Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

miðvikudagur, júní 24, 2009

 
Hér í Mt Gamiber er allt bara fínt að frétta. Við erum orðin nokkuð góð í kuldanum hér og gleðjumst bara þegar það er hlýtt og sólríkt. Í Cairns vorum við evrópsku vinkonurnar sammála um að við söknuðum þess að gleðjast yfir góðu veðri því í Cairns er eiginlega alltaf gott veður.
Síðasta sunnudag fórum við í bíltúr í norðurátt. Á einum klukkutíma keyrðum við í gegnum mjög mismunandi svæði. Fyrst var mikið af grænum högum með kúm, hestum og kindum, þá fórum við í skóga en hér er mikil skógræktariðnaður. Í lokin fórum við í gegnum Coonawarra sem er frægt fyrir vínekrur. Við stoppuðum í Naracoorte og skoðuðum risa stóran helli þar sem hafa fundist ‘fossils’ af risadýrum. Ég vissi þetta ekki en fyrir um 500 000 árum voru til 3 metra háar kengúrur, Wombats á stærð við bíl og risa snákar. Arinze var hálf smeykur við að fara ofan í hellinn til að byrja með en svo var hann svo stór að það var ekkert meir. Rósa hefur yfirleitt ekki vit á að vera hrædd við neitt.
Næsta sunnudag förum við svo væntanlega eitthvert í Victoria, á eftir að plana það betur.

Krakkarnir byrja í leikskóla í næstu viku og verða tvo daga í viku eins og þegar við vorum í Cairns. Þá get ég farið að leita mér að vinnu eða einhverju öðru að gera.|

sunnudagur, júní 07, 2009

 

Ný byrjun - einu sinni enn

Það hefur tekið heilmikið á að byrja á þessu bloggi. Síðan síðast er svo margt búið að gerast og þá er erfitt að ákveða hvar á að byrja og hvar á að enda.
Kannski er bara best að byrja á endanum. Við erum sem sagt flutt frá hlýju, sólríku Cairns þar sem allir vinir okkar eru. Fluttum til kalda og blauta Mt Gambier þar sem við þekkjum engann. Ævintýraskapurinn er ekki alltaf auðveldur, sérstaklega þegar kemur að því að flytja með tvö börn. Við ætlum að reyna að leigja út húsið okkar í Cairns og þess vegna, þegar við vorum að pakka, þurftum við að ákveða hverju ætti að henda, hvað ætti að selja á bílskúrssölu, hvað ætti að gefa, hvað ætti að taka með okkur í flugið, hvað ætti að senda í kössum og hvað skyldi geyma hjá Aroni vini okkar. Flókið, já. Á endanum hafðist þetta allt saman, eins og venjulega.
Mt Gambier er rúmlega 20 þúsund manna bær í Suður Ástralíu, nálægð ríkjamörkum Victoria. Það er mitt á milli Adelaide og Melbourne, um 5 klst keyrsla í hvora átt. Bærinn er byggður í hlíðum eldfjalls og hér eru margir gígar sem eru fullir af vatni. Frægast er Blue Lake sem er eins og nafnið gefur vísbendingu um blátt. Reyndar ekkert venjulega blátt þar sem stundum verður það kóbalt blátt og enginn veit ástæðuna fyrir því. Hér er líka mikið af hellum ofan í jörðu út um allan bæ og þar er líka eitthvað vatn sem er hægt að kafa í. Það stendur ekki til hér á bæ.
Við leigjum hér hús með húsgögnum. Það er mjög fínt, með fínum antíkhúsgögnum. Kannski er það ekki alveg það hentugasta þegar litlir skæruliðar eru með í för en valið var nú ekki fjölbreytt. Hér er hins vegar girðing allan hringinn í kringum húsið og góð stétt til að hjóla á bak við hús. Húsið er í elsta hverfinu hérna og er eins og húsin í kring mjög sjarmerandi. Þau eru líka frekar köld, við erum með arinn í stofunni sem við notum helst ekki, rafmagnsofn í borðstofunni sem svínvirkar og svo bara litla rafmagnsofna í herbergjunum. Krakkarnir tóku flutninginum mjög vel. Eftir fyrstu nóttina fóru þau að sofa í sínum herbergjum. Arinze hefur hjónarúm og Rósa einbreitt rúm. Hún var enn í rimlarúmi í Cairns og hefur aðeins verið að detta fram úr. Það hlýtur að lagast.
Helstu kostirnir sem ég sé við að búa hér er hárið á mér flottara en klessist ekki strax niður eins og í Cairns. Eins verður mun minna um þvott hér þar sem það er hægt að fara í flík oftar en einu sinni. Svo er heilmikil ástæða til að kaupa föt hérna. Eftir þrjú ár í Cairns var ekki mikið til af skjólflíkum. Krökkunum finnst svo mikið sport í því að vera í skóm (voru berfætt eða í sandölum í Cairns), hvað þá jökkum en svoleiðis höfðu þau ekki átt fyrr. Reyndar var fyndið þegar við ætluðum að fara út fyrsta daginn. Húsið var mjög kalt og við dúðuðum okkur sjálf og börnin í úlpur, húfur o.s.frv. Þegar út var komið blasti við okkur fólk á göngu á stuttermabolum og léttum flíspeysum. Það tekur tíma að aðlagast nýju loftslagi – þó maður sé frá Íslandi.
Ég lofa nú ekki að vera dugleg að blogga en þeir sem vilja fylgjast með verða bara að vera á Facebook – eins og allir hinir.

