Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

laugardagur, desember 30, 2006

 

Í jólarest.

Jólin eru háannatími fyrir heimavinnandi húsmæður og ég hef ekkert mátt vera að því að blogga. Nú er svo langt um liðið að ég man bara brot af því sem hefur á daga okkar drifið. Það var heilmikið vesen að finna óreykt svínakjöt og fyrir þá sem vilja gera almennilega pörusteik í útlöndum þá kallast kjötið pickled pork. Ég hafði aldrei gert svona áður svo Skype kom mér til hjálpar. Já og Raggi bróðir á hinum endanum. Svo klikkaði náttúrulega brúneringin á kartöflunum, nú eða þangað til Eyrún syss hjálpaði mér líka í gegnum Skype. Minnið mig á að senda Skype jólakort á næsta ári. Okezie var að vinna svo við borðuðum ekki fyrr en klukkan 10 um kvöldið og nenntum ekki að hafa fyrir því að dressa okkur upp.

Við opnuðum alla pakkana á jóladagsmorgun í náttfötunum. Fórum svo öll saman í tennis, frisbí og rúgbý í garði hér í nágrenninu. Við vorum úti á hálfgerðum banntíma, þ.e. meðan sólin er sem sterkust svo enginn annar var úti. Það var engin jólasteik, bara salöt og brauðréttur og afgangur af gumsi. Svo fórum við nú nokkrum sinnum á ströndina og í sjóinn sem var um 28 gráðu heitur. Við skruppum líka í sundlaug sem er niðrí bæ bara eins og tjörnin í Rvík og fór Arinze loksins í sund. Honum fannst það alveg æði og var ekkert hræddur. Ég verð að vera dugleg að fara með hann.

Soldið óvenjuleg jól en mjög góð að mínu mati. Það var mjög notalegt og gaman að hafa Ólöfu og Tómas hér. Þau túristuðust heilmikið og fóru m.a. tvisvar út á kóralrifið. Svo spiluðum við heilmikið á spil á kvöldin og drukkum bjór. Núna er bara mágur minn hér og verður hann framyfir nýár. Þeir bræður ætla á körfuboltaleik á gamlárskvöld svo ég hugsa að ég baki bara pizzu og eldi svo lambalæri á nýársdag frekar.

Arinze er í stuði. Hann fékk 3 tennur í gær. Frekar mikil aukning frá bara einni tönn áður. Hann fékk kvef og erum við foreldrarnir búnir að sleikja það upp úr honum. Frekar fúlt. Hann er líka orðinn soldið stór. Til dæmis þá stökk hann upp úr göngugrindinni sinni. Ég var í tölvunni og hann var ekkert hress með það, hélt í mig og stóð allt í einu við hliðina á mér. Hann klifrar líka upp á allt og er stórhættulegur þegar hann kemst upp í sófa.

Nú er verið að klára garðinn hjá okkur svo vonandi getum við fljótlega farið að leika okkur þar. Arinze finnst svo gaman að skríða á grasi. Hann er orðinn mjög duglegur í leikskólanum og fannst mjög gaman þar síðast. Grenjaði þó af vana þegar ég kom að sækja hann.

Í lokin skelli ég inn mynd sem ég tók af Arinze núna í dag. Hann var að borða sjálfur eins og sést framan í honum. Svo þarf nú kannski að súmma soldið til að sjá tennurnar...

Comments: Skrifa ummæli

<< Home
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?