Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

fimmtudagur, desember 01, 2005

 

1. des

Nú þarf að hrökkva í jólagírinn. Það er kominn desember og þó ég eigi ekki aðventudagatal eða aðventukrans eða dagatalskerti þá tekur það ekki mikið á að telja niður dagana. Ég átti súkkulaðidagatal á hverju ári þangað til ég var orðin þónokkuð stór en nú eru molarnir ekki nógu stórir lengur. Neibb, það er heilt stykki á dag, dugar ekkert minna. Mér varð í dag hugsað til þess þegar Maggý og Gulla náðu að gabba mig soldið í sambandi við súkkulaðidagatal. Þannig var að við áttum allar að sjálfsögðu dagatal. Þær voru heima hjá mér og lögðu til að við myndum bara borða allt dagatalið, þegar mitt væri búið þá færum við svo heim til þeirra og borðuðum þeirra saman. Einhverra hluta vegna þá voru þær svo alveg saddar þegar mitt var búið og þurftu einmitt líka að fara heim. Þið skuldið mér stelpur (ekki senda mér þó í pósti þar sem súkkulaði bráðnar fljótt í 30+ í póstkassa).

Á 1. des flaggið þið væntanlega eins og venjulega. Ef þið hittið Helgu væruð þið til í að segja henni að þið flaggið fyrir pabba hennar, hann á nefnilega afmæli í dag. Helga er nýbúin að komast að því að landsmenn flagga fyrir fullveldisdeginum, ekki bara pabba hennar.

Ég sá í gær þá allra stærstu könguló sem ég hef séð óuppstoppaða. Huntsman kallast hún og var lófastór með þykka og loðna leggi. Hún hafði gert sig heimankomna í matsalnum í vinnunni en var rekin út með kústi. Hún er því ekki sundurkramin neins staðar, var bara gerð útlægð. Önnur kvikindi baga mig þó meira persónulega því núna eru moskítóflugurnar komnar á kreik eins og þið gætuð séð á olnboganum og ökklanum á mér væruð þið hér. Ég er víst girnileg í augum moskítóflugna, sérstaklega núna svona full af blóði og heitfeng. Ekki gaman að því.

Fyrsta jólapartýið á morgun. Vinnan hans Okezie fer þá út að borða. Næsta föstudag er svo jólapartý í vinnunni hjá mér, næsta sunnudag hjá ruðningsliðinu (hugsa að ég sleppi því) og svo seinna í mánuðnum í vinnunni með vistmönnunum.

Jólaserían upp um helgina, kannski smá bakstur og svo ætla ég í smá hugleiðslu og ímynda mér nokkurra stiga frost, myrkur og jafnvel læt ég eftir mér pínu jólasnjó. Mér finnst ég enn vera að svindla að undirbúa jólin í 30 stiga hita.

Comments: Skrifa ummæli

<< Home
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?