Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

sunnudagur, apríl 12, 2009

 

Mars... soldid seint

Eitthvað var um að vera í mars þó ég hafi ekki nennt að skrifa um það þá. Til dæmis:

Þá var fyrrverandi apótek Okezie aftur rænt. Eins og fyrir hálfu ári þá kom maður með hníf klukkan tvö á sunnudagseftirmiðdegi. Vildi aftur lyf og pening. Sami maður, en nú í skóm. Gott að fólk lærir af fyrri reynslu. Sama myndavél var á staðnum og lögreglan var ekki lengi að banka uppá hjá bófanum. Eini munurinn, fyrir utan þetta með skóna, virðist vera að minn maður var blessunarlega hættur. Kannski hefði verið betra að leyfa manninum að dúsa í djeili í smá tíma – svona fyrst hann er bófi.

Nú ég útskrifaðist úr háskólanum hérna, fékk hatt og skikkju og skírteini. Er enn ekki komin með vinnu samt og það lítur ekkert sérlega vel út. Daginn fyrir útskrift varð ég fyrir verulegum sálrænum áföllum. Við höfðum skroppið út og þegar við komum til baka beið mín blómvöndur við dyrnar. Með honum fylgdi miði sem á stóð að nágrannarnir á móti hefðu verið svo indælir að lána blómakonunni vasa til að halda blómunum ferskum. Ég hef áður minnst á þessa nágranna mína sem spássera á bleiku bikini (hún) og lítilli sundskýlu (hann, bara svona til að hafa þetta á hreinu). Þrátt fyrir bænaraugu og almenn blíðlegheit þá tókst mér ekki að fá Okezie til að skila vasanum af ótta við bleika bikinið. Þar með dæmdist á mig, blómþegann, að skila vasanum og að sjálfsögðu tók speedo skýlan á móti mér. Það er mjög óþægilegt að standa beint á móti öldruðum manni í lítilli sundskýlu. Verra er þegar hann talar lélega ensku og hefur ekki hugmynd um hvaða blómvasa ég er að tala um. My wife is the gardener sagði hann bara. Nó, ðis is jor vaaas, theink jú verí möts. Og sneri ég mér við. Þetta andlega áfall var svo bara svona viðvörun fyrir því sem á eftir kom. Seinna um daginn þurfti ég nefnilega að fara til skólasystur með bækur sem hún hafði lánað mér. Ég tók Arinze með mér í þennan litla bíltúr. Eins og alvanalegt er hér þá var útidyrin opin en bara læst með flugnanetinu. Í gegn sá ég mann sitja við tölvu beran að ofan. Honum virtist brugðið að sjá okkur standa þarna og bað okkur að bíða aðeins, stóð upp og náði í handklæði til að hylja á sér bossann. Júbbs, hann var bara á nýju fötum keisarans. Gaman að þessu...

Nú man ég náttúruelga ekkert fleira sossem. Börnin eru bar hress svona almennt. Augntennur aðeins að stríða dömunni. Hún er búin að læra svona helstu orðin, búið, út og kúka og eitthvað meira. Arinze er líka bara í góðum gír. Honum fer mikið fram í tali og hann kann á tölvu núna. Hér eftir get ég kannski bara kennt honum um bloggleysi, hann vill að sjálfsögðu alltaf fara í tölvuna þegar ég sest við. Segi þetta svo bara gott í bili.

Comments: Skrifa ummæli

<< Home
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?