mánudagur, desember 12, 2005
Spegill spegill herm þú mér
Í hitanum borða ég ís á hverjum degi með bestu samvisku. Það er trúlega þó ekki það besta sem ég get gert í ljósi nýjustu frétta af fegurð heimsins. Þið haldið kannski öll að þetta sé hið besta mál og góð landkynning en því get ég ekki verið sammála. Þannig er nefnilega fólk hérna sem þekkir mig hefur minnst á þetta við mig í allan dag. Gallinn við það er í fyrsta lagi sá að ég er ekki frá því að allir séu ægilega hissa á því að fallegasta kona í heimi geti mögulega verið frá sama landi og ég og í öðru lagi setur þetta að sjálfsögðu á mig ægilega pressu að vera alltaf voða fín og sæt og tilhöfð. Sem er ekki mjög auðvelt í 40 stiga hita (ég rjóð og glansandi með klessuhár alla daga) og svo er náttúrulega áberandi skorturinn á þvengmjóu mitti í augnablikinu. Kannski að ég segist bara vera frá Finnlandi þangað til Missí er öllum gleymd - sennilega á fimmtudaginn sem sagt.
|