Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

sunnudagur, mars 26, 2006

 

2. mánaða

Í dag er Arinze Tómas orðinn tveggja mánaða. Í dag fékk hann líka blessun í kirkju. Við ætluðum að skíra hann hérna í Cobar en svo var presturinn sem við þekktum færður í annan bæ svo við ákváðum að skíra frekar í Englandi eða á Íslandi næsta sumar. Svo í dag kom biskup í heimsókn hér og við vorum spurð hvort við vildum ekki alla vega fá blessun og úr því varð. Það var mjög notaleg messa (ég er orðin pínu betri í messusiðunum eftir jólamessuna) og biskupinn talaði mjög fallega til Arinze og okkar reyndar líka. Ég var pínulítið stressuð yfir því að Arinze hafði verið að drekka en var ekki búinn að ropa þegar við tókum blessuninni og ég átti alveg eins von á að hann myndi gubba á skrúða biskupsins en sem betur fer slapp það alveg.

Annars erum við búin að eiga mjög notalega helgi. Við misstum af kappreiðunum þar sem Arinze ákvað að sofa lengi yfir miðjan daginn og við vorum ekkert að vekja hann. Fórum þess í stað í smá göngutúr hér við lítið vatn fyrir utan bæinn. Við höfðum aldrei farið þangað áður. Eftir messuna í dag og messukaffið höfum við öll bara lagt okkur og dundað okkur við heimilisverk.
Hérna er mynd frá messunni og svo var ég líka að setja inn fullt af myndum á barnalandssíðuna. Þar er margra mynda sería af Arinze þar sem ég þurfti að taka mynd sem væri hægt að nota í vegabréf. Það gekk vægast sagt illa að fá hann til að horfa beint fram í myndavélina. www.arinze.barnaland.isÁ myndinni eru Tony læknir sem er líka djákni eða eitthvað svoleiðis, Sharon sem var yfirmaður minn og er háttsett í sókninni, biskupinn og náttúrulega við litla fjölskyldan.

|

föstudagur, mars 24, 2006

 

Smá update

Það er orðið ansi langt síðan ég hef nennt að skrifa hér. Héðan er allt fínt að frétta. Ég nýt móðurhlutverksins alveg í botn. Arinze er alveg frábær. Hann er náttúrulega farinn að brosa og bræðir móðurhjartað alveg í hvert sinn. Það eru brosmyndir á barnalandssíðunni hans. Svo er hann að reyna að spjalla við mig með misgóðum árangri. Hann er duglegur að leika sér og er farinn að drekka mun hraðar sem er gott því það tók rúman klukkutíma í hvert skipti að gefa honum. Hann fær fyrstu sprauturnar núna fljótlega. Á sunnudaginn fær hann blessun í kirkjunni hér. Við ætlum ekkert að skíra hann fyrr en við komum heim og gerum það þá annað hvort í Englandi eða Íslandi.

Á morgun er einhvers konar hestakapphlaup eða races. Þangað fara flestir og ætli við trítlum ekki með kerruna svona til að sýna okkur og sjá aðra. Það fer eftir því hvað það er heitt hvort við nennum eitthvað að vera þarna. Annars er farið að kólna þónokkuð, held að það hafi ekki einu sinni náð þrjátíu stigum í dag.

Þið hafið líklega séð eða heyrt af hvirfilbylnum sem gekk yfir Cairns svæðið í vikunni. Bærinn sem fór illa út úr því er í rúmlega klukkustundarfæri frá Cairns. Ég talaði við hönnuð að húsinu okkar og hún sagði að soldið mikið af trjám hafi fokið um koll í Cairns. Við erum róleg yfir þessari hættu, það er einhvers konar hætta alls staðar. Ég fann hins vegar aðeins fyrir afleiðingum hvirfilbylsins í dag í búðinni en kílóið af banönum fór úr $2.50 í $8 sem er 400 kall. Ég held að öll bananauppskera Ástrala hafi eyðilagst í bylnum.

|

miðvikudagur, mars 08, 2006

 

Haust

Hér í Cobar kom haustið þann 1. mars. Í nótt var svo ógurlega kalt. Svo kalt að Arinze fékk að koma upp í á milli óvenju snemma í þetta skiptið. Í morgun sá ég að hitinn klukkan átta var bara 15 stig, brrrr. Í húsinu mínu eru engir ofnar svo við fundum fyrir kuldanum. Já og ég er í sokkum í dag í fyrsta sinn í marga marga mánuði og í peysu og síðbuxum. Reyndar er farið að hitna upp núna svo ég þarf líklega að skipta um fljótlega.

Arinze er næstum því 6 vikna núna. Fyrstu tvær vikurnar hérna heima þyngdist hann ekki alveg nóg en er núna farinn að bæta upp fyrir það. Í síðustu viku þyngdist hann t.d. um rúm 400 grömm og er orðinn 4,6 kg núna. Hann er greinilega að þroskast, hann brosir næstum alltaf til baka til mömmu sinnar og skoðar allt vel og vandlega. Hann er farinn að sofa miklu betur enda með fyllri maga en í byrjun. Honum finnst best að vera í kerrunni og sofnar þar venjulega en vaknar hins vegar alltaf ef hann er skilinn eftir í apótekinu hjá pabba sínum þó það sé ekki nema í smá stund. Ég held að hárið eigi eftir að detta af honum fljótlega. Allavega er það orðið ansi "limp" og meir að segja soldið ljósara í rótina. Ég setti á hann húfu í fyrsta skiptið í gær og hann horfði lengi vel upp í augabrúnirnar eins og hann væri að spá í hvað væri eiginlega þarna á honum. Annars gengur bara mjög vel, við erum svona nokkurn veginn búin að kynnast hvort öðru og koma okkur upp smá rútínu.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?