|

sunnudagur, apríl 12, 2009

 

Mars... soldid seint

Eitthvað var um að vera í mars þó ég hafi ekki nennt að skrifa um það þá. Til dæmis:

Þá var fyrrverandi apótek Okezie aftur rænt. Eins og fyrir hálfu ári þá kom maður með hníf klukkan tvö á sunnudagseftirmiðdegi. Vildi aftur lyf og pening. Sami maður, en nú í skóm. Gott að fólk lærir af fyrri reynslu. Sama myndavél var á staðnum og lögreglan var ekki lengi að banka uppá hjá bófanum. Eini munurinn, fyrir utan þetta með skóna, virðist vera að minn maður var blessunarlega hættur. Kannski hefði verið betra að leyfa manninum að dúsa í djeili í smá tíma – svona fyrst hann er bófi.

Nú ég útskrifaðist úr háskólanum hérna, fékk hatt og skikkju og skírteini. Er enn ekki komin með vinnu samt og það lítur ekkert sérlega vel út. Daginn fyrir útskrift varð ég fyrir verulegum sálrænum áföllum. Við höfðum skroppið út og þegar við komum til baka beið mín blómvöndur við dyrnar. Með honum fylgdi miði sem á stóð að nágrannarnir á móti hefðu verið svo indælir að lána blómakonunni vasa til að halda blómunum ferskum. Ég hef áður minnst á þessa nágranna mína sem spássera á bleiku bikini (hún) og lítilli sundskýlu (hann, bara svona til að hafa þetta á hreinu). Þrátt fyrir bænaraugu og almenn blíðlegheit þá tókst mér ekki að fá Okezie til að skila vasanum af ótta við bleika bikinið. Þar með dæmdist á mig, blómþegann, að skila vasanum og að sjálfsögðu tók speedo skýlan á móti mér. Það er mjög óþægilegt að standa beint á móti öldruðum manni í lítilli sundskýlu. Verra er þegar hann talar lélega ensku og hefur ekki hugmynd um hvaða blómvasa ég er að tala um. My wife is the gardener sagði hann bara. Nó, ðis is jor vaaas, theink jú verí möts. Og sneri ég mér við. Þetta andlega áfall var svo bara svona viðvörun fyrir því sem á eftir kom. Seinna um daginn þurfti ég nefnilega að fara til skólasystur með bækur sem hún hafði lánað mér. Ég tók Arinze með mér í þennan litla bíltúr. Eins og alvanalegt er hér þá var útidyrin opin en bara læst með flugnanetinu. Í gegn sá ég mann sitja við tölvu beran að ofan. Honum virtist brugðið að sjá okkur standa þarna og bað okkur að bíða aðeins, stóð upp og náði í handklæði til að hylja á sér bossann. Júbbs, hann var bara á nýju fötum keisarans. Gaman að þessu...

