sunnudagur, ágúst 28, 2005
Öll ferðasagan - varúð - mjög langt
Þar sem ég skrifaði frá Singapore ætla ég bara rétt að stikla á stóru til að klára þetta,
- Á flugvellinum spurði tollvörður mig í oft og mörgum sinnum hvort ég hefði einhver ´secrets to declare´. Hann spurði mig oft því ég skildi ekkert í hvers vegna hann var að spurja mig þess. Þegar hann bætti við wine þá kviknaði loks á perunni. Hann meinti náttúrulega cigarettes. Þetta var ekki í eina skiptið sem samskiptaörðugleikar áttu komu upp.
- Það var ekki laust við að við værum þónokkuð stressuð að fara í gegnum tollinn þar sem fluffurnar tilkynntu mörgum sinnum að það væri dauðarefsing fyrir þá sem kæmu með eiturlyf inn í landið. Við marglæstum töskum, tékkuðum þær svona bara til öryggis frá töskubeltinu að tollinum til að vera viss um að enginn hefði stungið neinu í og hættum okkur svo inn í landið. "Singapore is a fine city" á vel við því við minni afbrotum, s.s. henda rusli á víðavangi, pissa í lyftu o.þ.h. er sekt.
- Hitinn sem tók á móti okkur var álíka og á sólríkum degi í íbúðinni hjá ömmu, rakastig hátt og hiti um 35 gráður. Það tók ekki langan tíma að venjast því sem er eins gott þar sem það verður svipað þegar við flytjum til Cairns.
- Á fjórum dögum í Singapore fórum við í fuglagarð, dýragarð, nætursafarí, Fiðrildagarð og skordýragarð. Allt í sitthvoru lagi. Sáum m.a. hvíta tígra og skemmtilega fuglasýningu. Ég komst reyndar að því að ég er með netta fiðrildafóbíu. Fannst ekkert sérlega þægilegt að hafa risastór fiðrildi á sveimi í kringum mig. Svona er maður taugaveiklaðri en maður heldur!
- Við fórum líka með skýjakláfi frá Singapore til Santosa sem er eyja með allskonar afþreyingu og í siglingu út frá Singapore inn á skjaldbökueyju.
- Singapore er frábær til að versla í, sérstaklega myndavélar og þess háttar. Við keyptum næstum því vídeóvél en hættum svo við. Okezie endaði þó á að kaupa sér nýjan síma á spottprís.
- Ég fékk 8 moskítóbit í Singapore. Hvorki fallegt né þægilegt.
- Hótelið var frábært þó það væri ekki vel staðsett. Við vorum sótt á völlinn og keyrð aftur og fengum morgunverðarhlaðborð á hverjum degi. Namm, hrærð egg og beikon á ristað brauð, jógúrt, ávextir, pönnukökur með sýrópi. Þið ráðið hvort þið haldið að ég hafi borðað þetta allt á hverjum degi eða dreift þessu á fjóra daga. Rétt svar verður ekki gefið upp vegna nýrra laga um persónuvernd.
- Á leiðinni frá Singapore fékk ég svo nett hjartaáfall þegar mér var tilkynnt að ég þyrfti á vegabréfsáritun að halda til að fara til Bangkok. Það voru víst nýjar reglur settar um þetta í júlí og ég var búin að kynna mér þetta allt en það var ekki fyrr en ég náði að tala konuna út í að hringja í sendiráðið í Singapore og þetta reddaðist. Óþægilegur hálftími það.
Bangkok
- Sama hélt áfram, sótt á völlinn, frábært hótel, morgunmatur innifalinn og sami hitinn. Við fórum beint á næturmarkaðinn á Si Lom sem er frægur fyrir að vera "red light district". Við vöppuðum þarna á milli alls konar markaðsstanda sem flestir seldu það sama reyndar. Hættum okkur inn á einn barinn og horfðum á litla stráka dansa við Vouge Madonnu og Moulin Rouge þó fullklæddir. Þetta var samt eitthvað svo seedy að við fórum ekkert aftur þangað. Hvert sem maður leit voru hvítir karlar að leiða litla tælenska stráka eða stelpur í burtu.
