Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

miðvikudagur, september 26, 2007

 

Trúið þið þessu?


Tvær á þessari mynd eru fertugar í dag! Þið megið geta hverjar. Það er náttúrulega smá svindl í gangi þar sem þær voru bara 38 ára þegar þessi mynd var tekin fyrir u.þ.b. ári síðan en þið hljótið að geta rétt.
Mér þykir slæmt að missa af afmæli bestustu systranna en treysti á nútímatækni og tól og að ég fái smá vídjó af herlegheitunum. Ég var oft spurð þegar ég var lítil hvor mér fyndist skemmtilegri og átti í miklum erfiðleikum með að svara þeirri spurningu. Get það ekki enn í dag enda eru báðar bestar.

|

fimmtudagur, september 20, 2007

 

Selurinn Snorri

Við fórum á ströndina í gær í fyrsta sinn þetta sumarið í tilefni af afmæli unglambsins, sambýlingsins. Honum gengur ekkert að ná mér í aldri. Alla vega, Arinze hefur nokkrum sinnum áður farið á ströndina og var þá ýmist hálf hræddur við sjóinn eða leiddist fljótt. Í gær varð stór breyting þar á. Barnið varð brjálað af æsingi. Það var engin leið að sitja í sandinum og hann reyndi að hlaupa framhjá pabba sínum til að komast í sjóinn. Það var ekki einu sinni nóg að vera á háhesti á pabba sem er annars mjög vinsælt sport. Hann bar nákvæmlega enga virðingu fyrir sjónum og hló bara þegar hann fékk skvettur framan í sig. Svo óheppilega vildi til að það var að flæða að og með heilmiklu brimi svo það var ekki hægt að sitja í sandinum og bíða eftir litlum öldum svo við entumst ekki lengi í þetta skiptið. Ég er með kvef og fór því ekkert í sjóinn og Okezie var að drepast í bakinu eftir að þurfa að vera boginn í bakinu með Arinze. Ég er ekki alveg viss um að við leggjum í að fara fljótt aftur með strákinn svona án allrar hræðslu, höldum okkur frekar við Muddy´s sem er buslugarður hérna niðri í bæ. Tvær myndir- önnur af selnum í sjónum og hin í Muddy´s frá því um síðustu helgi.

|

mánudagur, september 10, 2007

 
Það getur ekki verið mjög gott að vera Hallfreðsson í útlöndum. Í gærmorgun var Okezie að kíkja á úrslit leikjanna í undankeppni Euro og sá þá að Ísland var yfir 1-0 með marki frá Hallfreðsson.
"Ha, Hreiðarsson?", spurði ég.
"Nei, Hrfslsotson"
"Alfreðsson?".

Á endanum þurfti ég náttúrulega að kíkja á þetta sjálf. Spilar kannski inn í að ég hafði aldrei heyrt á manninn minnst áður og kannski bara í fyrsta sinn sem ég veit til að nafnið Hallfreð sé til. En við sáum þá líka að leikurinn var ekki búinn og rétt náðum að opna fyrir hann til að sjá jöfnunarmarkið. Við tóku hvatningarhróp frá Langtíburtistan, ég sagði "Ísland, Ísland" en Arinze var meira að hvetja "Dedda, Dedda". En hann klappaði og kýldi út í loftið með mér.

|

sunnudagur, september 02, 2007

 
Ég finn mig knúna til að gefa ráð í augnablikinu.

1) Victoria Beckham er í vandræðum með að fá barnapíu. Greyið, ég veit af eigin reynslu hvað það er erfitt að treysta öðrum fyrir barningu mínu. Hins vegar skilst mér að David sé ekki svo upptekinn núna þar sem hann er meiddur út tímabilið. Kannski hann geti bara tekið að sér að hugsa um börnin sín og þau geti sparað sér barnapíuaurana.

2) Enn eina ferðina þá eru fótboltastjörnur í Englandi í fréttunum. Núna eru Ronaldo og fleiri í slúðrinu þar sem þeir leigðu sér 5 mellur til að fagna sigri í síðustu viku. Mellurnar voru ferlega svekktar yfir því hvað þeir sýndu þeim litla virðingu og höfðu litla umhyggju fyrir tilfinningum þeirra. Kannski að önnur störf henti betur til að öðlast virðingu karlmanna heldur en þessháttar sölumennska. Þess ber þó að geta að þær höfðu klætt sig sérstaklega upp í undirföt frá Tesco og Debenhams og áttu því trúlega von á því að upplifa ævintýri Juliu Roberts úr Pretty Woman. Mellan með gullhjartað. Jamm.

Að lokum þá verð ég að viðurkenna að ég grenjaði yfir bíómynd áðan. Ekki í fyrsta sinn sem ég grenja yfir nákvæmlega þessari mynd en það hljómar ekkert sérlega vel þó að segja að ég hef ekki grenjað yfir henni í um það bil 17 ár. La Bamba. Ég kenni um hormónum þó þeir séu nú ekkert mikið að stríða mér í óléttunni. Riiiiiiiiitchííííííííí. Eruð þið farin að grenja?

|  

Helgarfréttir

Við Ástralirnir erum öll hress. Í gær fór Arinze í leikhús í fyrsta sinn. Það var ótrúlega gaman. Þetta var danspartý Dorothy the dinosaur. Dorothy er einn af karakterunum í Wiggles sem eru mjög vinsælir hér í Ástralíu sem og í USA og UK. Efast um að þeir hafi verið sýndir heima. Alla vega þarna voru nokkrir karakterar sem Arinze þekkir að syngja lög sem hann kann hreyfingarnar við. Ég átti alveg frekar von á að hann yrði hræddur en nei nei, minn maður var fyrstur út á gólf og dansaði eins og hann ætti von á að verða frægur.


Í dag er svo feðradagurinn. Okezie er að vinna og við steingleymdum í morgun að gefa honum allar gjafirnar og kortið. Ég mundi ekki hvaða dagur var fyrr en hann var löngu farinn í vinnuna. Við Arinze fórum í göngutúr niður að vatni og gáfum þar svöngum brabra, tveimur skjaldbökum og fullt af pínulitlum fiskum brauð.


Í dugnaðarkasti þá henti ég inn slatta af myndum frá ágúst inn á barnalandssíðuna hans Arinze, þar eru t.d. myndir frá leikhúsinu. Í tilefni dagsins skelli ég svo inn einni mynd af bestustu feðgunum.


|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?