Nú man ég náttúruelga ekkert fleira sossem. Börnin eru bar hress svona almennt. Augntennur aðeins að stríða dömunni. Hún er búin að læra svona helstu orðin, búið, út og kúka og eitthvað meira. Arinze er líka bara í góðum gír. Honum fer mikið fram í tali og hann kann á tölvu núna. Hér eftir get ég kannski bara kennt honum um bloggleysi, hann vill að sjálfsögðu alltaf fara í tölvuna þegar ég sest við. Segi þetta svo bara gott í bili.

|

mánudagur, febrúar 02, 2009

 

Februar

Eitthvað lofaði ég upp í ermina á mér í síðustu færslu með Bubba byggir köku. Nokkrum dögum fyrir afmæli fór ég í panik yfir þessari fljótfærni og sá marga marga kremliti sem óyfirstíganlegt vandamál. Það var nú ekki mikið kvartað yfir afmæliskökunni, ég skellti Valta bara á hana og bjó til göngustíg úr lituðum súkkulaðispæni. Svo var kakan líka mjög góð (Álagrandakaka með Betty Crocker kremi). Afmælið tókst alveg frábærlega. Ég bauð færra fólki en í síðustu afmæli og krakkarnir léku sér öll vel saman, mömmur spjölluðu í einu horni og pabbar í öðru. Arinze fékk mjög fínar gjafir að venju; bíla, bækur og verkfæri. Við gáfum honum hlaupahjól sem hann þeysist á hér innandyra sem og hljómborð, vasaljós og labb-rabbtæki.

Í gær var viðbúnaður í Cairns vegna yfirvofandi hitabeltisstorms (Cyclone Ellie) sem átti að koma að landi um nótt. Þó stormurinn væri bara styrkleiki 1 þá var fólk beðið um að festa allt útidót eða færa það inn. Við bættum á batteríbirgðarnar og vorum með útvarp og vasaljós við höndina. Einnig keyptum við stóra brúsa af vatni og ætluðum að fylla baðkarið af vatni ef eitthvað yrði úr veðrinu (til að hafa til að sturta niður í klósetti). Þegar stormurinn kom að landi dró úr honum og úr varð bara djúp lægð. Hér hefur rignt mikið undanfarna daga og hafa ár flætt yfir og vegir farið í sundur. Unglingur drukknaði þegar hann lenti í flóði hér rétt hjá Cairns. Þetta veður er alvanalegur hlutur hér á þessum tíma árs, hluti af því að búa í þessu loftslagi. Reyndar er þetta fyrsti stormurinn sem kemur svona nálægt Cairns síðan við fluttum hingað en nokkrum mánuðum áður en við fluttum hingað 2006 skemmdi stormurinn Larry mikið. Það er þó undarlegt að í sama landi á sama tíma skuli hitabylgja og kjarreldar vera vandamál. Ástralía er bara svo ofsalega stór að það er pláss fyrir allt í einu.

Læt þetta duga í bili... Nenni ekki að setja inn myndir en bendi þess í stað á barnalandssíðuna sem er nýuppfærð

|

miðvikudagur, janúar 14, 2009

 

Janúar

Það verður lengra og lengra á milli hvers bloggs svo það er varla að það taki þessu. Þegar meir að segja mamma er komin á facebook þá er ekki svo mikill tilgangur með blogginu, nema kannski fyrir fólk eins og mig sem hefur aldrei getað haldið dagbók.

