Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

sunnudagur, maí 29, 2005

 

Dagur, Jakob og Sindri sidast thegar eg var a Islandi. Thad sem er svo saett vid myndina er ad theim var ekki stillt upp heldur hofdu their komid ser svona vel fyrir vid ad horfa a video. Posted by Hello

|  

Hann á afmæli í dag

Hann Dagur minn er sjö ára í dag. Elsku kallinn minn, til hamingju. Það er á svona dögum sem ég vildi að ég ætti tímavél, eða kannski bara brjálæðislega fljóta þotu til að skreppa heim í afmælisboð. Það er eiginlega bara á þessum afmælisdögum "barnanna minna" sem ég fæ heimþrá og væri svoooo til í að geta farið heim. Mig langar líka í súkkulaðiköku Eyrúnar.

|

miðvikudagur, maí 25, 2005

 

Það kom að því!

Það stóð nú ekki til að hætta að blogga þegar ég byrjaði að vinna en einhvern veginn hefur það þróast þannig. Reyndar er ógurlega lýjandi að þurfa fara svona á fætur á morgnanna og setja upp "vinnuandlit" eftir að hafa lifað hinu ljúfa lífi hins iðjulausa í fjóra mánuði. Mér fannst þónokkuð erfitt að vinna ekki fyrstu mánuðina en vitiði hvað, það vandist ágætlega ;) Nú kem ég heim örþreytt á daginn og rétt meika að fara í body pump og elda. Held meir að segja að spænskunáminu eigi ekki eftir að farnast vel. Ætla þó að reyna að gera eitthvað í þeim málunum um helgar. En að því helsta sem hefur gerst síðan síðast:

Hún Ásdís mín varð árinu eldri á mánudaginn. Ég hélt upp á það með kökuáti í vinnunni. Það var reyndar víst til heiðurs einni þar sem á sama dag og Ásdís en í mínum huga var þetta fyrir Dísu mína. Árinu eldri og vitrari. Til hamingju með það!

Ég er komin með ástralskt bílpróf. Jú jú, löglegri en allt sem löglegt er. Var búin að tilkynna ykkur að ég hefði náð því skriflega en í morgun náði ég svo að "seal the deal" og get ég sagt ykkur að það var hvorki skemmtilegt né afslappandi. Er ekki frá því að það sé bara alveg jafn taugatrekkjandi að taka bílpróf í annað sinn en í fyrsta skiptið. Þetta gekk þó allt upp, bæði að bakka í samliggjandi stæði og taka þriggja punkta beygju. Svo þurfti ég ekki að bakka í stæði í 45 gráður. Var búin að æfa það. Eitthvað gerði prófdómarinn athugasemdir við hægri beygjurnar mínar (sem eru þá eins og vinstri beygjur í venjulegu landi), henni þótti ég eitthvað taka þær skarpar. Uss, smámunasemi segi ég nú bara. En þetta er allt búið og gert núna og er það nú gott.

Ef þið hafið öll verið að prjóna teppi og ullarsokka handa mér eftir að ég kvartaði undan kulda þá þurfið þið ekkert að hafa fyrir því að klára það. Hér hefur verið strákur frá fyrirtækinu og hann kenndi okkur þá list að kynda. Ég er ekki frá því að ég myndi bjarga mér úti í skógi núna. Hins vegar ef einhvern langar mikið til að prjóna ullarsokka handa mér þá þigg ég þá alveg...

En jæja þá í þetta sinn, ég þarf að hafa mig til fyrir body pump-ið. Ætla að vera duglegri við að blogga núna. promise.

|

mánudagur, maí 16, 2005

 

Óska eftir konu sem kyndir ofninn minn.

Hér er svoo kalt á nóttunni. Hitinn úti fer niður í 10 gráður kaldast og er ekki mikið hlýrra hér inni þá. Reyndar gengur okkur eitthvað ógurlega illa að kveikja upp í kamínunni eða hvað maður kallar þetta. Ég skil reyndar ekki hvernig eldur nær að breiðast út í húsum og skógum. Hér brenni ég brennslukubba sem brenna viðinn en það logar aldrei í honum. Búin að prufa að geyma viðinn úti í sólinni til að þurrka en ekkert gengur. Vegna þessa höfum við sitt hvora sængina á okkur við sjónvarpsgláp og kveikjum snemma á rafmagnsteppunum í rúminu og á rafmagnsblásaranum. Sem betur fer er hitaljós í baðherberginu svo við frjósum ekki í sturtunni. Á morgnanna drögum við svo frá öllum gluggum til að hita upp húsið. Hreinlega verðum að læra að kveikja upp.

