Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

 

Félagsskapur í sturtunni - næstum því.

Þar sem ég var við það að stíga inn í sturtuna í morgun tók ég eftir einhverju á fleygiferð í sturtubotninum. Ég þurfti náttúrulega að setja upp gleraugun til að sjá hvað þetta væri. Hefði betur sleppt því og kallað bara strax á Okezie þar sem þessi risastóri kakkalakki barðist fyrir lífi sínu liggjandi á bakinu og spriklandi á fullu. Til að líta á björtu hliðarnar á lífinu get ég sagt ykkur að ég öskraði ekkert og var bara fegin að hann væri stór, sjái maður lítinn lakka þá er frekar líklegt að fjöldamörg systkini séu í felum. Ég er hins vegar staðráðin í að trúa að þessi hafi nú bara verið í heimsókn, rétt nýkominn meir að segja.

Annars er allt fínt héðan. Bíllinn er góður og ég er fegin að vera hætt að labba í hitanum og flugunum í vinnuna. Svo fór ég í fyrsta sinn til fæðingarlæknis í dag. Hingað til hef ég bara farið til heimilislæknisins og ekki hitt neina ljósmóður. Ég veit meira núna hvernig þetta gengur fyrir sig í Dubbo þegar þar að kemur. Mér er soldið illt í mjóhryggnum þessa dagana og finnst ég vera orðin mjög þung á mér en annars hef ég það mjög gott og sef alla nóttina. Vakna ekki einu sinni til að pissa (svo það misskiljist ekki þá er það vegna þess að ég þarf ekki að pissa á nóttinni, ekki að ég láti bara vaða í rúmið.)

Comments: Skrifa ummæli

<< Home
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?