Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

mánudagur, júní 25, 2007

 

Montblogg

Nú bara verð ég að koma með eitt montblogg með Arinze í aðalhlutverki. Hann er næstum því 17 mánaða og alltaf að læra eitthvað nýtt og bæta við í orðaforðann. Það er nú ekki langt síðan hann fór að segja "mamma" en síðan það kom er það eitt ofnotaðasta orð í mannkynssögunni. Hann segir líka "dadda" fyrir pabbi/daddy, loka, takk, datt, og svo eru ýmis orð sem hann hermir eftir en hljóma kannski ekkert mjög nærri lagi.

En svo er alveg brandari að horfa á hann horfa á DVD diskana sína. Hann á 3 Söngvaborg t.d. og dansar og syngur með. Hann snýr sér í marga hringi þegar Fugladansinn er sunginn og svo er best þegar Sveppi syngur prumpulagið. Fyrst spyr Sveppi hvort einhver hafi prumpað í dag og minn maður réttir samviskusamlega upp hönd. Svo purrar hann og lyftir upp annarri löppinni í prumpuköflunum. Masi og eðludansinn er líka vinsæll en þá hoppar hann (eins og hann getur, fer upp á tær meira), snýr sér í hringi og hristir sig. Hann á líka tvo Wiggles diska og hreyfir sig, veifar og klappar alveg á réttum stöðum.

Nú er kappinn með hita svo það er ekkert sérstaklega skemmtilegt hjá okkur. Það virðist hins vegar vera það eina sem amar að honum svo ekki er það nú mjög slæmt. Og börn lyfjafræðinga þurfa ekki að kveljast.

Arinze fer alltaf einu sinni í viku í leikskólann og finnst gaman og er mjög góður þar. Neðri vörin titrar alltaf þegar pabbi hans fer en svo er allt búið. Þegar pabbi hans fer í vinnuna eða ég í skólann vinkar hann bara og segir bæ. En svo sárnar honum þvílíkt þegar við lokum klósettdyrunum á hann. Hann er óþekkur að borða venjulegan mat en borðar mikið af því sem er honum þóknanlegt. Fyrir utan þetta er hann er algjört draumabarn sefur frá 7-7 og í tvo til þrjá tíma á daginn líka. En núna vælir draumabarnið á mömmu sína, er búinn að borða kvöldmatinn og á að fara í bað. Nóg af monti að sinni.

Í hjólatúr í kirkjugarðinum sem er nálægt okkur
Og í buxum af mömmu sinni, væntanlega heimasaumaðar af SK

Comments: Skrifa ummæli

<< Home
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?