Annars var ég að ná skriflegu bílprófi áðan. Fékk 10, þ.e.a.s enga villu. Þarf reyndar líka að fara í verklegt og það gæti verið snúnara. Eftir að hafa keyrt í 10 ár eru ansi margir slæmir siðir við lýði og ekki víst að prófdómara líki... Það versta verður þó að leggja í stæði því hér leggja ALLIR á ská og bakka í það. Maður kemst ekki upp með neitt annað. Í nýju vinnunni þarf ég víst oft að snúast eitthvað svo ég get aðeins æft mig áður en ég fer í það verklega, í lok mánaðarins. Hlakka ekki til!

|

sunnudagur, maí 15, 2005

 

Okezie fékk hné í augað í rugbyleik. Augnlokið hálf hékk niður á kinn áður en 9 spor voru saumuð. Þessi mynd var tekin um leið og við komum heim af sjúkrahúsinu og hann er þarna enn í búningnum og enn smá blóðugur.  Posted by Hello

|  

Þessi mynd var tekin í dag, daginn eftir óhappið. Hann getur ekki opnað augað mikið meira en þetta. Posted by Hello

|  

Síðan síðast...

...er ég búin að fá fulla vinnu. Já, byrja líklega á þriðjudaginn á skrifstofu hjá elliheimili. Hljómar ekkert frábærlega en stelpurnar í apótekinu þekkja fyrirvera minn og segja að þetta sé gott starf. Vona það reynist rétt. Annars var ég orðin ágætlega vön að vera ekkert að vinna og vera bara desperate housewife fyrst það er svona í tísku. Nei það verður gott að verða aftur góður og gildur samfélagsþegn...
...búin að rifja upp gamla takta í borðtennis og keppa í fyrsta sinn við Okezie. Hann vann tvo og ég einn. Það varð nokkuð heitt í kolunum enda er ég ekkert sérlega góð í að tapa. Reyndar svindlaði hann í fyrsta leiknum og gaf ekki alltaf upp horn í horn svo í laumi tel ég þann leik ekkert alltaf með.
...búin að kanna neyðarmóttökuna á spítalanum hérna. Okezie var að spila rugby á laugardaginn, var í byrjunarliðinu sökum mannskorts í liðinu (margir á sjúkralista eftir þessa þrjá leiki sem þeir hafa spilað). Ég fór ekki að horfa á enda hefði ég ekki viljað sjá þetta gerast. Hins vegar bað hann sjúkraflutningakonurnar um að koma við heima til að láta mig vita af þessu. Ég ætla að setja mynd af kappanum inn eftir þetta blogg svo þið sjáið hana væntanlega áður en þið lesið þessar línur.
...búin að fara út á djammið með apótekinu. Það var gaman. Fórum fyrst út að borða og svo á hinn alræmda OX. Ætli Ástralir gætu ekki stært sig af skuggalegasta bar á "the southern hemisphere".
...og það besta af öllu, búin að kaupa fullt af fötum! Í dag opnaði ný fatabúð og bara nokkuð góð. Keypti pils og þrjá toppa á 96 dollara. Það er kannski svona næstum 5000 kall. Þurfti að skilja mikið eftir af fötum í Englandi en er núna búin að toppa ágætlega upp. Þetta eru reyndar allt svona vinnuföt.
...eða kannski var best af öllu að hitta hana Möttu mína á msn og spjalla lengi lengi. Á eftir að sakna hennar þegar ég fer að vinna. Ég er líka komin með webcam og gat látið öllum illum látum. Það var líka gaman þegar Eygló syss hringdi í mig og þegar ég spilaði póker við Unu á msn.

En þetta er orðið ágætt núna, ætla að skella eins og einni boxaramynd af Okezie inn.
Over and out.

|

þriðjudagur, maí 10, 2005

 

