Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

sunnudagur, október 02, 2005

 
Ég hef haft það gott í helgar/skjósfríinu. Og enn er meira eftir þar sem mánudagurinn er líka frídagur. Í gærkvöldi var okkur boðið út að borða. Við kunnum ekki við að segja nei en þetta leit reyndar ekkert vel út. Sá sem stóð fyrir matarboðinu er einn af læknunum hér og hann er frekar skrýtinn og staðurinn sem varð fyrir valinu er einmitt versta veitingahúsið hér að mínu mati. Við höfum etið þar tvisvar áður og maður þarf að elda matinn sjálfur. Sumum finnst kannski eitthvað við það að fá hráa steik á diskinn og grilla sjálfur en ég er bara á þeirri skoðun að þá geti maður borðað heima hjá sér. Svo er steikin svo stór og þykk (Ástralir eru nota bene feitasta þjóðin á eftir Ameríkönum) og það tekur heila eilífð að elda í gegn. Alla vega, hafi mér ekki litist á boðið fyrirfram þá sneri ég næstum því við í dyrunum þegar ég sá hverjir yrðu þarna. Fyrir utan læknishjónin skrýtnu þá var þarna einn framámaðurinnn í viðskiptum hér og svo bættust bæjarstjórahjónin virðulegu í hópinn. Aðalgestirnir voru ung læknishjón sem voru að líta á aðstæður og er vonast til að þau flytji hingað. Hvers vegna við vorum í þessum hópi skil ég ekki alveg, kannski vorum við fulltrúar yngri kynslóðarinnar þarna. Það er nokkuð ljóst þó að vera okkar var ekki til að auka fjölbreytnina í hópnum þar sem bæjarstjórinn er austurrískur, læknisfrúin suður-afrísk, viðskiptamaðurinn af líbönskum ættum og ungi læknirinn Búlgari. Skrýtið kvöld, en ekki eins slæmt og það hljómar. Reyndar bættust seint og um síðir nokkrar fýlubjöllur í hópinn og færðist þá fiðringur um hópinn. Fýlubjöllur (Stinkbeetles) eru nefnilega ekki skemmtileg kvikindi. Þær eru líkar kakkalökkum nema minni, málmgrænar, fljúga og þegar maður stígur á þær gýs upp fýla. Ég sá þær reydnar ekki fljúga en hins vegar datt ein frekar skemmtilega frá loftinu og á borðið hjá okkur. Stuttu síðar var matarboðinu lokið.

Í morgun gegndum við svo skyldum okkar í garðinum. Við vorum komin út í garð rúmlega níu þar sem spáð var heitum degi. Um hálftólf var ég stiknuð, sveitt og rauð í framan og lét staðar numið enda um þrjátíu stiga hiti og ekkert vinnuveður. Við lékum á flugurnar, ég saumaði þvottanet á hattinn hans Okezie og stakk svo þvottaskjóðu (neti fyrir viðkvæman þvott) yfir hausinn á sjálfri mér og renndi svo rennilásnum að hálsinum. Þetta fór ágætlega saman stuttermabolinn girtan ofan í of litlar íþróttabuxurnar sem aftur voru girtar ofan í sokkana. Myndarskapnum lauk þó ekki um hádegi, ég skellti í nokkrar kökur þar sem von var á fólki um kaffileytið. Held bara að ég sé að líkjast henni móður minni.

Comments: Skrifa ummæli

<< Home
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?