Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

sunnudagur, maí 04, 2008

 

Sod's Law

Þið kannist vi[ þegar allt sem getur mögulega farið úrskeiðis gerir það. Í gær þá fór ég út að borða með nokkrum mömmum á æðislegan stað. Þetta blogg er ekki um það. Þetta blogg er um þann sem eftir varð til að hugsa um börn og buru. Nú er ég svo vel stödd að Okezie minn er ekki í vandræðum með það verkefni. Menn flestra vinkvenna minna eru ekki mjög vanir því að hugsa um börnin sín, hvað þá á þessum tíma dagsins þegar bað-borða-sofa rútínan er í gangi. En ekki minn maður. Ég er því ekki að hringja heim og spurja hvernig gangi, hugsaði í gærkvöldi ekki einu sinni til þeirra en naut sjávarréttahlaðborðsins (ostrur, krabbi, rækjur, kræklingar o.fl. og eftirréttahlaðborð líka) og félagsskaparins í botn. Þegar ég kom heim fékk ég þó að heyra af martraðarkvöldi sem þó snerti börnin í sjálfu sér ekkert.
Þannig var að þegar börnin voru komin upp í rúm ákvað Okezie að skella í vél. Það vildi ekki betur til en svo að allt í einu var vatn út um allt. Yfir niðurfallinu sem er beint fyrir framan þvottavélina var motta sem kom í veg fyrir að vatnið færi rétta leið. Okezie hélt að hann þyrfti bara að hreinsa þarna þið vitið, hólfið sem er neðst á vélinni. Hann var undrandi yfir að það væri allt í lagi með það. Svo hann þurrkar af gólfinu og skellir vélinni í gang aftur. Úps, þá sér hann hvað var að henni. Barkinn var rifinn á nokkrum stöðum og vatn sprautast í allar áttir. Slökkti á vélinni og þurrkaði upp gólfið aftur og þvoði í höndunum allt sem var í vélinni. Ókei, gólfið var skítugt eftir þetta allt saman svo hann ákvað að moppa. Hugsaði ekki út í að moppan, sem er gufumoppa, stóð við hliðina á þvottavélinni og vatn var komið í innstunguna á henni. Hann setti hana í sambani og búmm, sló út rafmagnið og allt í niðamyrkri. Hér er rafmagnstaflan utan á húsinu svo hann fór út með vasaljós til að smella aftur. Vasaljósið virkaði ekki. Eftir miklar þreifingar þá tókst að setja rafmagn aftur á húsið. Þar sem moppan virkaði ekki þá þreif hann gólfið með tusku. Já, þvottur þveginn í höndum og gólf þvegið á hnjánum. Aftur til fortíðar hér í Ástralíunni. Þegar allt þetta var nú afstaðið þótti mínum manni tími til að fá sér kannski aðeins að borða enda langt komið fram á kvöld. Með matnum ætlaði hann að hafa sósu sem fylgdi með takeaway mat fyrr í vikunni. Sósunni var hent inn í örbylgjuofn og plastdollan bráðnaði. Honum fannst nú bara heppni, svona miðað við annað sem hafði gengið á, að hún bráðnaði ekki út um allan ofn, bara á diskinn. Ó well, þegar ég kom heim, 5 tímum eftir að hafa farið út þá hafði hann náð að slappa af eftir allt þetta í u.þ.b. tuttugu mínútur. Þegar hann sýndi mér barkann á slöngunni þá náði hann þó að skera sig á puttanum og endar þar með óhappasaga Okezie.

Ég er ekki frá því að afstaða himintunglanna hafi haft einhver áhrif á heimilið því nóttin var sú versta frá því að Rósa bættist við fjölskylduna. Hún veltir sér núna í báðar áttir og vaknar ótt og títt við það þar sem handleggurinn festist undir bakinu á henni, hún rekur höfuðið í rúmið og missir snuðið í öllum þessum ferðalögum. Ég er náttúrulega uppgefin eftir að hafa vaknað við hana svona tuttugu sinnum frá 12-3 og vaknað svo snemma með Arinze. Er því ekki alveg í stuði fyrir daginn þar sem Okezie er að vinna. Gæti trúað að þetta yrði svolítið margra bolla cappuccino dagur.

Comments:
LOL ég get ekki annað en brosað yfir þessum óförum mannsins...en margir hefðu nú hringt neyðarsímtal í eiginkonuna!!!
 
Skrifa ummæli

<< Home
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?