Tungumál og heilastarfsemi

Þegar ég fór fyrst til Manchester var ég alltaf þreytt. Þó ég færi kannski bara í einn eða tvo fyrirlestur þá varð ég að leggja mig á eftir og gat sofið endalaust. Það er nefnilega þónokkuð erfitt að vera alveg í nýju umhverfi og þurfa að tjá sig stöðugt á öðru tungumáli. Ég var heldur aldrei góð í ensku og það hefur líklega haft sitt að segja. Með tímanum hætti ég að vera þreytt og enskan varð góð. Eftir svolítinn tíma var ég líka hætt að hugsa fyrst á íslensku og þýða svo yfir á ensku. Það var mikill munur.
Mér fannst mjög skrýtin tilfinning þegar ég fattaði að mig dreymdi nánast eingöngu á ensku. Hvað þá þegar ég stóð mig að því að hugsa á ensku þó ég væri alein heima og ekki með kveikt á útvarpi eða sjónvarpi. Þannig var það heillengi.
Svo núna þegar ég er ekki að vinna en er mikið á netinu og msn þá hugsa ég alltaf á íslensku og þar af leiðir er enskunni farið að hraka. Hvar endar þetta allt saman. Mér finnst nefnilega tungumálið hafa mikil áhrif á heilastarfsemina og sést það best þegar Okezie kemur með mér til Íslands. Ég tala þá til skiptis íslensku og ensku og þýði jafnvel líka. Oftar en ekki hef ég talað ensku við Íslendinga og íslensku við Okezie og hrista þá allir höfuðið yfir mér.

Ég held að fólk breytist jafnvel í karakter þegar það dvelst í löndum þar sem þeir tala ekki málið. Ég þekki t.d. eina spænska stelpu sem talaði ekki orð í ensku þegar hún fór að vinna á kaffihúsinu mínu. Hún var svo blíð og góð og sagði alltaf já við öllu og gerði allt með glöðu geði. Tæpum tveimur árum síðar var hún farin að geta tjáð tilfinningar sínar mun meira og var hætt að vera endalaust góð og jákvæð. Hún hafði skoðanir, sagði þær og hafði að öllu leyti sterkari persónuleika. Þannig hafði hún allan tímann verið samt, bara gat ekki sýnt það.

Í Englandi heyrðu allir um leið og þeir töluðu við mig að ég væri útlendingur. Harðir samhljóðarnir og önnur sterk einkenni hreimsins komu upp um mig um leið. Ég skildi reyndar aldrei hvernig ég gat komið upp um mig með því að segja bara "hello". Með tímanum linaðist hreimurinn örlítið en ég get enn hvorki heyrt muninn á "v" og "w" né þá sagt það. Á kaffihúsinu seldum við súpu sem heitir "Winter vegetables" og fannst fólki vægast sagt gaman að heyra mig segja það. Það þarf ekki að taka það fram að þegar ég varð manager fór þessi súpa af matseðlinum hið snarasta. Venjulega var giskað á Holland sem uppruna míns og bara einu sinni sem var giskað á Ísland. Fyrst var bara fínt að vera útlendingur, þetta svona braut ísinn og bjó til umræðuefni. Eftir að hafa svarað sömu spurningunum þúsund sinnum þá var ég orðin mjög leið á að vera útlendingur. Reyndar þá eru Bretar almennt mjög áhugasamir um hreima og þá alls ekki bara útlendinga. ´Geordies´ eða fólk frá Newcastle og fólk frá suður-Englandi fengu alveg sömu meðferð svo ég tali ekki um Írana. Og kannski var bara meira gert grín að þeim ef eitthvað var. Hérna í Ástralíu hafa svo flestir haldið að ég væri frá Englandi eða Skotlandi og sýnir það nú bara að Ástralir hafa ekki hundsvit á mállýskum eða hreimum. Held að það sé nóg að segja "a" fyrir "a" en ekki "e" eins og Bandaríkjamenn og Ástralir því lengra nær eiginlega ekki aðlögun mín að enskunni. Það eru reyndar nokkur orð sem ég segi með norðurhreim en það er bara því það er svo fyndið.
Ég veit ekki hvernig það er með tvítyngd börn, hvort þau fái höfuðverk við að skipta um tungumál ótt og títt og hvort annað tungumálið verði ráðandi. Það eru örugglega til einhverjar rannsóknir um það. Mér finnst tungumál svo spennandi viðfangsefni og gæti spjallað um það endalaust. Kannski ég pæli soldið í "fullkomnum" og´"ófullkomnum" tungumálum næst, hver veit. Skapa tungumál með miklum orðaforða gáfaðri þjóðir? Og svo framvegis...
Að lokum vil ég bara segja ykkur að hérna í aðgerðarleysinu hef ég tekið upp á því að læra spænsku bæði á internetinu og af diski og gengur bara vel. Sit við í svona 1.5-2 klukkutíma á dag. Eins og heilabúið megi við meiri tungumálavitleysu!

|

laugardagur, maí 07, 2005

 

