Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

sunnudagur, júlí 31, 2005

 
Þetta var líklega minnsti vetur sem ég hef nokkru sinni lifað. Nú er bara komið íslenskt sumarveður upp á hvern dag, mínus rigning og rok. Sól og tuttugu stiga hiti og ljúft að lifa. Þegar alvöru sumarið kemur hér þá verður bara um 20 stigum heitara, þ.e. 40 gráður og við spyrjum nú bara að leikslokum hvernig það verður. Úff, ég fæ köfnunartilfinningu af því að hugsa til þess.

Hér hefur lukkan leikið við okkur hjúin um helgina. Þvottavélin var t.d. til í að þvo eina vél áður en hún bilaði aftur. Við náðum að laga sláttuvélina eftir mikið moð. Okezie spilaði rúgbý um helgina og var kjörinn maður leiksins. Skoraði þrjár 'tries' og kom bara haltrandi heim með sprungna vör, s.s. frekar heppinn í þetta skiptið. Nú svo var 'Jól í júlí' og þar vann ég 250 dollara í happadrætti. Ég var reyndar búin að vera að selja þetta happadrætti út um allan bæ svo það var hálf neyðarlegt að taka við verðlaununum sjálf. Annars held ég að Ástralía sé kannski bara mitt happaland þar sem þetta eru önnur verðlaunin sem ég vinn hér. Aldrei vann ég neitt á Íslandi eða Englandi.

Jól í júlí var bara fínt. Fyrst jólahlaðborð og svo ball með hljómsveit sem spilaði bara rokktónlist frá liðnum áratugum. Það var bara fínt. Skreyttur salur með jólakúlum og ég veit ekki hvað. Jólamaturinn var fínn en komst þó náttúrulega ekki í hálfkvisti við mat Siggu Karls. Það er ekki að ástæðulausu að Okezie spurði mig hvort ég vildi ekki reyna að fá mömmu og pabba í heimsókn um jólin. Annars kann ég alveg að búa til eplasalat og það er náttúrulega aðal málið.

Fyrir utan þvotta og garðslátt þá til að toppa myndarskap heimilisins þá bakaði ég líka marmaraköku í gær. Það er ekki mikið eftir af henni í dag.

Ég fór líka í jarðarför í liðinni viku. Annar heimilismannanna af elliheimilinu farinn síðan ég byrjaði að vinna þarna. Þetta var jarðarför við gröfina með ástralska fánanum, einhverjum uppábúnum hermanni sem var með allskonar seremóníur fyrir fallinn hermann og nokkuð áhugavert. Ég á samt alltaf soldið bágt með mig þegar ég sé annað fólk gráta. Maðurinn var 82 ára og dauðinn var hans líkn því hann var búinn að vera helsjúkur lengi. En það er bara svo erfitt að horfa upp á annað fólk syrgja. Ég fór þar sem svo margir heimilismannanna vildu fara og því þurftum við ansi marga bíla til að ferja liðið. Ég var eins og ökumaður forsetans þar sem ég fékk lánaðan bíl bæjarstjórans sem er mjög flash. Sko bílinn. Á leiðinni heim þá sá ég unglingspar á fáförnum slóðum að nýta sér auðnina og kyssast soldið mikið og prakkarinn í mér kom upp. Ég bibaði á þau þarna og brunaði í burtu flissandi. Hefði ekki gert það ef ég ætti bílinn sjálf sem ég keyrði... Ég veit, barnalegt en mér finnst það fyndið og þá er það í lagi...

Er þetta ekki bara orðið ágætt. Vænti þess að ekki margir lesi núna, séu frekar sofandi í kross í tjaldi með góða ælu beint fyrir utan. Erum við ekki annars enn ung og vitlaus? Algjörlega óskylt síðustu setningu - til hamingju með afmælið Arndís mín!

|

þriðjudagur, júlí 26, 2005

 

ég trúi á...

Af því tilefni að afmæli er búið og því ekki viðeigandi að hafa það sem fyrirsögn og ekki síður því að síðustu tvo daga hef ég setið sveitt við að búa til jarðarfarar bælking um mann sem dó fyrir helgi þá tók ég þetta próf og set hér á síðuna. Ég held ég sé nú búin að læra faðirvorið og trúarjátninguna á ensku og jafnvel líka Guð-blessi-þig-og varðveiti. Yfirmaður minn er líka meðhjálpari í kirkjunni og ég hef vægan grun um að henni finnist hún eitthvað þurfa að hressa upp á trúarhitann hjá mér.

