Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

þriðjudagur, febrúar 05, 2008

 

Nágrannaslúður og barnafréttir

Miðaldra konan í húsinu á móti slær iðulega garðinn á bleiku bikini einu fata. Reyndar virðist hún gera flest bara á bikininu. Þar sem þau hafa ekki loftkælingu þá eru allar dyr opnar á húsinu og því ber þessa sjón við aðeins of oft að okkar mati. Mér var þó allri lokið í dag þegar þónokkuð eldri maðurinn hennar spásseraði um garðinn á lítill Speedoskýlu. Mig sveið í augun lengi eftir að hafa orðið vitni að þessum ósköpum.
Að öðru. Það er ekki að ástæðulausu að enskumælandi tala um "terrible two". Arinze er sko orðinn tveggja ára, það er nokkuð ljóst. Hér er stöðug valdabarátta í gangi þessa dagana. Hann er samt voða duglegur og góður. Í síðustu viku byrjuðum við í sundtímum og honum finnst það algjört æði. Við komum of snemma í fyrsta tímann og hann varð alveg óður þar sem við þurftum að bíða eftir að komast ofan í. Um leið og kom að okkur varð hann að einu sólskinsbrosi sem þurrkaðist ekki af honum aftur þann daginn. Minn maður fór meir að segja oft í kaf og kom upp brosandi og með galopin augu. Ætli það verði ekki stríð þegar öll löndin sem eiga aðild að Arinze fara að rífast um þennan nýja Thorpedo.
Það virðist sem Rósa sé styttri útgáfan af nafninu Þyrnirós. Hún sefur nánast alla nóttina og jámm, líka bara næstum allan daginn held ég.
Svo verð ég að deila með ykkur bestu fréttum sem ég hef lengi fengið. Mín yndislega systir Eyrún ætlar að koma með krakkaormana sína hingað í júní. Það sem ég hlakka til, held bara að ég verði að búa til dagatal til að fara að telja niður. Ég lofa þeim endalausu dekri og skemmtilegheitum.
Nú þarf að baða Þyrnirósu svo það verður engin myndskreyting að þessu sinni.

Comments:
Sæl frænka
Grundvallaratriði er efnismagnið í sundskýlu/bikini og svo væri auðvitað tilvalið að þú legðist í leyni og tækir myndir af þessu athæfi. Þá gæti ég ákveðið hvort ég á að sýna þér mikla eða litla hluttekningu út af spídó manninum.
Annars bestu hilsur.
Hrafnhildur-Habbý
 
Efnismagnið væri of lítið þó það væri þrefalt meira. Treystu mér, þú vilt ekki sjá myndir!
 
En hefurðu nokkuð beðið þau að stilla sér upp til myndatöku? Þú gætir sagt þeim að þú haldir úti vefsíðu og þig langi að sýna vinum og kunningjum nágrannana.
 
Ég gæti náttúrulega falið mig bak við gluggatjöldin og smellt einni af... en trúlega myndi blogspot loka síðunni med det samme enda á mörkum þess sem siðlegt telst
 
Framtíð Arinse er ráðin, ekki spurning. Hann verður sundkappi mikill. Kveðja, Eygló stórfrænka.
 
Skrifa ummæli

<< Home
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?