Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

mánudagur, maí 22, 2006

 

Á heimleið !

Nú skil ég af hverju iðnaðarmenn hafa slæmt orð á sér! Það er svoleiðis verið að taka okkur í rassgatið þarna í Cairns og enn verður bið á að þeir byrji að byggja. Þeir geta víst ekkert unnið í smá rigningu. Í upphafi vorum við að vonast til að flytja í júní. Nú er nóvember líklegri. Þess vegna erum við að spá í að koma bara heim í lok september og verða fram í nóvember. Við Arinze verðum þá líklega á Íslandinu í 5-6 vikur og svo í Englandi restina. Okezie fer náttúrulega bara að vinna í Englandi, einhver verður að færa björg í bú - ekki fer ég að gera það ;-) Það verður ekki lítið gaman að hitta ykkur öll og kynna fyrir Dúralúra kettlinginum káta eins og hann er oft kallaður.

Fleiri en iðnaðarmenn hafa nú verið að svindla á okkur þessa dagana og vara ég hér með við því að versla á ebay. Reyndar segist drengstaulinn sem "seldi" okkur vídeóvélina ætla að senda endurgreiðslu í vikunni. Sjáum til með það...

Veturinn er kominn hér með tilheyrandi gestum. Jamm, nú hefst baráttan við kakkalakkana aftur. Ég fann einn í gær og það var nú ekki fyrr en þá að Okezie játaði að hann hefði rekist á tvo þegar hann ryksugaði daginn áður. Svei. Ég er alveg orðin vön engisprettunum sem voru orðnir heimilisvinir en býst ekki við að venjast kakkalökkum að því marki að láta þá eiga sig. Sem betur fer er ég stoltur eigandi PeaBeu spreys sem svínvirkar.

Arinze fékk fyrstu skeiðina af graut í dag ömmu Siggu væntanlega til mikillar gleði. Hann var bara hamingjusamur með þetta, gretti sig smá fyrst en smjattaði svo og brosti. Hann veit nú ekki af því en hann fær 4 mánaða sprauturnar á föstudaginn greyið litla.

Svo í lokin er tilvalið að óska Ásdísi minni til hamingju með daginn á morgun en þá rennur upp síðasta tuttuguogeitthvaðárið. Það er enn langt í það hjá mér sem betur fer. Ásdís er að borða baguette og osta og drekka rauðvín endalaust í Parísinni. Vonandi hefur hún það huggulegt á afmælisdaginn og fær eitthvað fallegt frá "vininum".

|

sunnudagur, maí 07, 2006

 

Duglegi strákurinn

Hér er allt að gerast núna um helgina. Við stöndum t.d. í "growth spur" með tilheyrandi, það er að segja við vöknum oftar til að drekka, Arinze er búinn að vera frekar pirraður og jafnvel vælinn og ég er búin að vera svöng alla helgina. Í dag gerðist svo nokkuð merkilegt. Já eftir nokkrar laufléttar æfingar síðustu vikur þá varð Arinze svona góður í að liggja á maganum og sperra sig upp. Ég stökk til og náði í myndavélina þó ég ætti nú ekki von á mikið meiru því venjulega hefur hann í mesta lagi lyft höfðinu til að geta horft í hina áttina og svo bara stungið fingrum í munn og legið í notalegheitum. En í þetta skiptið var bara meira og meira og hann lyfti sér mjög hátt og lengi. Gerði svo betur og velti sér yfir á bakið. Ég setti hann nokkrum sinnum til baka á magann og alltaf velti hann sér á bakið aftur. "Duglegur strákur" hefur hann fengið að heyra mörgum sinnum í dag og ég held bara að þessi orð hafi bæst í litla orðaforða Okezie líka... En hérna koma myndir...


"Halló mamma""Þetta er ekkert mál"Og svo kominn á bakið.

Við vorum að tala um það fyrir helgi að við yrðum bara að kaupa okkur vídeóvél. Svo fengum við boðskort í brúðkaup Hildar og Gumma sem var diskur með myndum af krökkunum þeirra og ég varð enn sannfærðari. Í dag keyptum við okkur svo eina JVC á Ebay og kemur hún vonandi bara fljótlega í næstu viku. Þá verður gaman! Ég er nú þegar búin að taka yfir 300 digital myndir af kappanum svo það ætti að verða gaman að geta tekið vídeó líka. Annars var ég að bæta við fullt af myndum á barnalandssíðuna. Þær fóru aftast í albúmið merkt "3 mánaða".

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?