Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

föstudagur, apríl 15, 2005

 

Vika liðin

og 51 vika "to go"... Nei nei. Okkur líst ágætlega á okkur hérna. Okezie líkar enn sem komið er vel í vinnunni og það er framför þar sem honum leist ekkert á þetta þar sem hann var í þjálfun. Ég er náttúrulega að leita mér að vinnu og er búin að gefa nokkrum starfsferilsskrá en það virðist ekki mikið vera af lausum störfum sem henta mér. Óþægilega margir hafa lagt til við mig að ég gerist vörubílsstjóri hjá námunum sem hér eru. Jamm, trukkalúkkið loðir enn við mann greinilega. Þeir fá víst gommu af peningum, meir en lyfjafræðingurinn. En þar sem ég hef ekki unnið í nokkra mánuði og er hætt að leiðast það svona þá ætla ég frekar að bíða eftir einhverju bitastæðu áður en ég fer í gullnámurnar.

Annars myndi ég trúlega bara passa vel í hópinn. Sá fullt af námumönnum í gær á pöbbnum. Ég gæti alveg safnað í ósnyrt yfirvaraskegg og keypt mér köflótta flannelskyrtu. Já já. Og lyktad illa, ekki málið. Það var eins og maður hefði gengið beint inn í villta vestrið þarna á pöbbnum.

Það er farið að kólna heilmikið hér í Cobar og bara vel þolandi útivið yfir miðdaginn núna. 27-28 gráður og sól. Í gær rigndi meir að segja en það sögðu allir að þá væri það búið fyrir árið. Cobar er nánast í eyðimörk og flestir hafa brúnt gras. Ég ætla að ná að hafa grænan garð með því að vökva annan hvern dag. Ég má bara vökva á oddatöludögum þar sem húsið mitt er númer 1 og þá bara milli 6-9 á morgnanna og 6-9 á kvöldin. Veit reyndar ekki hvernig það á að vera hægt að vökva eftir 6 því þá er komið niðamyrkur og allskonar kvikindi fara þá á ferð. En þurrkurinn er svo mikill að það má t.d. ekki þvo bíla á hörðum fleti. Já og svo er ég með sér tank fyrir rigningarvatn sem er tengt við þriðja kranann á eldhúsvaskinum og er nánast jafn gott drykkjarvatn og það íslenska.

En jæja, enn verður bið á mannfræðipælingum um Íslendinga, Englendinga og Ástrali. Bara svona að halda við spennu...djók. Hins vegar þá vil ég endilega segja ykkur að ég er komin á Skype og heiti ég þar thorhilduringadottir. Þeir sem hafa skype netsímann þurfa s.s. endilega að setja mig inn á contact og þeir sem vilja fá sér netsíma geta downloadad frá www.skype.com . Ég held það þurfi bara windows 2000 eða XP, hljóðkort og annað hvort headset eða bara gera eins og ég og setja venjuleg heyrnartól í mikrofon gatið á tölvunni.

Könnunin verður tekin niður á morgun (ef ég finn út hvernig) svo þeir sem eru ekki búnir að taka þátt verða að gera það núna.

Bless í bili.

Comments:
Er ég eitthvað heiladauð eða hvað, ég fatta ekki hvað þetta er að mega ekki þvo bíla á hörðum fleti?
 
Prófaðu að setja kópera textann hérna á eftir í fyrirsögnina á síðunni þinni þá ættu íslensku stafirnir að koma réttir:

næpa í leit að sólbrúnku

Sá ekkert e-mail hjá þér hérna á síðunni annars hefði ég sent þér þetta í pósti :-) Ef þetta kemur út eins og venjuleg íslenska sendu mér þá e-mail. Bráðskemmtileg skrif hjá þér annars.

sigursi@hotmail.com
skotuselur.blogspot.com
 
Skrifa ummæli

<< Home
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?