Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

laugardagur, desember 24, 2005

 

Aðfangadagur

Þá er lítið eftir af minnsta aðfangadegi í mínu lífi. Okezie vann til hálf eitt og eyddi ég morgninum í að undirbúa jólin. Bjó til salat og fleira, fór í almennilegt jólabað og talaði meir að segja við Helgu mína í símann.Um miðjan daginn horfðum við svo á jólamynd á dvd og fórum svo í kvöld í messu. Það er ástæða þessara skrifa. Ég fer ekki oft í messu. Fór síðast nauðug viljuð í messu á gamlárskvöld á Hvammstanga á síðasta ári. Ég fór aldrei í Englandi og í fyrsta sinn hér í Ástralíu í kvöld. Þó þetta eigi að vera sama kirkjan og þjóðkirkjan þá var athöfnin frekar öðruvísi. Fæstir voru uppáklæddir (reyndar eru Ástralir með eindæmum frjálslyndir í klæðaburði) og presturinn spilaði á orgelið þegar það átti við og enginn var kórinn. Það var því undir söfnuðnum komið að halda lagi. Eins og heima þurftum við reyndar að standa upp og setjast niður oftar en kasóléttri konu fellur í geð. Svo kom að því að taka við sakramenti. Ég hef ekki gert það síðan á fermingu og gugnaði næstum á því. Fannst ekki geðslegt að drekka úr sama kaleik og allir hinir. Svo kom að því og af útliti prestsins að dæma og olnbogaskoti frá Okezie var greinilegt að ég var að gera eitthvað vitlaust. Vissuð þið að maður á að halda höndunum á vissan hátt? Ég nefnilega vissi það ekkert og horfði bara eins og álka á prestinn. Frekar vandræðalegt. Ég passaði mig svo bara á því að tala við hann eftirá svo hann vissi örugglega að ég væri útlendingur... Hér borðar fólk líkama Krists og drekkur blóðið á hverjum sunnudegi. Mig minnir hins vegar að við "gerum" það bara á páskum heima. Kannski er það vitleysa í mér. En alla vega, nú ættu jólin að fara að koma.

|

föstudagur, desember 23, 2005

 

Þetta er ekki hægt!

Hitinn fór í 45 gráður í dag. Loftkælingin gekk í húsinu mínu í allan dag en þó var ólíft þar inni eftir vinnu. Ég fór í kalda sturtu og ætlaði ekki að hafa mig úr henni. Þurfti ekki einu sinni að þurrka mér, hitinn sá um það. Ég komst að því að það eru takmörk fyrir því hvað það er hægt að kæla sig lengi með því að drekka vatn og borða ís og klaka. Eftir það gripum við til úrþrifaráða, fórum í bíltúr. Það virkaði ansi vel, loftkælingin er betri í bílnum en húsinu. Kannski að ég eigi eftir að skella bílnum bara í gang og loftkælingunni með og sitja svo bara fyrir utan húsið. Sem betur fer á ekki að vera eins heitt næstu tvo daga. Þetta er einfaldlega ekki hægt!

|

mánudagur, desember 19, 2005

 

Draugaspurning

Veit einhver hvernig draugar geta labbað óvart í gegnum vegg eða dottið þannig út úr húsi en samt gengið á gólfi án þess að detta í gegnum það? Ég er búin að spá í þessu síðan ég sá trailer með myndinni sem Reese Witherspoon og einhver eru í. Svör óskast.

|

laugardagur, desember 17, 2005

 

Allt í lagi Erla, ég skal gera þetta...