Jólin voru róleg en góð. Við blöndum hefðum á heimilinu. Við höldum jólin á jóladag og opnum pakkana þegar við vöknum sem var í þetta skiptið klukkan 5.30. Svo borðum við íslenskan/danskan jólamat (purusteik með brúnuðum kartöflum og eplasalati). Matur skiptir börnin litlu máli þar sem Arinze borðar alltaf bara það sama og smakkar aldrei neitt nýtt og Rósa borðar allt svo við nýttum tækifærið til að borða í ró og næði þegar þau fengu sér blundinn. Það var mjög notalegt. Svo borðuðu þau bara venjulegan mat - greyin. Jólin koma enn aftan að mér hér í Ástralíu. Það er engin jólastemming svo ég held í framtíðinni verðum við bara að halda fast í þær venjur sem við sköpum okkur til að komast í gírinn. Þessi jólin gerðust þau undur og stórmerki að við fórum í kirkju á jóladagsmorgun. Við vorum illa undirbúin svo eina kirkjan sem við fundum var kaþólska kirkjan niðrí bæ. Okezie var í kaþólskum skóla sem krakki í Nígeríu og ber ekkert sérlegan hlýhug til þeirrar trúar síðan þá en lét sig hafa það. Eftir rúman hálftíma var Rósa komin með nóg og bjargaði okkur út. Þá var presturinn búinn að tala lengi um fæðingu sjálfs síns með mjög eintóna röddu.

Við drifum okkur í bæinn á gamlárskvöld til að sjá flugeldasýningu. Tillitslausu foreldrarnir voru nú ekkert að hafa fyrir því að vara tæplega þriggja ára soninn við hávaða og ljósum sem hann hefði aldrei séð fyrr og fengu það nú í bakið. Okkar maður sagði bara ‘bílinn, bílinn’ og vildi fá tígrisdýrið sitt. Þar sem við fáum ekkert mikið út úr því að pína börnin okkar fórum við bara og þegar við vorum komin aðeins frá kom bara ælugusa frá litla manninum. Seinna um kvöldið þegar hann var búinn að sofa í 1-2 klukkutíma vaknaði hann grátandi með hjartað nánast utanáliggjandi hann var svo hræddur þetta skinn. Arinze minn er nú reyndar ekkert rosalegt ljónshjarta. Í tvo daga bjó einhvers konar fugl (vona ég, við sáum aldrei neitt) hér á þakinu eða í garði mjööög nálægt sem gargaði mjög hrollvekjandi gargi. Okezie óskaði þess að eiga byssu en sem betur fer bjargaði tígrisdýrið hans Arinze þessu eins og reyndar flestu. Hver þarf á forleldrum að halda þegar hann á tígrisdýr.

Það fylgir nýju ári rigning hér í Cairns þar sem eru í raun bara tvær árstíðir, blauta og þurra. Síðustu tvo til þrjá daga höfum við verið að fá fylgifiska hitabeltisstormsins Charlotte sem gekk yfir fyrir norðan okkur. Það er talað um þriggja milljóna dollara tjón sem gerir ca 250 milljónir íslenskar hér í Cairns þar sem hefur mikið flætt inn í hús og atvinnuhúsnæði. Ég er búin að vera lasin síðustu daga og varð ekkert vör við þetta allt saman, nema náttúrulega rigninguna og pollana í garðinum en hér flæðir ekkert. Fyrir þá sem þekkja til hér þá er þetta aðallega í norðurbænum og miðbænum og svo nálægt ám. Á www.cairns.com.au er hægt að sjá fullt af myndum teknum á síðustu dögum.

Rósa stækkar og þroskast. Hún er nú ekkert mikið málgefnari en bróðir hennar var á þessum aldri en segir þó ‘já’ og ´jæja’ og ætti því alla vega að vera sæmilega samræðuhæf við eldri borgara. Svo er hún nokkuð lunkin við að segja formaða kubba í rétt göt og er orðin alveg fullklár í að blása í flautu, hátt meir að segja. Fátt notalegra en að hlusta systkin blása í blokkflauturnar sínar. Og gott að það eru til fimm eða sex stykki svo það þarf aldrei að leita að neinni.

Arinze er einstaklega hjálpsamur ungur maður. Hann setur í þvottavélina fyrir okkur og svo þegar hann heyrir að hún er búinn þá er hann fyrsti maðurinn á svæðið til að taka úr henni. Leitar meir að segja að körfunni ef svo ber undir. Hann tekur líka samviskusamlega úr uppþvottavélinni og hnífar, skeiðar og gafflar rata á réttan stað. Stundum er þessi hjálpsemi aðeins of mikil. Það tekur t.d. mun styttri tíma að ganga frá innkaupunum sjálfur og svo í dag þegar ég var búin að þrífa búrskápinn allan í leit að vondri lykt þá fann ég plastpoka á neðstu hillu með fyrrverandi frosnum kílóapakka af fisk. Þetta yndi.

