Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

fimmtudagur, ágúst 23, 2007

 
Þrítugsaldrinum fylgdi óvænt þroskastökk á þessum bænum. Haldið þið ekki að endajaxl sé að gægjast upp og því erum við mæðginin samtaka í tanntöku. Ég er ekki viss um að mörg mæðgin geti "stært" sig af þessháttar árangri. Bráðum nær svo Pálmi frændi minn mér í aldri en ég held að hann sé ekki eins seinþroska og ég.

Ég er ekki viss um að ég fylgi syninum eftir í hæðaraukningu (þó vissulega gefi ég ekkert eftir í þyngdaraukningu þessa dagana) en allt í einu eru allir bolir orðnir frekar stuttir á magann á honum. Hann er alveg 4-5 sentimetrum hærri en jafnaldrar hans - kannski er munurinn minni ef hárið er klesst niður. Nú verður hann stóri bróðir eftir ca 10 vikur og af því tilefni er hann hættur að sofa í rimlarúmi og svaf í nýja Nemórúminu í fyrsta sinn í nótt. Það var vissulega breyting, líka fyrir mig að vakna við trítl í stað hrópa. Nú er búið að kaupa kopp líka en hann stendur enn ónotaður. Ég á líka eftir að kaupa töfrabókina sem er um hvernig best er að standa í þessum málum. Það væri náttúrulega rosalegur lúxus að hafa nokkrar vikur án bleiuskipta/kaupa.

Hér í Cairns er farið að hitna heldur betur. 28 gráður á daginn er mun heitara en 24 og sólin skín glatt. Bráðum förum við að nenna á ströndina að leika okkur. Það er líka orðið miklu minna að gera hjá mér í skólanum. Ég er bara í einu fagi núna sem ég klára nokkrum dögum fyrir áætlaðan fæðingardag. Það er ekki mjög mikið lesefni, verður létt próf í lokin og þó að verkefnið sé mjög umfangsmikið þá var ég svo klók að lenda með vinkonu minni í hóp. Sú er atvinnunemandi á sinni fjórðu mastersgráðu og hún fær alltaf hæstu einkunn. En þó að það sé kannski ekki mikið að gera þá ætti ég kannski að fara að snúa mér að bókunum þar sem litli stóri strákurinn er í leikskólanum í dag.

Drengurinn augljóslega ekki heima, þá væri nú eitthvað af dóti á gólfinu!





Alveg Disney þemað í gangi.















Nú er svo hægt að fara að telja niður í að amman, afinn, frændinn og frænkan komi í heimsókn. 7 vikur rúmar.

|

sunnudagur, ágúst 12, 2007

 
Druslaðist til að henda inn myndum frá júní, júlí og ágúst inn á síðuna hans Arinze Tómasar (linkur til vinstri).


Við fórum í eins árs afmæli til Lianne vinkonu okkar í gær. Það er alltaf soldið fyndið að fara í barnaafmæli hér í Ástralíu. Engin hætta á að maður borði yfir sig eins og á Íslandinu. Ein kaka og svo bara kex og sausage rolls. Aðal sportið hjá Arinze var að leika við hundinn. Hann er algjör hundakall. Ég er sjálf skíthrædd við alla hunda, nema reyndar Tönju gömlu sem Ásdís átti. Ég held samt aftur af mér því ég vil ekki smita Arinze af hundahræðslu og sýni ekki mikil viðbrögð þótt hann sé sleiktur í framan eða hann klípi aðeins í hunda.


Annars tsjillum við bara hérna alla daga...



|

miðvikudagur, ágúst 08, 2007

 
Síðast þegar ég skrifaði hér var ég á leiðinni í klippingu með Arinze. Það fór illa. Hárgreiðslukonan komst ekki nálægt honum og við fórum heim alveg óklippt. Síðan þá hefur hárið vaxið á hverjum degi að því er virðist. Planið var að senda Okezie með Arinze þar sem hann er miklu þægari hjá honum en úr því varð ekki. Í dag var svo dagurinn. Eftir baðið vöfðum við handklæðinu utan um hann svo handleggirnir voru undir, Okezie hélt á honum og ég var á skærunum. Það stefnir ekki í nýja atvinnu hjá mér en hárið er alla vega styttra. Miklu styttra. Ég sé á morgun hvernig þetta fór. Vonandi er hárið ekki mjög missítt en það sést ekki svo vel út af krullunum. Ég er ekkert smá fegin að bumbubúinn á að vera stelpa, þá er alla vega bara hægt að setja teygju í hárið.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?