Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

miðvikudagur, apríl 20, 2005

 

Hugleiðingar úr garðinum

Garðurinn bak við hús er alveg frábær. Það er há girðing allt í kring svo það þarf að koma alveg upp að girðingunni til að sjá inn í garðinn. Síðustu daga hef ég setið soldið mikið úti í garði og lesið blöðin og svoleiðis. Eftir að hafa lesið soldið í dag þá ákvað ég hins vegar að sitja með blað og penna í hönd og reyna að lýsa stemmingunni.

Það er ógrynni af fuglum hérna. Ég held ég þurfi bara að fara á bókasafnið og fá lánaðar bækur um fuglana og plönturnar hér. Í dag sá ég fugl borða randaflugu. Eða það held ég alla vega. Getur það verið? Hún átti það svo sem skilið því hún hafði rétt áður sest á mig. Þó ég sé ekkert hrædd við randaflugur þá vil ég kannski ekkert alveg hafa þær á mér svo við horfðumst í augu og eftir að hafa séð að hún var ekki með sting þá sló ég hana í burtu. En aftur að fuglunum. Hljóðin sem þeir mynda eru ótrúleg. Myndi ekki kalla þau söng, frekar svona hást kvak. Og einhvern veginn hljóma þau alltaf nær manni en fuglinn. Soldið skrýtið. Eftir að hafa fylgst með svona 5-6 fuglum í garðinum í smá tíma kom ég auga á kött. Kafloðinn kött sem sat bara og sleikti sig og lét sér fátt um finnast þó fuglarnir væru nánast á diski fyrir framan hann. Kötturinn leit hins vegar heiðbláum augunum á mig eins og ég væri gesturinn í garðinum. Ég var reyndar búin að heyra að nágrannakötturinn væri oft undir húsinu okkar og þarna hittumst við s.s. í fyrsta sinn. Kötturinn kom og kynnti sig (þó ég skyldi reyndar ekki mállýskuna), nuddaði sér utan í fótleggina mína og lagði sig í skuggann af handklæðinu á snúrunni. Myndin að ofan er s.s. honum. Þarna sátum við félagarnir í nokkurn tíma og spjölluðum. Kötturinn mjálmaði vælulega og ég talaði íslensku við hann. Við eigum eflaust eftir að verða hinir mestu mátar.

Eins og ég segi þá er garðurinn frábær. Reyndar soldið sköllóttur en það stendur allt til bóta með reglulegri vökvun og slætti. Slátturinn fellur í hendur húsbóndans sem hefur haft þá afsökun að lykillinn að skemmunni finnst hvergi. Ég ætla hins vegar að gera eins og mamma mín, þ.e. fara í ljótar íþróttabuxur, smella rassinum upp í loftið og róta í beðum. Reyndar ætla ég líka að fara í háa sokka svo ég geti girt buxurnar ofan í þá og í langerma bol. Þetta getur samt ekki gerst alveg strax þar sem áhöld eru læst inni í skemmunni. Hér með lofa ég ykkur myndum af grasivöxnum garði og rósabeðum áður en langt um líður.

En hvernig er það, kann enginn á kommentakerfið...?

Comments:
Ef ég sest einhverntímann óvart á þig, get ég átt það á hættu að fugl komi og borði mig...?
Annars hef ég efasemdir um tilgang vináttu þinnar við köttinn, ertu ekki bara að vingast við hann svo hann geti borðað alla hásu fuglana í garðinum...hmmmm..þar sem ég tilheyri þeim rámu í dýraríkinu og er skíthrædd við ketti, vil ég frekar ráðleggja þér að vingast við býflugurnar!
Þín Matta
 
Þessi köttur er greinilega hin skynugasta skepna. Ef þú vingast við hann geturðu kannski gert hann að sérlegum meindýraeyði. Kannski hann borði eitthvað fleira en randaflugur.
 
Skrifa ummæli

<< Home
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?