Nú er alveg að skella á þriggja ára afmæli og verður haldið þemaafmæli með Bubba sem byggir þar sem húsmóðirin er bara húsmóðir. Ég er komin með mynd af Bubba til að setja á köku og svo kemur í ljós með skreytingar, leiki og þess háttar. Er að spá í að fara í yfirdrifsgírinn með þetta svona einu sinni. Það verður líka örugglega rigning svo það er betra að vera vel skipulagður.
Segi þetta gott í bili, er alveg "up-to-date" á Barnalandinu svo þeir sem vilja geta skoðað þar. Annars finnst mér ég vera að halda framhjá Facebook með því að blogga...


|

föstudagur, nóvember 28, 2008

 

Rétt slepp...

Hvar byrjar maður blogg eftir næstum tvo mánuði með tilheyrandi hamfarafréttum upp á næstum hvern dag?

· Aðal pæjan hún Rósa varð eins árs í nóvember og var að sjálfögðu haldið upp á það með pompi og prakt. Þar voru allir glaðir og reifir, ánægðir með krókódílakökuna og allt dótið. Það er að segja allir nema Rósa sjálf sem var í sínu versta skapi á ævinni. Grenjaði á suma gestina og vildi bara hanga á handlegg móður sinnar. It´s my party and I cry if I want to hefði hún sungið ef snuddan hefði ekki verið á sínum stað.

· Þessi sama aðal pæja heimilisins er nú líka byrjuð á leikskóla á fimmtudögum eins og stóribró. Hún er búin að fara tvisvar og var seinna skiptið mikil framför frá því fyrra. Það verður seint sagt að Rósa mín sé skaplaus.

· Foreldrarnir hafa verið duglegir við að vanrækja börnin í nóvember. Okezie fór í hálfgerða fyllerísferð til Townsville með rugbyfélögum sínum. Þar var fyrsti leikurinn í heimsmeistarmótinu í rugby spilaður. Eitthvað voru félagarnir skrautlegir, t.d. þá komst einn ekki á leikinn sökum drykkju og annar ældi alla leiðina heim daginn eftir. Sem betur fer var minn maður ekki annar þessara. Aðra helgi fór hann svo til Sunshine Coast sem er nálægt Brisbane á námskeið og svo sendi hann húsmóðurina í orlof til Gold Coast sem er líka nálægt Brisbane. Það var útskriftargjöfin mín (útskrifast reyndar ekki fyrr en í mars). Þar var ég á fjögurra stjörnu spa hóteli sem var mjög ljúft þó Gold Coast hafi reyndar verið Cold Coast meðan ég var þarna, rigning og bara 20 stig. Ég var ekki einu sinni með jakka eða síðar buxur með mér enda á ég ekki svoleiðis (reyndar á ég galla buxur en hef bara notað þær á köldu bókasafninu). Þetta var í fyrsta sinn sem ég sef án barnanna. Einu næturnar sem ég hef verið án Arinze voru þegar ég var á spítalanum að eiga Rósu. Þó það væri mjög notalegt að fara í burtu var enn betra að koma heim.

· Nú er ‘wet season’ byrjað hér með tilheyrandi hita og bleytu. Síðustu daga hefur hitinn verið 34-35 gráður og mikill raki verið í lofti. Akkúrat í augnablikinu er svo þrumuveður. Á þessum tíma ganga oft hitabeltisstormar yfir (cyclone) og hefur því verið spáð að þeir verði margir þetta árið vegna óvenju hás hita sjávar. Við höfum aldrei lent í hitabeltisstormi en nokkrum mánuðum áður en við fluttum hingað þá eyðilagði stormurinn Larry alla bananauppskeru svæðisins og mjög mikið af eignum.

· Ok, held þetta sé allt. Arinze er bara hress og kátur og ekkert sérstakt af honum að frétta sem ég man. Set inn myndir frá afmælinu.

