Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

laugardagur, október 29, 2005

 

Dýralífið

Hvort mynduð þið vilja hafa svona "bogeye"
Eða svona venjulegan snák í garðinum hjá ykkur?

Flestir hér í Cobar myndu frekar vilja Bogeye og þeir halda víst snákum í burtu. Ég vil hins vegar frekar bara trúa því að hvorugt kvikindanna sjái ástæðu til að heilsa upp á mig og minn garð. Reyndar segja margir að ég búi nógu inni í bænum til að eiga ekki von á þeim meðan aðrir hafa náttúrulega hryllingssögur í tonnatali. Ég get hinsvegar ekki ímyndað mér hvað ég myndi gera. Kannski bara fara að gráta. Þá er mér líka sagt að ég eigi frekar von á að "njóta nærveru" þessara kvikinda á leiðinni í vinnuna. Það er hins vegar allt í lagi þar sem ég má ekkert vera að því að taka eftir þeim þar sem ég er yfirleitt of "busy" við að slá af mér flugurnar, hrækja og snýta þeim úr nefinu á mér eins og versti fótaboltamaður svo ég tali ekki um að hafa auga með lausum hundum. Skjórinn er aftur á móti búinn að klekja út sínum eggjum og geðveikinni er þar með lokið á þeim bænum. Var einhver að tala um að koma í heimsókn???

|

miðvikudagur, október 26, 2005

 

Í þrjátíu og þriggja stiga hita

er tilvalið að fara úr svörtu fötunum og skella sér í sund. Ég er farin!

|

mánudagur, október 24, 2005

 

Heimboð fyrir alla...

...sem vildu um helgina. Okezie skildi útidyralykilinn eftir í skránni frá 1 á laugardaginn þangað til hann fór út að skokka um sólarhring síðar. Held samt að enginn hafi þegið boðið, ipodinn er alla vega enn á sínum stað. Við erum því jöfn að stigum núna skötuhjúin, ég gleymdi einu sinni að slökkva á bakaraofninum yfir heila nótt.

|

laugardagur, október 15, 2005

 

Jólagjöfin í ár


er nýútkomin bók Eyrúnar systur minnar. Hvet ykkur öll til að gefa krökkum hana í jólagjöf. Posted by Picasa


Tekid af heimasidu JPV:

Ríkey ráðagóða eftir Eyrúnu Ingadóttur
Ríkey er ellefu ára og tekur að sér að passa Dódó litlusystur yfir sumarið þótt hana langi meira til að komast á sjóinn með afa. Þegar mamma og pabbi flytja tölvuna í geymslu upp á háaloft með þeim orðum að börn eigi að leika sér úti á sumrin – þá eru góð ráð dýr.
Ríkey og félagar hennar deyja ekki ráðalaus. Þau reisa heilt þorp og halda hátíð með tónlist og trúðum, skrípafötum og skrúðgöngu, leynigesti og ókeypis ís handa öllum.
Ekki spillir það ævintýrum sumarsins að eiga góða vini í hópi fullorðinna, eins og hann Sóla á Strönd sem býr á hálfgerðu þjóðminjasafni og skýrir hænurnar sínar í höfuðið á ríkisstjórninni.

Hvert ævintýrið rekur annað í þessari fyndnu og fjörugu sögu Eyrúnar Ingadóttur. Þótt Ríkey ráðagóða laumist til að játa að hún sé stundum alveg ráðalaus, þá getur verið gaman á sumrin hjá hugmyndaríkum krökkum, jafnvel þótt tölvan sé uppi á háalofti.

Skemmtileg bók fyrir 6–12 ára krakka.

|  

Það verður strákur

og honum er ætlað að koma í lok janúar.

|  

Durex

Í vikunni var þjálfun í viðbrögðum við eldi í vinnunni sem ég skipulagði. Kallinn sem sá um þjálfunina er eldri maður, gráhærður og virðulegur. Hann var á fullu við að setja upp spjöld og þess háttar þegar hann vatt sér að mér og spurði: "You don´t have some Durex for me, do you?". Ég missti gjörsamlega andlitið og starði á manninn í panikki. "Hvað er kallinn að spyrja mig að því" var það eina sem komst að í huga mér. Það er bara einn hlutur sem ég veit um sem er kallaður Durex og það lítur svo sannarlega ekki út fyrir að ég gangi með birgðir á mér þessa stundina. Þess vegna létti mér mikið þegar ein samstarfskona mín, sem sá svipinn á mér, sagði að það væri límband. Ég á einmitt birgðir af því og gat því hjálpað manngreyinu sem var alls ekkert svo perralegur lengur.

|

laugardagur, október 08, 2005

 

Aftur komin helgi

og bloggæðið mitt entist ekki lengi. Vikan er búin að vera fín, nóg að gera. Enn einn úr vinnunni dáinn, ekki koma samt með neinar samsæriskenningar. Þessi maður var svo einn í heiminum og ég er búin að pæla slatta í mikilvægi fjölskyldunnar þessa vikuna. Maðurinn var áttatíuogeitthvað ára en hafði bara verið hér í Cobar síðustu 15 árin eða svo. Það var tuttugu manns í jarðarförinni hans og allir héðan. Hann var hermaður en vildi ekki mikið tala um stríðið, eiginlega ekki neitt. Hann giftist aldrei og átti engin börn og engin systkini. Mér hefur verið hugsað til allra þeirra sem finnst þeir ekki þurfa á fjölskyldu að halda. Eignast kannski maka en vilja ekki eignast börn. Nú er líf þeirra eflaust hlaðið merkingu og fullt að gera en verður þessu fólki aldrei hugsað til hvað verður þegar það er orðið gamalt og makinn dáinn. Það eru nokkrir á elliheimilinu sem eru algjörir einstæðingar og mér finnst það bara svo sorglegt. En svo má náttúrulega segja að margir eiga börn sem hugsa ekkert um foreldra sína í ellinni. Nóg um þetta.

