Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

sunnudagur, febrúar 26, 2006

 

Mánaðargamall

Jæja, í dag á Arinze sitt fyrsta "afmæli", mánaðargamall kappinn. Mér finnst það hljóti að vera lengri tími liðinn síðan ég stóð í þessum stórræðum. Þessi mánuður hefur liðið frekar hægt enda lengri en aðrir mánuðir telji maður í vökustundum. Það er farið að bera á örlitlum baugum á mömmunni.

Fyrstu vikurnar vildi Arinze ekki sofa mikið á daginn en nú er það orðið mun betra. Þá er hægt að leggja sig með honum og jafnvel þvo þvott og elda mat. Það munar miklu. Hann er ógurlega yndislegur að mati foreldranna sem geta horft á hann endalaust og finnst allt fyndið sem hann gerir. Hann verður til dæmis alveg eins og sjóræningi í framan þegar hann leitar eftir brjóstinu og er þá stundum freistandi að láta hann hafa soldið fyrir því að finna það.

Hann er farinn að brosa til mömmu sinnar. Stundum óviljandi en oftast alveg meðvitað. Ekki reyna að halda öðru fram! Þessi bros koma alltaf þegar hann er búinn að fá að drekka, svona eins og til að segja "takk fyrir matinn, hann var góður".

Arinze finnst voða notalegt að fara út í kerrunni. Það er enn svo heitt að yfirleitt er hann bara á samfellunni. Mér verður oft hugsað heim og verið fegin að þurfa ekki að klæða í allar útiflíkurnar. Eftir að hafa grenjað soldið í fyrstu böðunum þá finnst honum voða notalegt að vera baðaður núna og lygnir þá aftur augunum. Það er ekki alveg eins gaman þegar það á að þurrka kroppinn samt.

Arinze á lítið leikteppi sem hann hefur ekki litið við þangað til í gær. Þá lá hann í lengri tíma og reyndi að ná í það sem hangir niður úr því og hafði gaman af.

Ég setti inn aðeins fleiri myndir á barnalandssíðuna í gær, reyndar ekkert mjög margar.

|

fimmtudagur, febrúar 23, 2006

 

Bolludagur

Ég sá í auglýsingunum í Fréttablaðinu að bolludagurinn er að koma. Ég hef ekki fengið bollu síðan árið 2000 þar sem ég hef ekki verið heima á þessum tíma árs síðan þá. Á ekki einhver mjög einfalda uppskrift af vatnsdeigsbollum sem er ekki hægt að klúðra? Ég nenni ekki að gera þetta ef það er séns á að það mistakist. Uppskriftir sendist á thorhildur_ingadottir@yahoo.com.au
Ég væri sko alveg til í að troða mig út af bollum með búðingi og rjóma þetta árið.

|  

Strákarnir mínir


|

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

 

Til

hamingju með afmælið Gullan mín! Fyrir þá sem ekki fylgjast með þá er hún núna í London að bjarga heiminum, er alla vega búin að læra hvernig á að gera það.

|

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

 
Ég má til með að deila með ykkur tveimur gamansögum úr lífi nýbakaðra foreldra. Þær eiga það sameiginlegt að gerast báðar um nótt eða snemmmorguns og segja frá okkur svefnrugluðum. Þannig er að Arinze fær oftast að koma upp í eftir seinni gjöf á nóttunni, aðallega vegna þess að ég er svo syfjuð að ég meika ekki að sitja við gjöfina. Við liggjum sem sagt saman, ég dotta og Arinze drekkur. Þunnt er móðureyrað og allt það en það er ekki hægt að segja það sama um föðureyrað sem sefur á sínu græna og tekur yfirleitt ekki eftir því þegar erfinginn er kominn upp í. Til að pabbinn kremji nú ekki ungann er ég ansi góð í að verja hann þó ég sé sofandi. Eina nóttina fannst mér Okezie koma eitthvað of nálægt okkur Arinze svo ég ýtti honum í burtu og segi honum að hann sé að leggjast ofan á Arinze. Þegar hann svaraði einhverju til baka vaknaði ég og sá þá að ég hélt utan um koddann hans Okezie með annarri og notaði hina til að verja hann þennan sama kodda svona svakalega vel fyrir Okezie.

