Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

laugardagur, janúar 27, 2007

 

Kakan tókst!

Já ég held að ég hafi komist skammlaust frá fyrsta afmælisboðinu. Þetta var svona mix af íslenskri afmælisveislu og ástralskri. Skreytt súkkulaðikaka a la Eyrún syss, guðdómlegt gums, ostakaka og brauðréttur komu upp úr íslensku áttinni. Álfabrauð, sausage rolls og partýpoki handa gestunum úr þeirri áströlsku. Álfabrauð er sko bara franskbrauð með smjöri og skrautsykri og slær sko í gegn hjá krökkum hér.














Já svona tókst kakan til. Við buðum ekkert mörgum þar sem við þekkjum kannski ekkert rosalega marga nógu vel enn til að vera bjóða svona heim. Það voru 6 fullorðnir gestir (tel ekki Helgu með þar sem hún er unglingurinn á heimilinu. Fyrst var hún sko hér í vist þar sem hún er dugleg að ganga frá, er búin að ryksuga einu sinni og hefur skipt á mörgum kúkableyjum en þar sem hún vaknar ekki mjög snemma á morgnanna -eða sko eiginlega frekar seint, þá er hún meira svona duglegur unglingur...nóg um það) og svo voru 7 börn, 3 þriggja ára og 4 jafngömul Arinze. Það er nóg eftir af kræsingum þar sem fólk hér er ekki vant miklum veitingum fyrir fullorðna. Ég er búin að fara í tvö afmæli og kom sko svöng heim þar sem það var bara ein kaka og álfabrauð á boðstólum þar. Svo ég held að pabbarnir hafi varla kunnað við að fá sér nokkuð. Það vill þó svo vel til að ég á að sjá um morgunkaffið á mömmumorgninum á mánudaginn svo það verður afmæliskaka þar. Ég skelli inn fleiri myndum þegar okkur tekst að minnka myndirnar hennar Helgu (allar leiðbeiningar vel þegnar). Hérna er samt ein mynd af feðgunum áður en afmælið byrjaði, Arinze fékk nýja skyrtu í tilefni dagsins. Rétt í lokin, ég gleymdi að þakka fyrir gjafirnar sem Helga ferjaði yfir hálfan hnöttinn, takk takk!



|

föstudagur, janúar 26, 2007

 

Afmælisbarn dagsins!















1. árs gæinn á afmælisgjöfinni frá mömmunni og pabbanum. Helga kom svo með fullt af afmælisgjöfum frá fjölskyldunni og vinkonunum. Nú eigum við fullt af dvd, geisladiskum og bókum. Opnum kannski bara íslenskt bókasafn hér í Cairns. Í dag er svo þjóðhátíðardagurinn svo við og Helga förum niður í bæ en Okezie er að vinna. Svo er afmælisveisla á morgun. Ég er búin að baka köku sem snákur verður mótaður úr. Ef vel heppnast þá birtist hér væntanlega mynd. Ef mistekst þá verður aldrei aftur minnst á þetta...

|

fimmtudagur, janúar 25, 2007

 

Á innsoginu

Ég var ekki búin að segja ykkur að hér í Ástralíu er skylda að kjósa takk fyrir! Já og ef maður hypjar sig ekki á kjörstað þá fær maður sekt. Ég er samt undanþegin þessari skyldu þar sem ég er ekki citizen, og er því fegin því mér finnst að það sé alveg jafn mikilvægt að hafa rétt til að kjósa ekki eins og að hafa rétt til að kjósa. Anyways, það mætti halda að ég vildi inn á þing...pólitík og allt. Nú vantar bara að ég fari að blogga um fjármálaóreiðu ríkisins og innflytjendastefnu. Þar sem ég hef ekki skoðanir á þeim málefnum þá set ég bara punkt hér.

Leyfi svo bara Helgu að blogga um ævintýri okkar. Get þó skúbbað að það var gaman hér í dag.

Og að lokum er hér tilkynning. Það er komið gras og blómabeð á 32 Woodrose Drive. Nú er hægt að fara að tala um höll...

|

fimmtudagur, janúar 18, 2007

 

Góðir gestir!

