Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

miðvikudagur, júní 21, 2006

 

Fyrsta klippingin

Arinze Tómas fór í klippingu í dag í fyrsta skiptið á ævinni ef utan er skilið ævintýri móðurinnar með skærin og flóka. Hann stóð sig eins og hetja, sat grafkyrr og horfði í kringum sig stórum rannsakandi augunum. Það heyrðist meir að segja ekki múkk í honum fyrr en í lokin þegar Bianca kom með klippurnar þá varð hann pínu hræddur. Hún fékk nú ekki að taka mikið af lubbanum en það ætti að flækjast aðeins síður núna.

Lubbalíus alveg steinhissa á þessu veseni.

Þetta var frekar ógnvekjandi og betra því að halda fast í mömmu sína. Annars ætla ég að skella inn nokkrum myndum á barnalandið núna.

|  

Jibbííí

Var að bóka frá Manchester til Íslands. Við komum 4. ágúst (í tæka tíð fyrir þjóðhátíð ha ha) klukkan 23.35 og verðum til klukkan 17.30 þann 29. september. Nú vona ég bara að einhver vilji leika við mig í 8 vikur...

Ekki að ég sé neitt að telja niður en þegar þetta er skrifað eru nákvæmlega 1068 klst þangað til.

|

þriðjudagur, júní 20, 2006

 

Áríðandi tilkynning!

Nú rétt í þessu vorum við að bóka farið heim. Haldið verður af stað frá Sydney miðvikudaginn 26. júlí og áætluð lending í Manchester er 28 klukkustundum síðar, rétt fyrir 11 að morgni 27. júlí. Við græðum sem sagt tíma í þetta skiptið. 36 dagar þangað til. Nú er bara að ákveða hvenær við Arinze fljúgum frá Manchester til Íslands. Það verður "spennandi" að sjá hvernig litli maðurinn stendur sig á öllu þessu ferðalagi, það væri kannski gustuk að tilkynna opinberlega á flugvellinum að 6 mánaða barn verði með svona ef vera skyldi að einhver vildi hætta við. Nú eða kannski við Okezie æfum okkur í að gefa hvort öðru illt auga til að búa okkur undir ósköpin...

Við förum svo aftur frá Manchester 16. október svo þetta verður langt og mikið "sumarfrí".

|

fimmtudagur, júní 08, 2006

 

Sumt fólk...

Mér datt allt í einu í hug símtal sem ég átti við mann þegar ég var að vinna á skrifstofunni á elliheimilinu hérna. Símtalið var eitthvað á þessa leið:

Ég :Halló
Maðurinn:Hringdir þú í mig?
Ég: Ha, hvað heitir þú?
Maðurinn: Ja, ég vil ekkert segja það.
Ég: Nú hvernig á ég þá að vita hvort ég eða einhver hér hringdi í þig?
Maðurinn: Ég vil ekkert gefa upp persónulegar upplýsingar um sjálfan mig (en gaf mér þó símanúmerið sitt sem var farsími).
Ég: Núú, þetta er nú elliheimili hér svo það koma margir til greina sem hefðu getað hringt í þig. Þú getur kannski sagt mér hvaðan þú ert að hringja?
Maðurinn: Ég get svosem sagt þér að ég er að hringja frá Queensland en ég ætla ekkert að segja þér meira en það.
Ég: Núnú, veistu ég veit að ég hringdi ekki persónulega í þig en ég get ekki sagt hvort aðrir hér hafi gert það.
Maðurinn: Jæja, það verður þá að hafa það.
Ég: Já blessaður.

Ég komst að því seinna að Sharon, yfirmaður minn, hafði hringt í skakkt númer. Ég mun náttúrulega aldrei komast að því hvaða maður þetta var en hann hlýtur að hafa verið ógurlega vinsæll og frægur verandi svona tregur við að gefa upp persónulegar upplýsingar. Hefur væntanlega talið að ég myndi bætast í hóp allra stalkeranna. Já sumt fólk...

|

sunnudagur, júní 04, 2006

 
Bara að láta ykkur vita að það eru komnar nýjar myndir inn á Barnalandssíðuna hans Arinze/Don King, www.arinze.barnaland.is

Annars höfum við það bara fínt. Okezie er meiddur svo hann var ekki að spila rugby um helgina og fórum við því í bíltúr. Við skoðuðum klettamálverk frumbyggja í svona 70 km fjarlægð frá Cobar. Málverkin voru nú ekkert sérstök. Mér fannst skemmtilegri allar kengúrurnar og emúarnir sem við sáum á leiðinni auk fullt af villigeitum og kindum. Þetta var ágætis tilbreyting frá Cobar. Um næstu helgi er löng helgi þar sem við þurfum að halda upp á afmæli Elísabetar drottningar. Við ætlum til Dubbo í húsgagnaverlsanir bara til að skoða og svo getum við pantað það sem okkur líst vel á frá Cairns þegar þar að kemur.

|

fimmtudagur, júní 01, 2006

 
Þegar ég var unglingur þá sneri ég alltaf sólarhringnum við um jólin. Þá las ég bækur langt fram eftir nóttu og svaf svo framyfir hádegi. Í fyrrinótt var ég andvaka til 4 um morguninn. Hefði viljað getað sofið framyfir hádegi eins og í gamla daga en gat það ekki, fékk kannski svona 3-4 tíma svefn og sá svefn var einmitt truflaður af syninum. Ekki gaman að því. Í nótt bætti ég svosem alveg upp svefnleysið, svaf frá 10 til 10 með nokkrum vökupásum. Ég get því líklega ekki kennt svefnleysi um að hafa þvegið heila þvottavél án þess að setja fötin í hana. Þvottavélin er "toploader" og mér finnst oft vera leyfar af þvottaefni í fötunum svo ég hef tekið upp á því að setja hana í gang áður en fötin fara inn og svo þegar þvottaefnið er vel blandað vatninu hent fötunum í. Ekki í dag samt. Þvottavélin virðist hins vegar vera mjög hrein að innan.

Ég skrifaði nastí bréf til smiðanna minna og fékk þetta fína svar um að þeir ætluðu að ganga í málið og lofuðu að steypa grunninn 8. júní. Núna er mér eiginlega alveg sama um þetta því ég hlakka bara til að koma heim. Það verður líklega minna gaman á leiðinni þó þar sem flugið tekur alveg 25 tíma og það verður "áhugavert" að sjá hvernig litli maðurinn fílar það.

Vídeovélin er komin. Ekki sú sem við borguðum fyrir upphaflega heldur keyptum við aðra af öðrum aðila. Nú er búið að taka myndir af barninu í baði, að borða krukkumat í fyrsta skiptið, hlægja að mömmu sinni og skæla svo nú þarf ég að kynna mér hvernig ég set þetta á netið fyrir aðdáendaklúbbinn.

Nú held ég að litli kettlingurinn sé að vakna...

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?