Í hitt skiptið þá var ég reyndar vakandi enda klukkan um 7 og Arinze var að drekka. Ég hafði sett vekjaraklukkuna á milli okkar til að vita hvað tímanum leið þar sem ég missi algjörlega tímaskynið við gjöf. Okezie opnaði annað augað til hálfs og sá Arinze í rúminu, lyfti sér aðeins upp og smellti kossi á vekjaraklukkuna. Svipurinn á honum var óborganlegur þegar hann áttaði sig á því að hann hafði tekið feil á klukkunni sem þó er svört og kollinum á drengnum.

Hvenær fáum við aftur ótruflaðan svefn?

|

laugardagur, febrúar 18, 2006

 
Fyrir akkúrat 5 árum fór ég á djamm með Þjóðverja, Ástrala og tveimur Bretum. Þetta var í Manchester en þar var ég búin að vera í 3 vikur sem Erasmusnemi. Ég lofaði mömmu og Möttu að eignast ekki kærasta og hélt ég að það væri auðvelt að standa við. Á þessu djammi hitti ég ungan pilt sem sannfærði mig um að hann væri góður strákur og ég hélt að það væri nú allt í lagi að eiga smá fling með honum. Það myndi bara gera þessa námsferð skemmtilegri og kannski líka eftirminnilegri. Þetta fling átti náttúrulega alls ekki að endast enda var ég samviskusamlega búin að gefa umrætt loforð og auk þess var hann soldið yngri en ég líka. Ungi pilturinn var að sjálfsögðu hann Okezie minn og nú erum við búin að vera saman í 5 ár, barnið komið og húsið á leiðinni. Tíminn hefur bæði liðið hægt og hratt. Það virðist vera óratími síðan við hittumst fyrst en samt svo stutt síðan. Við gerðum ekkert til að halda upp á þennan merkisatburð nema að klára valmöppuna fyrir húsið okkar og telja soninn á að fara að sofa. Skál fyrir því.

|

mánudagur, febrúar 13, 2006

 
Hvernig fara konur sem hafa ekki kapalsjónvarp og þ.a.l ekki sjónvarp á daginn að því að gefa brjóst? Ég hefði ekki eirð í mér til þess.

Já og hvernig fer fólk að með tvíbura? Mér finnst nóg að gera hjá mér með eitt stykki. Kannski að nýbakaða móðirin hún Ósk vinkona mín geti svarað því. Hún eignaðist þann 1. febrúar strák og stelpu, til hamingju með það. Reyndar á ég ekki von á því að hún hafi nokkurn tíma til að lesa blogg þessa dagana. Ég get ekki ímyndað mér hvernig það er hægt að gefa tveimur börnum að drekka, skipta á tveimur o.s.frv. En allur pakkinn er kominn ef út í það er farið...

Okezie fór að vinna í dag eftir 3 vikna frí. Við Arinze fórum í tvo göngutúra og kíktum á pabbann í vinnunni svo þeir þyrftu nú ekki að sakna hvors annars. Annars er dagurinn búinn að vera fínn. Minn maður hefur nennt að sofa á milli gjafa og er það gott. Hann svaf eiginlega alla nóttina líka svo ég er úthvíld.

Nú heyri ég í honum vakna svo það er best að fara að opna sjoppuna :)

|

miðvikudagur, febrúar 08, 2006

 

Hún...

Helga mín á afmæli í dag. Til hamingju með daginn!

|

mánudagur, febrúar 06, 2006

 

Fleiri myndir...

...eru komnar inn á www.arinze.barnaland.is

|

miðvikudagur, febrúar 01, 2006

 
Eitthvað var ég fljót á mér að fagna loftkælingunni. Hún virkaði ekki í morgun! Í dag er búið að vera ó svo heitt og við svitnum hér saman litla fjölskyldan. Það kom í ljós að mennirnir sem settu upp kælinguna gerðu það ekki alveg rétt svo allt gasið á henni lak út og við þurfum að fá annan mann sem er voða bissí til að laga það. Vona bara að það verði lagað á morgun, við höldum ekki út svona mikinn hita!

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?