You scored as Christianity. Your views are most similar to those of Christianity. Do more research on Christianity and possibly consider being baptized and accepting Jesus, if you aren't already Christian.
Christianity is the second of the Abrahamic faiths; it follows Judaism and is followed by Islam. It differs in its belief of Jesus, as not a prophet nor historical figure, but as God in human form. The Holy Trinity is the concept that God takes three forms: the Father, the Son (Jesus), and the Holy Ghost (sometimes called Holy Spirit). Jesus taught the idea of instead of seeking revenge, one should love his or her neighbors and enemies. Christians believe that Jesus died on the cross to save humankind and forgive people's sins.

Christianity

83%

Paganism

67%

agnosticism

58%

Hinduism

50%

Buddhism

46%

Satanism

42%

Islam

33%

atheism

25%

Judaism

17%

Which religion is the right one for you? (new version)
created with QuizFarm.com

|

sunnudagur, júlí 17, 2005

 

Jól í júlí

Þar sem það er orðið of langt um liðið frá kaupstaðarferðinni þá sleppi ég bara að segja ferðasögu... Í stuttu máli þá keypti ég fullt af fötum og fór í bíó. Fórum á War of the Worlds sem ömurleg og Madagaskar sem var skemmtileg - þó sofnaði ég smá. Já og svo get ég líka sagt ykkur að verri ökumaður en ég hefði líklega náð að keyra á kengúrurnar tvær sem skoppuðu svo skemmtilega rétt fyrir framan bílinn. Ég náði þó að bremsa og bölva rækilega.

Annars er það helst að frétta af mér að ég er á fullu að skipuleggja jól í júlí. Það er fjáröflunarskemmtun sem við höldum 30. júlí en við erum að safna fyrir rútu í vinnunni. Já ég veit, voða spennandi vinnan mín...eh. Það verður jólahlaðborð og rokk skemmtun. Raffle og lottó. Ég er búin að vera á fullu í grafísku hönnuninni á veggspjöldum og aðgöngumiðum o.þ.h. Þetta ætti að verða hin besta skemmtun.

Það er svo skemmtilega sveitó að labba í vinnuna hér. Oftar en ekki heyrist hanagal frá einhverju húsinu, ég labba framhjá þremur kindum í girðingu og svo eru fuglarnir endalaust skemmtilegir. Ég verð að fara að ganga með myndavélina á mér til að sanna litina á þeim. Þetta eru alls konar páfagaukar, t.d. dökk grænir með rauðu, gulu og meir að segja bláu í sér. Magnað hreint. Ekki eins magnað af hafa þrjá hunda elta sig í vinnuna. Ekki fyrir mig alla vega sem hef alltaf verið skíthrædd við alla hunda nema reynda Tönju sálugu hennar Ásdísar. Við vorum vinkonur. Svo er líka hundur í vinnunni sem vildi svo gjarna verða vinkona mín en ég dissa hana bara og klappa ekki.

Annars bara allt í gúddí...

|  

Ammæli

Já í dag er afmælið mitt - og reyndar ýmissa annarra, t.d. hafa tvær skólasystur mínar komið börnum í heiminn þennan dag mér til heiðurs. Takk fyrir það.

Ég er mjög hress með daginn eftir afmælismóral síðustu þriggja ára. Leiðin liggur ekki lengur niður á við, nei nei. Svo fékk ég líka svo fína afmælisgjöf frá sambýlingnum. Ferðalag í fjóra daga til Singapúr og svo fjóra daga til Bangkok. Förum eftir tæpan mánuð. Fékk líka undraverðan mixara sem gerir allt og ýmislegt smotterí. Þegar hann kemur heim úr vinnunni ætlum við líka á Copper City Motel sem eldar besta mat í heimi - og það eru ekki einu sinni ýkjur.

Svo fékk ég líka pakka frá mömmunni meðal annars með suðusúkkulaði og súkkulaði rúsínum. Ég er alveg með súkkulaðiskegg hringinn eftir það. Namm namm.

Og ekki spillti fyrir að fá afmælisköku í vinnunni. Algjör prinsessa.

Hlakka til allra afmæla hér eftir... :)

|

fimmtudagur, júlí 07, 2005

 

Dubbo

Við förum til Dubbo í fyrramálið. Dubbo er svona 30 þús manna bær og þangað fara Cobarbúar til að kaupa almennilegt dót. Ég hlakka til að komast í siðmenninguna, bíó og búðaráp. Það verður gott að komast frá Cobar. Stundum fæ ég nefnilega köfnunartilfinningu hér.... Erfitt að lýsa því. Kannski skellum við okkur bara líka í safarígarðinn sem er víst mjög góður. Vona bara að við keyrum ekki niður neinar kengúrur á leiðinni.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?