7 hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey

1. Roadtrip um Bandaríkin
2. Fara á U2 tónleika, helst á Írlandi
3. Læra spænsku
4. Finna leið til að bjarga heiminum
5. Byggja hús
6. Klára þennan lista
7. Vökva garðinn nógu oft til að grasið verði grænt


7 hlutir sem ég get gert

1. Nánast farið úr axlarlið og þumalputtalið og með því látið aðra fá klígju.
2. Vélritað mjög hratt.
3. Sofnað hvar og hvenær sem er.
4. Farið í sólbað um jólin.
5. Borðað vínber og fíkjur úr garðinum mínum.
6. Rifist upp úr svefni
7. Brúnað kartöflur

7 hlutir sem ég get ekki gert

1. Sungið
2. Sagt brandara
3. Fengið sólbrúnku
4. Stundað líkamsrækt
5. Skroppið heim um jólin - eins og ég væri til í það.
6. Synt í mjög köldu vatni.
7. Stokkið fallhlífarstökk

7 frægir karlmenn sem „heilla“ mig

1. Paolo Maldini
2. Elvis
3. Luis Figo
4. Ashton Kutcher
Mér dettur bara ekki neinn annar í hug

7 orð sem ég segi oft

1. Lilliane Brady Village
2. Sorry
3. Thank you
4. Ha?
5. Ái!
6. Shit
7. Hello

Þetta var hrikalega erfitt svo ég ætla ekki að kitla neinn... nema Möttu, hún hefur gott af því að gera þetta ;)

|

fimmtudagur, desember 15, 2005

 

Meira af baby shower

Ég er búin að ná mér nokkurn veginn eftir gærdaginn. Í dag fékk ég svo fleiri gjafir frá konum sem komust ekki í gærkvöldi. Stillti herlegheitunum upp svo að þið gætuð séð líka. Finnst ykkur þetta ekki brjálæði?|

miðvikudagur, desember 14, 2005

 

Óvænt baby shower

Ég er rétt að ná mér niður núna. Ég var að koma heim frá óvæntri "baby shower". Konurnar í vinnunni voru búnar að skipuleggja kvöld í einum klúbbnum með kínverskum mat og fullu borði af gjöfum handa mér og bumbubúanum. Það voru rúmlega tuttugu konur þarna og nú á ég fullt af allskonar barnadóti, teppum, samfellum, nærskyrtum, wraps, og meir að segja barnasápu og kremi og böngsum og ýmsu fleiru. Þær fengu Okezie í lið með sér. Hann lét mig halda að við værum á leiðinni á rúgbýkvöld. Ég ætlaði ekki að nenna með honum en druslaðist svo. Mig var reyndar farið að gruna að það væri eitthvað í gangi því hann dreif mig út áður en Friends var búið, lagði til að ég skipti um bol og svo sá ég bílinn hennar Sharonar sem er mín yfirmanneskja fyrir utan klúbbinn. Ég átti samt frekar von á að þetta væri snemmbúið kveðjupartý þar sem ég vissi að það væri búið að skipuleggja baby shower í byrjun janúar í vinnunni. En þetta var alveg yndislegt kvöld og ég trúi bara ekki öllum þessum gjöfum. Jólin komu snemma í ár!

|

mánudagur, desember 12, 2005

 

Spegill spegill herm þú mér

Í hitanum borða ég ís á hverjum degi með bestu samvisku. Það er trúlega þó ekki það besta sem ég get gert í ljósi nýjustu frétta af fegurð heimsins. Þið haldið kannski öll að þetta sé hið besta mál og góð landkynning en því get ég ekki verið sammála. Þannig er nefnilega fólk hérna sem þekkir mig hefur minnst á þetta við mig í allan dag. Gallinn við það er í fyrsta lagi sá að ég er ekki frá því að allir séu ægilega hissa á því að fallegasta kona í heimi geti mögulega verið frá sama landi og ég og í öðru lagi setur þetta að sjálfsögðu á mig ægilega pressu að vera alltaf voða fín og sæt og tilhöfð. Sem er ekki mjög auðvelt í 40 stiga hita (ég rjóð og glansandi með klessuhár alla daga) og svo er náttúrulega áberandi skorturinn á þvengmjóu mitti í augnablikinu. Kannski að ég segist bara vera frá Finnlandi þangað til Missí er öllum gleymd - sennilega á fimmtudaginn sem sagt.

|

fimmtudagur, desember 08, 2005

 

Cobarians, það erum við...

