Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

sunnudagur, febrúar 11, 2007

 

Sonurinn

Núna í morgunsárið eftir morgunmat og bleyjuskipti skreið Arinze inn í herbergið sitt. Þar var göngugrindin sem hann er orðinn of stór í en pabbi hans hafði dregið hana fram í gær. Ég heyrði í honum ýta henni eitthvað áfram og koma fram. Þegar ég leit aftur fyrir mig á hann þá var hann ekki að ýta göngugrindinni. Nei nei, minn maður hafði bara klifrað ofan í hana á nótæm. Þess vegna held ég að það sé kominn tími á smá blogg um litla manninn, sem er reyndar alls ekkert lítill og situr í þessum skrifuðu orðum inni í fataskáp.

Arinze varð eins árs fyrir tveimur vikum. Hann er ekki farinn að labba en það er alveg að koma. Tekur svona 3-4 skref í einu en verður þá mjög æstur og hendir sér í fangið á þeim sem er að taka á móti. Hann getur sagt mamamamam og babababa og er orðinn mjög fyndinn. Hann gerir bara "Aaaah" við Helgu en þau eru mjög góðir vinir. Hann nær í Ipod fjarstýringuna, beinir henni út í loftið og dansar þegar hann vill hlusta á tónlist. Þegar hann gerir eitthvað af sér þá segir hann væmið "aaah" og treystir á þá geti mamma ekki orðið mjög reið (og hefur rétt fyrir sér). Þegar ég banna honum eitthvað, segi Ó-óó eða nei þá fer hann að grenja og vorkennir sér. Mesta stuðið er að klifra upp í sófa og standa þar upp. Þá koma allir, hvort sem þeir eru mamma, pabbi eða Helga, hlaupandi því þetta er náttúrulega stórhættulegt. Þegar við komum hlaupandi þá kastar hann sér í sófann og hlær og er með mesta prakkarasvip í heimi. Það er ýmislegt fleira sem ég gæti sagt ykkur um litla kútinn minn en nú er hann farinn að vekja pabba sinn, stendur upp við hurðina og öskrar svo það er best að skerast í leikinn.

Efnisorð:


Comments: Skrifa ummæli

<< Home
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?