Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

fimmtudagur, nóvember 30, 2006

 

Svona horfir hann á Söngvaborg, fer reyndar stundum aðeins nær og prílar upp á borðið.Kíktum á kóalabjörn og sáum líka 4 metra krókódíl. Stilltum Arinze EKKI upp fyrir framan hann.

|  

Loksins loksins

Þá er ég loksins komin í samband við umheiminn. Fyrst tók heila eilífð að fá internet tengingu og þegar hún kom þá var tölvan komin í rugl. Það var ekki eitt af mínu bestu mómentum þegar ég sagði stelpunni frá internet fyrirtækinu að f*** off.

Við litla fjölskyldan höfum verið að koma okkur fyrir á fullu á þessum 5 vikum sem við erum búin að vera í Cairns. Það byrjaði nú ekki mjög vel þar sem ég var gripin glóðvolg við smygl á flugvellinum í Cairns. Hundarnir þefuðu mig uppi með banana í veskinu. Eftir 30 tíma ferðalag með smábarn (sem bæðevei er ekkert mál að ferðast með) þá leitaði ég ekki alveg nógu vel í handfarangri að nestinu. Það er alveg grafalvarlegastranglegabannað að koma með mat hingað í "paradís" og þá sérstaklega slæmt að vera með ávexti. Munið þið eftir Bart Simpson með froskinn í Ástralíu? Ég slapp með áminningu og þurfti ekki að leita skjóls í sendiráði.

Við erum nú nánast alltaf bara þrjú í húsinu. Engir kakkalakkar. Reyndar kom ein lítil gecko í heimsókn og bjó ofan á eldhússkápnum í eina nótt svo eru náttúrulega öðru hvoru litlar kóngulær sem mér er nokkuð sama um og spreyja bara með Peubeu. Það er ekki gott fyrir sálartetrið að fá gecko í heimsókn. Í nokkra daga á eftir vaknaði ég um miðja nótt og fannst kónguló vera á mér og svo sofnaði ég á sófanum eitt kvöldið fyrir framan sjónvarpið og stökk upp, starði fram fyrir mig og hélt því fram við Okezie að það væri possum á ganginum. Ég veit ekki einu sinni hvernig possum lítur út en nóg um það.

Það er náttúrulega alltaf eitthvað sem manni finnst skrýtið á nýjum stöðum. Hér er svona fimmti hver maður berfættur útivið. Sumir krakkar labba berfættir í skólann á funheitu malbikinu og ég hef of mörgum sinnum séð fólk á öllum aldri berfætt í stórmörkuðum.

Það er að hitna hér enda sumarið að koma. Það eru svona 32 gráður og sól upp á hvern dag. Við Arinze reynum að forðast sólina milli 10-3 enda er það hættulegasti tíminn. Ég hef nú samt náð mér í smá sólbrúnku, eða er reyndar bara með hallærislegt far eftir hlýraboli.

Arinze er hress og kátur. Hann hefur skriðið á maganum í svona 6-7 vikur og fer ekkert upp á hnén. Hins vegar er hann í nokkrar vikur líka búinn að vera að standa upp meðfram öllu og klifrar upp á sjónvarpsskápinn móður sinni til mikillar hrellingar. Hann hætti á brjósti nokkrum dögum eftir að við komum hingað og fór að sofa í eigin rúmi. Á 9 mánaða afmælisdaginn sagði hann svo mamma í fyrsta sinn. Hann vandaði sig þvílíkt og vissi alveg hvað hann var að gera. Hann hefur nú reyndar ekkert verið að ofnota það síðan... Við förum í playgroup einu sinni í viku sem honum þykir mjög skemmtilegt og svo er hann að byrja í leikskóla einn dag í viku í næstu viku. Hann sá jólasvein í fyrsta skiptið um daginn og fór að hágrenja. Hann sem er ekki vanur að vera hræddur við fólk.

Ég trúi því varla að það sé desember á morgun. Það er alveg ekki jólastuð í minni. Yngsti bróðir Okezie verður líklega hjá okkur, hann er í verknámi á Nýja-Sjálandi. Jæja, man ekki meira í bili... Skelli kannski myndum inn þegar ég er búin að setja þær í tölvuna.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?