Ég er ekki frá því að aðlögunarhæfni okkar Okezie sé aðeins of góð. Í gærkvöldi fannst okkur við vera orðin innvígð þar sem við fórum á danssýningu kallaða 'Sound of Music - Cobar Style'. Þar sátum við í 3 tíma og horfðum á þorpsbúa syngja og dansa að því virtist endalaust. Þarna var kona sem við þekkjum og krakkarnir hennar en að auki þekktum við svona þriðjung áhorfenda. Okezie þekkir reyndar alla yfir 60 ára með nafni. Í kvöld fórum við svo á aðal barinn hérna. Eigandinn var að selja og þurfti að klára vissan leik áður en skiptin verða. Leikurinn er þannig að í hverri viku selja þeir miða og sá sem er dreginn út fær að velja eitt spil af vegg í þeirri von að finna jókerinn. Sá sem fær jókerinn vinnur peningaupphæð. Það er bara eitt spil valið í hverri viku og hækkar því potturinn alltaf um 1000 dollara (50 000) þegar jókerinn finnst ekki. Potturinn var kominn upp í 17 000 dollara eða um 850 000 og í kvöld var dregið þangað til jókerinn fannst. Fólk stóð fyrir utan þar sem ekki komust allir inn. Þetta tók alltof langan tíma og auðvitað unnum við ekki neitt frekar en fyrri daginn.

|

mánudagur, desember 05, 2005

 

Ég veit núna

hvernig það er að vera í 40 stiga hita. Eins og í hárblásara. Heitt!

|

föstudagur, desember 02, 2005

 

Dauðarefsing

Ég er algjörlega á móti dauðarefsingu, sama hvernig glæpur var framinn. Jú oft finnst manni að fólk sem fremur skelfilega glæpi eigi ekkert annað skilið en að deyja en ég er þó á þeirri skoðun að enginn, sama í hvaða stöðu hann er, sama hvaða upplýsingar hann hefur og svo framvegis eigi að geta tekið þá ákvörðun að deyða annan mann.

Hérna í Ástralíu er eitt málið búið að reka annað í fjölmiðlum síðan við komum hingað. Fyrst var það Schapelle Corby sem var tekin með stóran poka af hassi á flugvellinum í Balí. Hún fékk reyndar ekki dauðadóm en þarf að sitja inni í 20 ár eða svo. Flestir eru þó á þeirri skoðun að hún sé saklaus þar sem það meikar ekki mikinn sens að smygla dópi frá Ástralíu til Balí peningalega séð. Margir telja að hún hafi verið fórnarlamb smyglhrings og hassið hafi átt að fara frá Sydney til Brisbane en hafi verið sett í vitlausa tösku. Ef rétt er þá er það náttúrulega hræðilegt.

Svo voru það nímenningarnir sem voru teknir með heróín (ef ég man rétt, er ekki mjög fróð í dópmálum) innanklæða. Þar var ekki hægt að því við að þeir hafi ekki vitað af þessu. Hins vegar halda þau því fram að þeim hafi verið hótað lífláti og að fjölskyldurnar þeirra væru í hættu færu þau ekki með dópið frá Balí til Ástralíu. Þeirra óheppni felst aðallega í því að hafa verið tekin á Balí áður en þau fóru úr landi til Ástralíu. Þeirra bíður dauðadómur.

Í morgun var svo aftaka í Singapore. Þar var hengdur 25 ára strákur frá Melbourne. Hann reyndi að smygla heróíni til Singapore fyrir tveimur árum.

