Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

fimmtudagur, maí 24, 2007

 

Gott Ráð

Margir eiga í erfiðleikum með að borða ráðlagðan dagskammt af ávöxtum. Í kvöld fann ég góða leið til að svelgja ofan í mig banana. Ég skar í hann rauf, fyllti með Nutella súkkulaði fyrir brauð og setti inn í örbylgjuofn í 45 sekúndur. Svo bar ég ís fram með þessu bara fyrir mig sjálfa. Namm.

Ég á að vera að læra fyrir próf en nenni því ekki. Er búin að vera í þvílíku letikasti að ég þreif meir að segja búrskápinn. Hvenær nennir maður því? Bara þegar það á að vera gera eitthvað enn leiðinlegra. Annars fer þetta nú að minnka hjá mér. Próf á laugardaginn, fyrirlestur og erfitt verkefni á miðvikudaginn og svo próf og ritgerð. Allt þetta verður búið 13. júní. 15. júní byrjar svo næsti kúrs sem er í tvær vikur + ritgerð + próf og svo fer ég í síðasta kúrsinn í bili helgina eftir afmælið mitt og þá fyrstu í ágúst. Svo hef ég sirka tvo mánuði til að slappa af fyrir útungun og foreldraheimsókn +. Jólin verða komin áður en ég veit af.

Júbilering - grenj grenj.

|

sunnudagur, maí 20, 2007

 

OMG

Vissuð þið að Donny Wahlberg sem lék t.d. í Boomtown og er bróðir Mark Wahlberg var einn af strákunum í New Kids on the Block? Ok, geri reyndar ráð fyrir því að Gullan mín hafi vitað þetta en ég fékk nett sjokk.

|

miðvikudagur, maí 16, 2007

 

Hjálp!

Kann einhver ráð við pennastrikum á rúskinnssófa? Jamm litli maðurinn hefur sýnt listahæfileika sína.

Annars er Arinze búinn að vera lasinn síðan á laugardagskvöldið. Heilmikill hiti og svo í gær fékk ég gubbgusu yfir mig. Næs. Maður tekur því slæma með því góða býst ég við...

|

fimmtudagur, maí 10, 2007

 

Þessum kynntist ég áðan...

þegar ég fór út með ruslið og ég fékk gæsahúð á hárlausa leggina. Ég reyndi að hrekja hann í burtu en froskar eru svo vitlaus dýr að þeir standa grafkjurrir þegar fólk eða bílar nálgast þá. Dánartíðni froska er há í bílslysum. Þeir halda líklega að ef þeir hreyfa sig ekki þá sjáist þeir ekki. Ég fór náttúrulega ekkert með ruslið neitt lengra enda í stuttbuxum og á tásunum og hann hefði að öllum líkindum reynt að húkka sér far með mér. Þessi er nú bara meðal stór, hef séð svona tvisvar sinnum stærri frosk úti á götu en hann hafði einmitt lent í þessu með bílana. Jámm, svo ruslið bíður eftir að Okezie komi heim en þegar ég var komin hálf inn þá sá ég þessa stóru könguló. Alveg bara held ég sú stærsta sem ég hef séð hér (ekki samt neitt risa) svo ég flýtti mér inn. Fannst samt verst að þegar ég fór út til að taka myndina af Frikka frosk þá var köngulóin horfin. Vona að hún sé ekki hér inni.

Þessi að neðan er nú aðeins sætari en prinsinn í álögunum úti á tröppum. Línan á nebbanum er eftir óhappadaginn mikla á þriðjudaginn. Arinze var að leika sér með bleiukassa og stakkst á höfuðið einhvern veginn og fékk marblett í beina línu. Seinna um daginn var hann að leika sér á mottu á flísalögðu gólfinu og á undarlegan hátt skellti hann nefinu í gólfið. Datt ekkert sko, bara misreiknaði sig kannski eitthvað. Rétt fyrir svefninn datt hann svo og skall með hnakkann í gólfið. Gæti trúað að nettur hausverkur hafi gert vart við sig þennan daginn.

Annars bara allt í fína...


|

föstudagur, maí 04, 2007

 

Frjáls!

Já nú er öðru faginu gjörsamlega lokið og ég þar með búin með 1/6 af MBA. Síðustu tvær vikur hafa verið hrikalega erfiðar en ég hef verið að vinna að erfiðu verkefni og var líka í skólanum alla síðustu helgi. En í dag kláraði ég sem sagt verkefnið og brunaði með það í skólann enda ekki seinna vænna - skiladagur í dag. Eftir þetta var deginum slegið upp í kæruleysi, Okezie í fríi þar sem hann þarf að vinna á morgun og við skelltum okkur í Muddy´s, vatnsleikvöllinn niðri við strönd. Þar var rosalega gaman. Svo gaman að Arinze hljóp um (hættur að labba og hleypur bara núna) í svona klukkutíma og ég hef sjaldan séð hann eins örmagna eins og þegar við komum heim. Þið getið séð myndir á barnalandssíðunni frá því við fórum þangað fyrst en mig minnir reyndar að ég hafi skellt þeim myndum hingað inn þá.

Já ég vissi bara varla hvað ég ætti af mér að gera svo ég eldaði góðan mat og stóð frammi fyrir valkvíða. Ætti ég að fara að leita mér að ritgerðarefni fyrir Heimsvæðingarkúrsinn (þarf að skila proposal í næstu viku), vinna upp síðustu viku í Accounting, ganga frá öllu markaðsfræðidraslinu sem ég var að klára eða skerða þessi þrjú hár sem prýða kynþokkafulla leggi mína. Eftir miklar pælinar ákvað ég að skella mér í bað en það er í fyrsta sinn sem ég geri það hér í húsinu okkar. Þá var nú ekki nóg að raka leggi heldur skellti ég líka maska framan í mig og man ég hreinlega ekki hvenær það var sem ég gerði eitthvað svona fyrir mig síðast ( af háralengd þá er langt síðan. mjög langt).

Annars er hér bara allt í lukkunnar standi. Ég græt fögrum tárum í hvert sinn sem ég fæ tölvupóst varðandi júbileringu á Laugarvatni í maí. Svo uppgötvaði ég líka í dag að það eru ekki 4-5 mánuðir í þrítugsafmæli, neibb bara 2 1/2. Ég þarf að fara að rannsaka augnkremamarkaðinn.

Kíkið á barnalandið, þar skellti ég inn myndum frá febrúar, mars og apríl.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?