Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

laugardagur, júní 18, 2005

 

17. júní stemming á 18. júní

Haldiði ekki að hún mamma mín sé orðin sextug! Til hamingju með afmælið mamma mín! Ég er ekki viss um að þetta sé rétt samt þar sem þú ert engan vegin sextug í útliti eða anda. Vona að ég heyri í þér áður en þú ferð í felur í dag.

Hér er búin að vera sautjánda júní stemming í dag. Markaður í einum garðinum og hann rétt hékk þurr. Svo var líka svo skítakalt að eftir smá stund nísti kuldinn inn að beini og ég er ekki frá því að lungnabólga sé á leiðinni. Suss, mér var lofað að mér yrði aldrei aftur kalt ef ég flytti til Ástralíu. Það fer að koma að því að hann þurfi að halda á mér hita með handafli. Illa svikin, já já.

Já það fór svo ekki að rigna fyrr en þvotturinn var búinn að vera nærri því nógu lengi úti á snúru. Það vantar s.s. bara fánana, blöðrurnar og sleikjósnuðið til að fullkomna stemminguna. Hér eru regndansar bændanna loksins farnir að virka eftir 51/2 mánuð af brakandi þurrki og ekki plássi fyrir einn einasta regndropa og hér fagna allir nema ég sem hef séð nóg af rigningu fyrir ævina alla eftir þrjú haust í Englandi. Ég blóta því í hljóði því mér er nákvæmlega sama um geitur og svín, já og reyndar líka svo sem bændurna. Þekki þá nefnilega ekki.

Ég fór á Bodyshop kynningu í gærkveldi. Það var reyndar ekki mikið pláss fyrir kynninguna þar sem kvöldið var undirlagt kokteilum. Þeir kunna að skemmta sér Ástralirnir. Kynningin var líka hrikalega léleg, úti í garði í myrkri og kulda. Svo var kynnirinn nýbyrjuð í bransanum og bara með varavöru. Eftir útlegð hér í Cobar þá er fátt um fína drætti í snyrtimálunum og ég næ í meik í dolluna mína af einstakri einbeitni. Ætli ég þurfi ekki bara að "go native" - ekki ganga um nakin í andlitinu, nei, heldur panta úr póstlista.

Comments:
Blessuð og sæl kæra frænka
Þetta er hálfgerður barningur hjá þér heyrist mér, það er betri tíð hérna hjá okkur núna. Til hamingju með mömmu þína þá síungu skvísu.
Mér fannst ég nú ekki vera mjög ung í gær þegar ég paufaðist niður Esjuna alveg að drepast í tánum. Ég var þó ánægð með að komast bæði upp og ekki síður niður. Ferðin tók alls fjóra tíma. Hafðu það sem best, þín frænka Ragna
 
Skrifa ummæli

<< Home
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?