Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

laugardagur, maí 07, 2005

 

Sjálfsmyndarpælingar

Frá því að ég kom til Ástralíu fyrir tveimur mánuðum hef ég verið að bera saman löndin þrjú sem ég hef búið í og þjóðirnar sem þar búa. Hef komist að alls konar niðurstöðum. Til dæmis þá finnst mér hugsanagangurinn hjá Áströlum og Íslendingum að mörgu leyti svo svipaður. Ég spái mikið í sjálfsmynd eins og mörg ykkar vita. Á sýningu sem ég fór á í Canberra var þetta tekið fyrir og margir spurðir hvað gerði Ástrali að Áströlum. Það komu ýmis svör en það sem mér fannst bera af var kona sem bar Ástralíu saman við ungling. Ástralía væri s.s. svo ung þjóð að hún væri enn að leita að sjálfsmyndinni. Mér finnst þetta nokkuð gott og skýrir því kannski minnimáttarkenndina sem mér finnst þónokkuð áberandi hér. Til dæmis þá hafa Ástralir mikið fyrir því að segja öllum hvað allt er best hér. Matvara er kirfilega merkt "proudly made in Australia" og "Australian owned company". Svo er allt náttúrulega hreinast í heimi (hljómar kunnuglega?). Kannski er Ísland svipað að þessu leyti. Þó að þjóðin sé ekki ung þá er ekki langt síðan við fengum sjálfstæði.Svo við erum rétt komin á sjálfræðisaldurinn.

Bæði Ísland og Ástralía þurfa svo alltaf að vera að sanna sig fyrir heiminum og minna á sig. Hér er jafn mikið í fréttum ef fjallað er um Ástrali erlendis og heima. Það er litið á fólk sem er að gera það gott sem einhvers konar fulltrúa landanna og fólk fylgist stolt með samlöndum sínum. Í Bretlandi er sko nákvæmlega engin svona samstaða eins og sést oft á hve fljótt hetjur falla af stallinum sbr. Beckham. Heyrðist t.d. nokkuð í íslenskum fréttum um þegar Eiður Smári var stoppaður af lögreglu grunaður um drykkju undir stýri? Hann var reyndar ekki kærður, var ekki yfir leyfilegum mörkum og allt gott með það. Í Bretlandi var þetta strax í fréttum og svo kom bara lítil frétt um að það yrði ekki kært. Bretar stökkvað á hvert tækifæri til að draga alla í sorann, jafnvel eigin hetjur.

Bretar hafa ekki mikið að sanna fyrir heiminum, það vita allir hverjir þeir eru og hvernig þeir eru. Þeir eru fullvaxta og kannski eins og foreldri Ástralíu. Ástralir búa í vestrænu landi langt frá öllum vestrænum löndum. Ísland er pínulítil eyja langt í Ballarhafi og telur bara 300 000 hræður, s.s. á við smábæ í Englandi. Það sem mér finnst líka soldið fyndið er að Ástralir tala um Southern Hemisphere og Norhtern Hemishpere en það er aldrei notað í Englandi. Þetta og hitt er það stærsta í Southern Hemisphere og því stolt Ástrala.

Svo er hitt annað mál að allar þjóðirnar keppast um hylli Bandaríkjamanna. Flykkjast svoleiðis að fótskör Bush. Nokkuð ljóst að Bandaríkin eru alla vega kúl frændi, sá vinsælasti í fjölskyldunni.

Comments: Skrifa ummæli

<< Home
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?