Sjálfsmyndarpælingar

Frá því að ég kom til Ástralíu fyrir tveimur mánuðum hef ég verið að bera saman löndin þrjú sem ég hef búið í og þjóðirnar sem þar búa. Hef komist að alls konar niðurstöðum. Til dæmis þá finnst mér hugsanagangurinn hjá Áströlum og Íslendingum að mörgu leyti svo svipaður. Ég spái mikið í sjálfsmynd eins og mörg ykkar vita. Á sýningu sem ég fór á í Canberra var þetta tekið fyrir og margir spurðir hvað gerði Ástrali að Áströlum. Það komu ýmis svör en það sem mér fannst bera af var kona sem bar Ástralíu saman við ungling. Ástralía væri s.s. svo ung þjóð að hún væri enn að leita að sjálfsmyndinni. Mér finnst þetta nokkuð gott og skýrir því kannski minnimáttarkenndina sem mér finnst þónokkuð áberandi hér. Til dæmis þá hafa Ástralir mikið fyrir því að segja öllum hvað allt er best hér. Matvara er kirfilega merkt "proudly made in Australia" og "Australian owned company". Svo er allt náttúrulega hreinast í heimi (hljómar kunnuglega?). Kannski er Ísland svipað að þessu leyti. Þó að þjóðin sé ekki ung þá er ekki langt síðan við fengum sjálfstæði.Svo við erum rétt komin á sjálfræðisaldurinn.

Bæði Ísland og Ástralía þurfa svo alltaf að vera að sanna sig fyrir heiminum og minna á sig. Hér er jafn mikið í fréttum ef fjallað er um Ástrali erlendis og heima. Það er litið á fólk sem er að gera það gott sem einhvers konar fulltrúa landanna og fólk fylgist stolt með samlöndum sínum. Í Bretlandi er sko nákvæmlega engin svona samstaða eins og sést oft á hve fljótt hetjur falla af stallinum sbr. Beckham. Heyrðist t.d. nokkuð í íslenskum fréttum um þegar Eiður Smári var stoppaður af lögreglu grunaður um drykkju undir stýri? Hann var reyndar ekki kærður, var ekki yfir leyfilegum mörkum og allt gott með það. Í Bretlandi var þetta strax í fréttum og svo kom bara lítil frétt um að það yrði ekki kært. Bretar stökkvað á hvert tækifæri til að draga alla í sorann, jafnvel eigin hetjur.

Bretar hafa ekki mikið að sanna fyrir heiminum, það vita allir hverjir þeir eru og hvernig þeir eru. Þeir eru fullvaxta og kannski eins og foreldri Ástralíu. Ástralir búa í vestrænu landi langt frá öllum vestrænum löndum. Ísland er pínulítil eyja langt í Ballarhafi og telur bara 300 000 hræður, s.s. á við smábæ í Englandi. Það sem mér finnst líka soldið fyndið er að Ástralir tala um Southern Hemisphere og Norhtern Hemishpere en það er aldrei notað í Englandi. Þetta og hitt er það stærsta í Southern Hemisphere og því stolt Ástrala.

Svo er hitt annað mál að allar þjóðirnar keppast um hylli Bandaríkjamanna. Flykkjast svoleiðis að fótskör Bush. Nokkuð ljóst að Bandaríkin eru alla vega kúl frændi, sá vinsælasti í fjölskyldunni.

|

fimmtudagur, maí 05, 2005

 

og finnst ykkur ekki rómantískur eldurinn minn? Posted by Hello

|  

meir að segja hálfdauð rósin blómstrar Posted by Hello

|  

vildi bara deila því með ykkur að öll vökvunin hefur borið smá árangur Posted by Hello

|

miðvikudagur, maí 04, 2005

 

Stóragerðið

Ef ykkur vantar eða þið vitið um einhvern sem vantar húsaskjól í sumar í Reykjavík þá er Stóragerðið líklega laust í nokkra mánuði. Áhugasamir geta sent mér póst á thorhildur_ingadottir@yahoo.com.au

Takk fyrir öll kommentin. Maður er kannski soldið desperate að auglýsa svona eftir kommentum en eins og ég lýsti fyrir Eyrúnu systur minni þá er þetta stundum eins og símtal þar sem maður talar og talar og enginn talar á móti. Mér finnst nefnilega gaman að fá fréttir af ykkur líka skiljiði?

