Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

föstudagur, júní 10, 2005

 

Ókei ókei...

Þið megið velja bestu ástæðuna fyrir meintri bloggleti.

a) Mér var sagt að þegja
b) Það er of kalt í tölvuherberginu á kvöldin þegar ég kem heim
c) Ég er farin að vinna og sit þar fyrir framan tölvu allan daginn og nenni því s.s. ekki á kvöldin
d) Búin að vera í Ástralíu í þrjá mánuði og nýjabrumið að renna af
e) Það gerist aldrei neitt í Cobar
f) Það kommentar aldrei neinn svo það tekur því ekki að blogga...

Já, tvær vikur síðan ég bloggaði síðast og lesendahópurinn hlýtur að vera að þynnast. Ég biðst náttúrulega afsökunar frá dýpstu hjartarótunum. En þar sem auðvitað eitthvað hefur sossem gerst á þessum tíma þá ætla ég bara að velja auðveldu leiðina eins og Matta gerir alltaf og blogga í stikkorðum. Síðan síðast:

-Er ég alveg búin að læra hvað ég er að gera í vinnunni. Þetta er ekkert skemmtilegast í heimi en starfsfólkið er skemmtilegt og ég fæ bæði hádegishlé og morgunkaffi (ekki haft fyrir svoleiðis munaði í Englandi).
-Er ég búin að vera ógurlega löt í líkamsræktinni og kenni ég eindæma leti alfarið um. Stendur til bóta.
-Er ég búin að sofna alltof snemma í stofunni og vera þ.a.l. andvaka á nóttunni. Held ég sé að breytast í mömmu mína.
-Búin að fá heimþrá í kringum afmælið hans Dags. Er ekki enn búin að fá mér súkkulaðiköku Eyrúnar.
-Ég horfði á box og hafði gaman af í fyrsta skiptið. Manchesterladdinn Ricky Hatton sigraði þar Ástralann Kostya Tzsu. Við horfðum á boxið á skuggalega pöbbnum.
- Orðin alvöru fyrstuhjálparmanneskja með skírteini og alles. Man meir að segja hvað á að gera við köngulóarbitum.
- Orðin forfallinn fuglaaðdáandi. Ætla að reyna að finna mynd á netinu af páfagaukunum sem fljúga út um allt hér.
-Er búið að rigna í fyrsta sinn síðan við komum hingað. Það var samt ekki mikið.
- Hrasaði næstum því um dauða kengúru á leiðinni í vinnuna. Einhver hafði s.s. keyrt á hana um nóttina og hent hræinu út í vegarkant. Ég var með velgju í maganum allan daginn.


Á döfinni er:
- Löng helgi þar sem við höldum upp á afmæli Elísabetar Bretadrottningar á mánudaginn. Við erum búin að fá lánaðan bíl og ætlum annað hvort til Broken Hill eða Griffith, hægri eða vinstri. Báðir bæirnir eru í 3-4 tíma fjarlægð.
- Kveðjupartý fyrir eina í vinnunni á veitingastað.
- Að skipuleggja sumarfrí. Við ætlum til Northern Territory í tvær vikur í lok ágúst.

Læt þetta duga í bili

Comments: Skrifa ummæli

<< Home
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?