- Tuk-tuk eru opnir taxar á þremur hjólum með brjálæðingum undir stýri sem þarf að prútta við endalaust. Þeir fara svo í allskonar útúrdúra til að stytta ferðalagið og við vorum búin í lungunum eftir ferðalögin með þeim. Margir vilja endilega semja við farþegann um að stoppa einu sinni á leiðinni og taka hann þá á dýran markað og þess háttar. Ég var ekki að fíla að þurfa að rífast í fólki í fríinu. Prútt fældi mig almennt frá kaupum af þessari ástæðu.
- Við fórum á Thai-Boxing. Það var rándýrt og ekkert merkilegt en við hefðum líklega séð eftir að fara ekki hefðum við sleppt því.
- Hins vegar var betri skoðunarferðin sem við fórum í að "Brúnni yfir ánna Kwai". Þar fórum við í litla lestarferð yfir ánna, á skemmtilegt safn um byggingu lestarteinanna, í rafting á bambuspramma (er það kannski ekki rafting þegar áin er spegilslétt?) og á bak á fíl í hálftíma (ekki eins slæmt og úlfvaldi en ekki ósvipað). Þetta var allt saman mjög skemmtilegt.
- Thai dinner and dance var líka skemmtilegt. Fundum reyndar ekki mikið af góðum mat í Tælandi.
- Í heildina þá varð ég fyrir vonbrigðum með Bangkok. Ég átti von á indælu fólki og náttúrufegurð. Fyrir mér er Bangkok meira ömurleg traffík, endalausir svindlarar, erfitt líf fyrir alla - sérlega þó konurnar, áberandi kynlífsferðamennska og allt mikið feik. Mér fannst óþægilegt þegar fólk beygði sig og bugtaði þegar það fékk þjórfé og sýndi virðingu sína á þann hátt. Eins og það þyrfti að sýna mér svona mikla virðingu. Það er erfitt að útskýra þetta en þó við hefðum notið dvalarinnar þá átti ég von á meiru.
Cairns
Síðasti áfangastaðurinn. Þangað fórum við með það fyrir augum að kaupa hús. Eftir að hafa skoðað fjöldan allan af húsum þá enduðum við á að kaupa land og það er verið að teikna hús fyrir okkur. Það ætti að vera hægt að byrja byggja í desember og við getum þá flutt þangað í apríl eða maí. Við keyptum land í frábæru hverfi þar sem allt er nýtt og vel skipulagt. Það eru regnskógivaxin fjöll allt í kring og það tekur u.þ.b. 15 mínútur að keyra í miðbæinn. Húsið verður 3 svefnherbergi og skrifstofa, baðherbergi og walk-in-robeinn af svefnherberginu, air con í öllum herbergjum, og mjög flott eldhús. Já og tvöfaldur bílskúr. Tek hér með við pöntunum í heimsókn.
Við vorum mjög hrifin af Cairns. Mjög fallegt þarna, alþjóðlegur flugvöllur, vinalegt fólk, mjög alþjóðlegt, Great Barrier Reef, fullt af ströndum, alltaf gott veður (nema þegar við vorum þar), fullt af búðum og veitingastöðum, og þar sem þetta er túristabær þá er fullt að gera fyrir alla þá sem nenna að koma í heimsókn. Það er um 125 þús sem býr þarna og þeir búast við að 2030 verði íbúarnir orðnir 200 000. jamm, það er allt að gerast.
Eftir 9 flugferðir og 6 flugvelli á 14 dögum get ég ekki lýst því hvað það var gott að koma heim. Við komum um fjögur leytið og svo er það bara vinnan á morgun. Eins gott og það er að fara í ferðalag þá er ég mikið fyrir rútínuna og að sofa í mínu eigin rúmi. Þegar ég sef í nýju rúmi dreymir mig alltaf mikið svo það hefur verið jafn mikið að gera á nóttu sem degi. Í gærnótt þá var ég t.d. kærasta Harry Bretaprins að reyna að fela mig fyrir bresku pressunni hrædd um að þið öll sem þekkið mig mynduð selja sögur um mig. Nú ætti allt að falla í sama farið og ég ætt að vera tilvonandi prinsessa.
Ég stóð við stóru orðin og skrifaði alla ferðasöguna. Kláraði einhver að lesa?
þriðjudagur, ágúst 16, 2005
Singapore
Allavega, a ekki von a thvi ad skrifa aftur fyrr en kannski fra Bangkok en thangad forum vid a fostudaginn.
laugardagur, ágúst 13, 2005
'Eg er 'a leidinni...
Eg aetla ad reyna ad lata heyra fra mer alla vega einu sinni a thessu ferdalagi.