Fjölskyldumynd. Það er náttúrulega ekki séns að taka mynd þar sem allir líta í myndavélina á sama tíma, hvað þá brosa.
Amrita, Sukhmani, Alec, Jarred, Amber, Felicity, Mya, Monica o.fl.
Gleymdi að taka almennilega mynd af krókódílakökunni, snuddan var tekin úr fyrir kökuna.

|

fimmtudagur, október 02, 2008

 
Þá er komið að þessu mánaðarlega, þ.e. blogginu.

Það sem stendur líklega upp úr, fyrir kannski utan það Paul Newman gaf upp öndina, er ránið sem framið var síðasta sunnudag í apótekinu sem Okezie minn vinnur í. Hann vinnur þrjá daga í viku og að sjálfsögðu gerðist þetta á hans vakt. Dópisti með steikarhníf í buxunum ógnaði honum þar til að fá peninga og morfín. Þetta var nú frekar lélegur ræningi. Hann tók ekki alla peningana og ekki allt morfínið og lét amfetamínlyf alveg vera líka. Hann hefði nú ekki komist í burtu með mikið meira þar sem hann var ekki einu sinni með poka til að setja fenginn í. Reyndar var hann ekki einu sinni í skóm og var því uppnefndur í blöðunum sem ‘the barefooted bandit’. Í lýsingum af honum í blöðunum var líka sagt að það væri fýla af honum og hann væri í lélegu líkamlegu ástandi. Þokkalegur gaur. Nú er búið að kæra hann og láta lausan. Okezie minn, hetjan sjálf, brást nákvæmlega rétt við, hélt gaurnum bara rólegum og lét hann taka það sem hann vildi enda ekki svo mikið fyrir yfirmenn sína að hann stefni lífi og limum í hættu. Sem var líka eins gott því eigandinn sem opnaði apótekið meðan Okezie var á lögreglustöðinni gat ekki flýtt sér í burtu nógu fljótt eftir að Okezie kom aftur í apótekið og bauð honum þess vegna ekki einu sinni að fara heim til fjölskyldunnar. Okezie var nú aldrei hræddur um líf sitt, finnst meira við hæfi að fara við að bjarga fullri rútu af börnum eða eitthvað því um líkt.
Þegar ég var búin að róa mig niður, nokkrum klukkutímum eftir þetta allt saman (var þá búin að þrífa allt hér, þvo nokkra veggi og hreinsa blómabeðið að framan) kemur Arinze til mín frekar aumur á svip. Þá var hann búinn að koma lítilli kúlu sem fylgir lestinni hans vel upp í nösina á sér. Kúlan smellpassaði alveg og sá ég fyrir mér ferð á slysó en lukkan var með okkur og kúlan kom út eftir nokkrar tilraunir.

Aðrir dagar mánaðarins voru nú eitthvað atvikaminni. Þó eignaðist ég nýja systurdóttur, Áslaugu Elísabetu 15. september. Systur mínar byrjuðu bættu við sig ári sem og hetjan títtnefnda sem er í síðasta skipti tuttuguogeitthvað og þarf endilega því að fara að læra að drekka annað hvort te eða kaffi. Sjáið þið fyrir ykkur eftir 20 ár fimmtugan mann biðja um djús? Ég hins vegar hlakka til á hverju kvöldi að fá mér kaffi morguninn eftir.

Rósa ætlar að verða 11 mánaða eftir nokkra daga og er skipulagða húsfreyjan farin að huga að ársafmælinu. Rósa er alveg að fara að ganga, tekur nokkur skref í einu og tryllist svo af spenningi. Hún klifrar líka aðeins, fer upp í rúmið hans Arinze og upp á sjónvarpsborðið. Arinze er líka hinn hressasti. Hann er í leikskólanum í dag og þegar við Rósa sækjum hann verðum við að fara að gefa öndunum brauð. Kannski ég taki bara myndavélina með á eftir. Annars eru september myndirnar komnar inn á Barnalandið. Fékk kvörtun strax í morgun frá ömmunni að þær væru ekki komnar inn svo ég þorði ekki annað en bregðast við strax.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?