingardag og ég ætla að vinna næstu 2 vikurnar. Ég er orðin frekar stirð og þung á mér og hlakka til að ljúka þessu af. Ég vona bara að það verði ekki fleiri svona heitir dagar því þeir gera mér engan greiða! Vona að þið öll hafið átt ánægjulegri áramót en við...

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?