Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

sunnudagur, apríl 08, 2007

 
Syninum fannst það góð hugmynd að vakna fyrir klukkan sex í morgun. Eftir miklar en árangurslausar fortölur móðurinnar enduðum við á því að fara fram. Arinze var nákvæmlega sama þó það væri allt dimmt og allir í Cairns sofandi. Við komumst þó að málamiðlun sem við gátum bæði sætt okkur við, ég svaf á sófanum og hann horfði á Siggu og Maríu í Söngvaborg alveg til rúmlega sjö.

Ég hélt að þegar Arinze færi að labba yrði ég hlaupandi á eftir honum endalaust en það er alls ekki svo. Eiginlega er bara miklu auðveldara núna síðan hann fór að labba sjálfur. Svo dundar hann bara út í eitt og er ofsalega góður. Hann kann að segja nokkur orð, öll á íslensku.

Páskahelgin hefur verið róleg og góð hérna megin. Okezie var í fríi á föstudaginn langa og vorum við bara hér í rólegheitum, hann horfði á dvd meðan arinze svaf og ég las í markaðsfræðihelvítinu. Í gær kíktum við svo á veðreiðar og Okezie tapaði þar peningum að sjálfsögðu. Þegar við vorum á leiðinni aftur í bílinn fór að hellidemba og flúðum við í skjól. Þar hittum við átta barna mömmu. Elsta barnið hefur örugglega ekki verið eldra en 12 ára. Hvernig er þetta hægt? Í dag og á morgunn vinnur Okezie svo við Arinze erum bara heima í afslappelsi. Fáum reyndar heimsókn á morgun en þangað til borðum við bara súkkulaði.

Óska hér með eftir málsháttum. Hér er nóg af súkki en engir málshættir. Bætið úr takk fyrir!

Comments: Skrifa ummæli

<< Home
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?