Ég er búin að fá smá vinnu á leikskóla. Þetta er bara svona casual, þegar einhver er veikur eða í fríi. Ágætt meðan ég bíð eftir einhverju meiru. Ég var þarna í gær og það var mjög gaman. Einn strákurinn var algjör töffari, svona brimbrettagæi. Í ermalausum bol og stuttbuxum og með stóra hálsfesti hvað þá meir. Svo söng hann ekkert abcd heldur bara lög úr "School of Rock". Hann spurði mig hvort ég talaði ensku eða skosku og tók svo upp á því að endurtaka allt sem ég sagði við hin börnin þó þau skildu mig alveg. Svo var hann líka svo mikill töffari að hann nennti ekkert að mála eða klippa, fyrr en hann fékk fullorðinsskæri. Þá var það ókei. Þetta verður örugglega bara gaman og góð leið til að kynnast fleira fólki.

Í húsmæðrafréttum er það helst að ég bakaði þessar fínu bláberja muffins í gær og er í þessu að fara að þrífa kofann. Má sem sagt ekkert vera að þessu blaðri...

|

sunnudagur, maí 01, 2005

 

Helgarsveifla

Við fórum út fyrir bæinn í gær. Rugby-liðið hans Okezie var að keppa í nágrannabænum, Nyngan. Það var bara þónokkuð skemmtilegt þó að Okezie fengi nú bara síðustu 10 mínúturnar til að spreyta sig á vellinum. Mér fannst það bara fínt þar sem hann er ekki alveg búinn að ná tökum á tæklingum né reyndar því að kasta boltanum og ég var bara fegin að hann kom tiltölulega lítið krambúleraður af velli. Ég held að þrír hafi komið útaf vegna meiðsla, þar á meðal ökumaðurinn okkar. Einn fór á sjúkrahús, eitthvað ringlaður í hausnum. Á leiðinni heim sá ég loksins lifandi kengúrur en eins og ég var búin að segja ykkur þá er ég búin að sjá fjölmargar dauðar í vegkanntinum. Þær voru alveg í hópum rétt við veginn. Nú á ég bara eftir að smakka kjötið.

Við ræddum aðeins frumbyggjamál á leiðinni heim. Þetta er sá þriðji sem við ræðum þessi mál og allir hafa þeir haft sömu viðhorf sem mér finnst svolítið sláandi. Þeim finnst öllum einn af kostum Cobar að hafa ekki á sem þýðir að hér er lítið af frumbyggjum. Þeir héldu því allir fram að það fylgdu frumbyggjum bara félagsleg vandræði og það var sem allir væru þeir settir undir sama hatt. Aðspurðir hvað væri hægt að gera við þessu og hvað ríkisstjórnin væri að gera þá var sama svarið hjá öllum; þeim væri ekki viðbjargandi. Þeir væru svo vanir því að peningum væri bara hent í þá að þeir nenntu ekkert að mennta sig eða vinna. Mér finnst þetta bara eins og að fara aftur í tímann, þetta vera svipuð viðhorf og voru til þræla í Ameríku. Og það er eins og það sé almennt viðhorf hvítra Ástrala til frumbyggja að þeir séu menningarlega lægra settir og bara til vandræða. Finnst ykkur þetta ekki ótrúlegt? Nú er ég ekki búin að kynnast neinum frumbyggjum svo ég get ekki sagt að ég viti hvernig þeirra aðstæður eru o.þ.h. en mér finnst þetta bara sláandi. Já og þetta voru nota bene ungir og menntaðir menn.

Ég nýtti mér ókeypis daga hjá tónlist.is og downloadaði eins og vindurinn. Get ekki sagt að ég hafi besta tónlistarsmekk í heimi. Náði nefnilega soldið í Bubba, Hörð Torfa, NýDönsk já og grænmetissönginn úr Dýrunum í Hálsaskógi.

Það er farið að kólna hér heldur betur. Rétt skreið yfir 20 gráður þegar það var heitast. Hér er engin hitaveita eða ofnar svo við sitjum hér við eld í ofni. Notalegt en smá brunalykt.

Ég er farin að halda að það lesi enginn þetta blessaða blogg mitt því það er fátt um fína drætti í kommentum og gestabók. Við þá sem lesa þetta en finnst eins og þeir eigi ekkert að vita af þessu þá vil ég bara segja að það mega allir lesa mitt blogg og það þarf ekkert að vera með neina feimni... Koma svo!

|  

Aulaleg? Posted by Hello

|  

Þessar myndir eru frá fyrstu helginni á Ástralíu þegar einn eigendanna tók okkur í flug. Ég geri mér fulla grein fyrir því að myndin af mér er ekkert sérstaklega aðlaðandi en mér finnst ég bara svo fyndin á henni. Smá Benny Hill fílingur í gangi. Myndirnar voru teknar fyrir flugið og það má segja að við höfum verið með smá sting í maganum sem skýrir fíflaganginn að hluta. Posted by Hello

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?