Nú er hitaaðlögunin komin á fullt. Hitinn fór nokkrum sinnum yfir 30 stigin í vikunni. Samt fann ég ekkert mikið fyrir því enda labba ég í vinnuna að morgni og aftur heim um eftirmiðdaginn. Þetta er að því leyti öðru vísi en þegar maður er einhvers staðar í fríi og þá úti yfir heitasta tímann.

Nú var ég trufluð í miðju bloggi svo ég er búin að týna þræðinum soldið... Jordan, 11 ára sonur samstarfskonu Okezie kom hingað og er nú að slá garðinn. Ég minnist þess ekki að hafa fengið að koma við sláttuvélina hans pabba og mér finnst svona á mörkunum að 11 ára gutti eigi að vera að gera þetta. En hann hefur víst nokkra reynslu og sló garðinn hér áður en við komum. Mér skilst reyndar að síðan þá höfum við staðið í vegi fyrir því að hann gæti keypt sér rúgbyskyrtuna sem hann langaði í. Ég vona bara að hann fari ekki að stinga puttunum inn í vélina.

Já nú man ég. Ég ætlaði að segja ykkur frá gærkvöldinu. Sjálfboðaliðavinnan í vinnunni er alltaf á fullu og í gærkvöldi var Quiz night. Nokkrar konur voru búnar að semja spurningar, svo seldum við lottó og ýmsa aðra leiki. Höfðum t.d. ´þónokkuð upp úr "toss the coin" en þá átti fólk að henda gullpeningum, $1 eða $2 að viskíflösku og sá sem var næst flöskunni vann hana. Eins og ég hef áður sagt þá eru Ástralir ótrúlegir í öllum sínum fjáröflunum.

Í kvöld stendur svo til að fara á uppskeruhátíð rúgbýklúbbsins hans Okezie. Það er máltíð og nærvera eins landsliðsmanns í boði. Það ætti að verða gott kvöld og óvenju klassi yfir því þar sem spariföt eru skilyrði. Ástralir eru ekkert sérlega mikið fyrir að klæða sig upp, alla vega ekki Cobarbúar. Kannski ég segi ykkur meira frá því á morgun. Ætla að skella í muffins fyrir Jordan litla vinnumanninn minn...

|

sunnudagur, október 02, 2005

 
Ég hef haft það gott í helgar/skjósfríinu. Og enn er meira eftir þar sem mánudagurinn er líka frídagur. Í gærkvöldi var okkur boðið út að borða. Við kunnum ekki við að segja nei en þetta leit reyndar ekkert vel út. Sá sem stóð fyrir matarboðinu er einn af læknunum hér og hann er frekar skrýtinn og staðurinn sem varð fyrir valinu er einmitt versta veitingahúsið hér að mínu mati. Við höfum etið þar tvisvar áður og maður þarf að elda matinn sjálfur. Sumum finnst kannski eitthvað við það að fá hráa steik á diskinn og grilla sjálfur en ég er bara á þeirri skoðun að þá geti maður borðað heima hjá sér. Svo er steikin svo stór og þykk (Ástralir eru nota bene feitasta þjóðin á eftir Ameríkönum) og það tekur heila eilífð að elda í gegn. Alla vega, hafi mér ekki litist á boðið fyrirfram þá sneri ég næstum því við í dyrunum þegar ég sá hverjir yrðu þarna. Fyrir utan læknishjónin skrýtnu þá var þarna einn framámaðurinnn í viðskiptum hér og svo bættust bæjarstjórahjónin virðulegu í hópinn. Aðalgestirnir voru ung læknishjón sem voru að líta á aðstæður og er vonast til að þau flytji hingað. Hvers vegna við vorum í þessum hópi skil ég ekki alveg, kannski vorum við fulltrúar yngri kynslóðarinnar þarna. Það er nokkuð ljóst þó að vera okkar var ekki til að auka fjölbreytnina í hópnum þar sem bæjarstjórinn er austurrískur, læknisfrúin suður-afrísk, viðskiptamaðurinn af líbönskum ættum og ungi læknirinn Búlgari. Skrýtið kvöld, en ekki eins slæmt og það hljómar. Reyndar bættust seint og um síðir nokkrar fýlubjöllur í hópinn og færðist þá fiðringur um hópinn. Fýlubjöllur (Stinkbeetles) eru nefnilega ekki skemmtileg kvikindi. Þær eru líkar kakkalökkum nema minni, málmgrænar, fljúga og þegar maður stígur á þær gýs upp fýla. Ég sá þær reydnar ekki fljúga en hins vegar datt ein frekar skemmtilega frá loftinu og á borðið hjá okkur. Stuttu síðar var matarboðinu lokið.

Í morgun gegndum við svo skyldum okkar í garðinum. Við vorum komin út í garð rúmlega níu þar sem spáð var heitum degi. Um hálftólf var ég stiknuð, sveitt og rauð í framan og lét staðar numið enda um þrjátíu stiga hiti og ekkert vinnuveður. Við lékum á flugurnar, ég saumaði þvottanet á hattinn hans Okezie og stakk svo þvottaskjóðu (neti fyrir viðkvæman þvott) yfir hausinn á sjálfri mér og renndi svo rennilásnum að hálsinum. Þetta fór ágætlega saman stuttermabolinn girtan ofan í of litlar íþróttabuxurnar sem aftur voru girtar ofan í sokkana. Myndarskapnum lauk þó ekki um hádegi, ég skellti í nokkrar kökur þar sem von var á fólki um kaffileytið. Held bara að ég sé að líkjast henni móður minni.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?