Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

fimmtudagur, september 29, 2005

 

Kaldhæðni örlaganna

Það var frekar kalt í morgun þegar ég gekk í vinnuna. Sólin skein en vindurinn var ansi napur svo ég skellti mér í jakka og hélt af stað. Í jákvæðni minni hugsaði ég þó með mér að alla vega væru flugurnar sem hafa gert mér lífið leitt/óbærilegt síðustu morgna stæðu alla vega ekki í þeirri trú að ég væri almenningssamgöngur þeirra í þessum kulda. Svo ég gekk í þetta venjulega korter í vinnuna nokkuð ánægð. Ég átti ekki mörg skref óstigin þegar agressívi magpie-inn (kannski skjór, veit samt ekki) tók eitt laglegt kríuflug yfir hausinn á mér. Magpie er álíka stór og hrafn, hvítur og svartur og gefur frá sér alveg skelfilega leiðinlegt garg. Þessi tiltekni magpie býr í einu trjánna nálægt vinnunni og hefur verið í hlutverki ógnvalds síðustu vikur enda í hreiðurgerð. Um daginn kom svo maður í heimsókn í vinnuna frá wildlife services þar sem búið var að kvarta og kona sem hafði verið á gangi með barn sitt vildi að hann yrði skotinn. Við börðumst hatrammlega gegn þvílíkri villimennsku og sögðumst aldrei hafa lent í neinu. Tveimur dögum síðar var einn vistmannanna goggaður til blóðs og þurfti að fá tetanus bólusetningu. Ég get ekki líst því hvað mér brá rosalega við að heyra háan vængjaþyt rétt yfir höfðinu á mér og sjá stóran skugga fuglsins fyrir framan mig. Í kvöld tek ég til minna ráða svo þetta endurtaki sig ekki. Nei, ég ætla ekki að heimsækja hann með byssu, hins vegar ætla ég að föndra augu til að setja ofan á derhúfu sem ég get haft á hausnum í fyrramálið. Haldið þið að það verði ekki flott? Annars held ég bara að ég kjósi frekar að hafa flugurnar í nefinu en magpie sveimandi yfir höfðinu.

Comments: Skrifa ummæli

<< Home
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?