Þá eru Helga og Ása komnar. Ferðalagið gekk bara vel þrátt fyrir smá hlaup í Sydney til að ná flugi. Helga sefur núna enda frekar rugluð í tímanum. Það fór ekki alveg nógu vel um Ásu í fluginu og var hún með hálfgerða andarteppu en er í lagi núna. Arinze kom heim af leikskólanum áðan og er ekki búinn að hitta Helgu en hann gaf Ásu stórt knús og reif í hárið á henni. Helga ætti þó að vera búin að heyra aðeins í honum hljóðið því hann þurftir að leggja sig og orgaði mjög mjög mjög hátt.

|

þriðjudagur, janúar 16, 2007

 

Haldiði ekki bara að...

hún Sigríður Helga sé orðin 18 ára. Til hamingju snúllan mín, vona að þú hafir fengið emailið frá mér.

Svo styttist í Helgu með hverjum deginum... Ætli hún sé ekki lögð af stað frá London núna og kemur svo ekki á morgun heldur hinn nokkrum flugvélamáltíðum, svefnpillum, bíómyndum og slúðurblöðum síðar. Hún er komin með bloggsíðu sem ég linka í hér til hliðar.

Ég er farin að skipuleggja í huganum afmælisveislu litla mannsins. Búin að bjóða nokkrum og er að velta fyrir mér kökum. Vonandi verður búið að setja grasið í garðinn hjá okkur þegar að þessu kemur. Arinze finnst gaman að vera á grasi og fór í gær meir að segja að labba með höndum og fótum, lyftir s.s. hnjánum þegar hann skríður enda er grasið soldið hart. Hann er eins og lítill apaköttur þegar hann gengur svona. Ég býst við að það sé ekki langt í að hann fari að hlaupa um og þá hljóta nú aukakílóin að fara með.

|

sunnudagur, janúar 07, 2007

 
Góði læknirinn gaf mér sýklalyf. Hefði betur farið fyrr til hans. Ég er sem sagt bara með sýkingu í hálskirtli en ekki með mumps eins og mig var sterklega farið að gruna. Reyndar stóð valið á milli mumps (sem ég man ekki hvað er á íslensku) og þess að hafa gleypt íkorna. Nú fer mér þó vonandi að batna enda er ekki gaman að hafa verið veik ALLT árið. Og ég hef enga samúð fengið frá lyfjafræðingnum sem fær aldrei neitt verra en kvef og finnst parasetamól vera lausn við öllu. Þegar ég kom frá lækninum reyndi ég að sýna Okezie sjúkan kirtilinn sem er bæðevei hvítur af sýkingu en nei, hann sá ekkert. Ég náði í nýja stóra vasaljósið og beindi í kjaftinn en allt kom fyrir ekkert. Ég var frekar ósátt við þetta og ætlaði að halda áfram að fá manninn til að sjá sönnunargagnið en þegar hann var farinn að þykjast sjá eitthvað þá gafst ég upp. Maðurinn þarf náttúrulega gleraugu.

Það eru komnar myndir inn á barnalandssíðuna hans Arinze.

|

fimmtudagur, janúar 04, 2007

 

Sjálfsvorkunn og aumingjaskapur.

Það hefur greinilega gleymst að óska mér heilsusamlegs nýs árs. Allt árið, já frá nýárskvöldi, er ég búin að eiga svo hræðilega ógurlega bágt. Hiti, beinverkir, höfuðverkur og hálsbólga, s.s. allir heimsins kvillar í einu. Sem betur fer er Okezie búinn að vera í fríi þessa daga því ég átti ekkert alltof gott með að elta lítinn snöggan ólátabelg milli herbergja. Nú hefði sko verið gott að vera með hjúkrunarkonu. Var ég annars búin að nefna það að ofurhjúkrunarkonan Die Helga er að koma eftir bara svona tvær vikur. Þá verður sko kátt í höllinni.

Það var eitthvað meira sem ég ætlaði að deila með ykkur sem ég man ekki núna. Ég er nefnilega föst í böndum takmarkana í augnablikinu. Ef ég er á internetinu utan off-peak þá verður netið hjá mér köttað niður í 28kbps alveg fram í miðjan mánuðinn. Er sem sagt nærri farin yfirum. En nú ætla ég að bryðja nokkrar parasetamól beint frá mínum einka dópsala og skríða undir sæng. Það er það eina sem virkar...

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?