Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

sunnudagur, desember 31, 2006

 

Gleðilegt ár!

Nú eru bara örfáar klukkustundir eftir af þessu ári og það gæti vel farið svo að ég endurtæki leikinn frá 1983. Þá stóð ég við stofugluggann heima á Hvammstanga og grét því mér fannst svo leiðinlegt að árið væri á enda og kæmi aldrei aftur til baka. Þá var ég 6 ára og afi minn var nýdáinn svo ég var með samviskubit yfir því að hafa fundist árið gott. Nú þarf ég hins vegar ekki að hafa samviskubit yfir neinu. Árið 2006 hefur verið afburða gott ár fyrir mig og mjög viðburðaríkt. Ég vissi nú alltaf að ég ætti eftir að njóta þess að vera mamma en það hefur þó verið enn betra en ég gat ímyndað mér. Það er svo yndislegt að upplifa allar þær tilfinningar sem því fylgir og að fylgjast með litla barninu sínu vaxa og dafna. Nú eru bara 26 dagar þangað til hann verður alveg heils árs gamall. Það finnst mér ótrúlegt! Hann er samt orðinn svo stór og skilur svo margt. Svo er hann líka kominn með heilmikið skap og við rífumst til dæmis þegar hann vill taka niður jólaskrautið af trénu.

Við fluttum náttúrulega líka í nýja húsið okkar á árinu. Það er frábær tilfinning að vera í sínu eigin, kaupa húsgögn sem mann langar til að eiga og koma sér almennilega fyrir. Hingað til höfum við alltaf ætlað að stoppa stutt á þeim stöðum sem við höfum verið á svo það hefur aldrei tekið því að gera notalegt í kringum sig. Nú erum við alveg búin að koma okkur fyrir, það er verið að klára garðinn og eina sem eftir er að kaupa eru húsgögn á veröndina.

Það var líka frábært að koma heim í haust og hafa mikinn tíma til að eyða með sínum nánustu. Eiginlega held ég að Hvammstangi standi þar uppúr. Það var svo notalegt að hanga með mömmu og pabba og fylgjast með þeim og Arinze kynnast. Ég á slatta af videoi frá þeim tíma og nú síðustu daga höfum við Arinze verið að horfa á það á matartímanum.

Áramótin eru mjög óhefðbundin í ár. Bræðurnir plús einn Ameríkani fóru á körfuboltaleik og því engin áramótasteik á gamlárskvöld. Ég ætla hins vegar að elda lambalæri í fyrramálið til að hafa í hádeginu og svo stendur til að fara á ströndina. Öðruvísi en ekkert slæmt. Kannski ég nái líka áramótaskaupinu þó líklega skilji ég ekkert í því.

Að lokum vil ég bara segja Gleðilegt nýtt ár öll! Takk fyrir það gamla þið sem ég hitti á árinu. Lifið heil, atsjú.

Comments: Skrifa ummæli

<< Home
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?