Hér vita allir hvaða refsing liggur við því að smygla dópi, eða reyndar bara hafa það undir höndum, í þessum löndum. Það veit því á hverju það á von sé því náð. Hvernig dettur þeim í hug að ætlast til að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að fá þau framseld eða fái dóma mildaða af því að þau eru áströlsk? Ef fólk er nógu heimskt til að láta verða af glæpnum þá verður það líka að geta tekið dómnum! Svo grætur fólk örlög þessa unga manns sem átti framtíðina fyrir sér bla bla bla. Ég er á móti dauðarefsingum en ég er líka jafn mikið á móti öllu dópi. Hvað heldur þetta fólk sem grætur örlög þeirra sem reyna að koma dópi í umferð að hefði orðið um þá sem hefðu keypt það hefði honum ekki verið náð? Og hvað mörg börn í Brasilíu (eða hvaðan sem dópið svo sem kom frá upprunalega) dóu við framleiðslu eða önnur þau stig sem nauðsynleg eru til að koma efninu frá framleiðanda til notanda?

Já eitt málið hefur rekið annað síðan við komum hingað og ég get sagt ykkur að mér gæti ekki staðið meira á sama um afdrif þessa fólks. Og þar sem fyrsta frétt er alltaf um þessa vitleysinga þá horfi ég nánast aldrei á ástralskar fréttir. Þá eru líka ekki-fréttirnar á mbl.is og visir.is skemmtilegri.

|

fimmtudagur, desember 01, 2005

 

1. des

Nú þarf að hrökkva í jólagírinn. Það er kominn desember og þó ég eigi ekki aðventudagatal eða aðventukrans eða dagatalskerti þá tekur það ekki mikið á að telja niður dagana. Ég átti súkkulaðidagatal á hverju ári þangað til ég var orðin þónokkuð stór en nú eru molarnir ekki nógu stórir lengur. Neibb, það er heilt stykki á dag, dugar ekkert minna. Mér varð í dag hugsað til þess þegar Maggý og Gulla náðu að gabba mig soldið í sambandi við súkkulaðidagatal. Þannig var að við áttum allar að sjálfsögðu dagatal. Þær voru heima hjá mér og lögðu til að við myndum bara borða allt dagatalið, þegar mitt væri búið þá færum við svo heim til þeirra og borðuðum þeirra saman. Einhverra hluta vegna þá voru þær svo alveg saddar þegar mitt var búið og þurftu einmitt líka að fara heim. Þið skuldið mér stelpur (ekki senda mér þó í pósti þar sem súkkulaði bráðnar fljótt í 30+ í póstkassa).

Á 1. des flaggið þið væntanlega eins og venjulega. Ef þið hittið Helgu væruð þið til í að segja henni að þið flaggið fyrir pabba hennar, hann á nefnilega afmæli í dag. Helga er nýbúin að komast að því að landsmenn flagga fyrir fullveldisdeginum, ekki bara pabba hennar.

Ég sá í gær þá allra stærstu könguló sem ég hef séð óuppstoppaða. Huntsman kallast hún og var lófastór með þykka og loðna leggi. Hún hafði gert sig heimankomna í matsalnum í vinnunni en var rekin út með kústi. Hún er því ekki sundurkramin neins staðar, var bara gerð útlægð. Önnur kvikindi baga mig þó meira persónulega því núna eru moskítóflugurnar komnar á kreik eins og þið gætuð séð á olnboganum og ökklanum á mér væruð þið hér. Ég er víst girnileg í augum moskítóflugna, sérstaklega núna svona full af blóði og heitfeng. Ekki gaman að því.

Fyrsta jólapartýið á morgun. Vinnan hans Okezie fer þá út að borða. Næsta föstudag er svo jólapartý í vinnunni hjá mér, næsta sunnudag hjá ruðningsliðinu (hugsa að ég sleppi því) og svo seinna í mánuðnum í vinnunni með vistmönnunum.

Jólaserían upp um helgina, kannski smá bakstur og svo ætla ég í smá hugleiðslu og ímynda mér nokkurra stiga frost, myrkur og jafnvel læt ég eftir mér pínu jólasnjó. Mér finnst ég enn vera að svindla að undirbúa jólin í 30 stiga hita.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?