Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

fimmtudagur, júlí 26, 2007

 
Svona til að sanna enn betur hversu slæm móðir ég hlýt að vera þá var ég, núna klukkan 8 um kvöld, að fatta að Arinze er eins og hálfs árs í dag. Ég er of sein fyrir extra knús og kossa þar sem hann var að sofna, ekkert hress með að þurfa að gera það aleinn. Á morgun fær hann hins vegar súkkulaði. Ekki reyndar vegna "afmælis", heldur er hann að fara í klippingu. Ég hlakka ekki til.

|  
Ég kann ekki við að viðurkenna hvers ég sakna mest á þessari stundu. Arinze er í leikskólanum, Okezie í vinnunni og Harry Potter liggur í aftursætinu á bílnum fyrir utan apótekið. Þangað var hann sendur þar sem ég á að vera að bera saman sustainability reports Rio Tinto og Alcoa og treysti mér engan veginn til að hafa hann hér heimavið. Kannski ég sæki bara barnið snemma til að sleppa undan náminu. Sambýlingurinn og unglingurinn koma svo heim í kvöld.

|

miðvikudagur, júlí 18, 2007

 
Ókei, smá svona blendnar tilfinningar í gangi á þessum bænum. Ég er alveg að hætta að vera tuttuguogeitthvað. Í bjartsýniskastinu hugsa ég að það sé betra að verða 3-0 en að verða það ekki. Á hinn bóginn er ég núna á öðrum áratugi en sambýlismaðurinn, er opinberlega ekki "stelpa" lengur og bara finnst ekkert sérstaklega gaman að eiga afmæli lengur.


Þar sem Okezie er að vinna til 9 annað kvöld og Arinze í leikskólanum þá höfðum við bara afmælisdag í dag í staðin. Við fórum á Cairns Show sem er svona hálfgerð sveitasýning hérna. Dyggir lesendur muna kannski eftir Cobar Show sem var ógurlega sveitó og ég var hissa að sjá að þetta er eins hérna. Teikningar eftir grunnskólanema hanga uppi, það er keppt í rúningum, besta nautið o.s.frv. Svo eru alls konar tívolítæki, dýr og matarbásar. Þetta var mjög gaman og Arinze var sérstaklega hrifinn af lömbum sem þarna voru. Eftir hádegissiestu litla mannsins fórum við svo til Palm Cove á ströndina. Þar var rok og skítakuldi en við gátum leikið okkur og fengið okkur köku. Á morgun fer ég svo í klippingu til að vera aðeins sætari í ellinni en í æskunni og fer svo í lunch með mömmuvinkonum mínum.


Þetta verður kannski allt í lagi?



|

laugardagur, júlí 07, 2007

 
Vitlaus mamma!
Ef Sigríður Karls fær hland fyrir hjarta þegar hún sér þessa fyrirsögn þá getur hún alveg andað rólegar, hér stendur ekki til að gera upp barnæskuna. Fyrirsögnin á við mig sjálfa í dag. Ég gerði nefnilega mín stærstu mistök hingað til í móðurhlutverkinu í dag. Við Arinze fórum með vinkonu minni á markaðinn og gengum þar fram á djúsbar. Ég er svoddan matartúristi að ég varð að prófa nýpressaðan sykurreyrsafa. 40 cm búti af sykurreyr var þarna rennt í gegnum safapressu og þetta var allt voða freistandi og gott. Svo vildi náttúrulega Arinze endilega fá að prófa. Glasið var með röri og við höfum ekkert verið að drekka svoleiðis. Eftir smá æfingar og hann var búinn að fá örlítið smakk var hann sko heldur búinn að fatta hvernig þetta virkaði og drakk sirka þriðjung af drykknum. Ok, ég henti svo afgangnum enda var þetta frekar sætt. Arinze var hinn rólegasti þangað til við komum heim en þá var kominn tími til að leggja sig. Þá var sko drykkurinn kominn beint í blóðið. Ég sleppi bara að segja frá klukkutímanum þar sem hann velti sér fram og til baka með galopin augun, slóst við bangsana sína og svo framvegis. Til að gera langa sögu stutta þá var enginn lúr þennan daginn en farið fyrir 6 í háttinn og ég hef aldrei séð strákinn minn eins þreyttan. Greyið litla sem overdosaði svona á sykri sofnaði í miðju mjólkurglasi. Mín refsing verður líklega tveir dagar þar sem hann verður líklega vaknaður fyrir allar aldir í fyrramálið. Sykurreyrdjús er ekki eins og ávaxtadjús, þetta er BARA sykur. Jökk.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?