Lífið í Ástralíu

Þetta blogg lýsir lífi mínu frá því ég flutti til Ástralíu í mars 2005. Ég hef búið í Cobar í NSW, Cairns í QLD og nú í Mt Gambier SA. Á þessum tíma hef ég líka eignast börnin mín, Arinze og Rósu.

sunnudagur, október 21, 2007

 
Þá eru gestirnir búnir að vera í viku. Ég hef ekkert skrifað hér þar sem ég hef að sjálfsögðu verið svo upptekin við að þvo af þeim þvottinn, elda ofan í þau matinn og dekra við þau að öllu leiti. Eh, nei annars, þessu gæti reyndar kannski verið einmitt öfugt farið. Alla vega er búið að vera mjög gaman hjá okkur og ég bara ekkert nennt að setjast mikið við tölvuna. Svo er nú soldið erfitt að ryðja mönnunum frá mogganum og rúv-fréttunum fyrir utan það að Arinze þolir engan veginn að ég sé í tölvunni.

Síðan mamma og pabbi og Garðar og Guðrún komu erum við í stuttu máli búin að:
- Rölta um miðbæinn
- Fara í dagsferð Tablelands hringinn og smakkað þar yfir 20 gerðir af kaffi og margar gerðir af súkkulaði. Nammnamm. Hvernig finnst ykkur súkkulaði með chili eða svörtum piparkornum hljóma? Well, þið verðið bara að koma ef þið viljið smakka.
- Kíkja í búðir og á næturmarkaðinn. Merkilegt hvað körlum finnst gaman að skoða glingur...
- Setja upp snúrur, setja saman grill, bekk og hillu. Okezie finnst þeir Garðar og pabbi sýna alveg ágætis vinnubrögð hreint.
- fara í þrítugsafmæli bara við tvö og skilja kappann eftir hjá ömmunum og öfunum (erum búin að ættleiða extra par).
- grilla í fyrsta sinn.
- fara í grasagarðinn
- fara í frumbyggjasafnið Tjapukai, kastað þar búmerangi og spjótum, hlustað á mann spila á didgeridoo, horft á leikrit og lært um bush tucker mat.
- fara á Rusty´s ávaxta og grænmetismarkaðinn.

Og í dag eru hin fjögur fræknu svo í ferð út í rassgati, eða á Cape Tribulation and í regnskóginum. Það verður kannski eitthvað skrifað um það hér seinna, verður örugglega eitthvað ævintýralegt.

Það hefur komið þeim á óvart hversu lítið þau hafa orðið vör við framandi dýralífið hér. Engar risa köngulær, krókódílar eða snákar hafa enn látið sjá sig í bakgarðinum á Woodrose Drive ennþá. Í gær heyrðu þau þó eitthvað framandi hljóð innan um engisprettu- og froskahljóðin þar sem þau sátu í bakgarðinum. Hljóðið var langt og frekar vælulegt og voru uppi hugmyndir um að þetta væri kannski einhvers konar ugla. Þegar einn runninn hreyfðist þá fór nú verulega um þau, það fór hrollur um mömmu en Guðrún fleygði frá sér prjónunum og ætlaði að flýja inn. Þá kom nú í ljós að þetta var alls engin ugla heldur bara tvö hrekkjusvín sem stóðust ekki mátið að hræða gestina. Við Okezie höfðum verið úti að skoða nýju snúrurnar sem voru settar upp meðan við vorum í afmælinu og löbbuðum í kringum húsið til að hræða gamla fólkið. Soldið ljótt en tókst vel.

Þau fá að jafna sig eftir regnskógarferðina á morgun en fara svo til Sydney á þriðjudaginn. Mamma og pabbi koma aftur hingað á laugardaginn en Garðar og Guðrún fara þá til Melbourne fram á þriðjudaginn næsta. Þá má þetta barn nú fara að koma. Það eru tvær vikur í "D-Day" núna og stendur ekki til að verða eitthvað seinni af þessu. Þarf að halda í mér þó fram á miðvikudaginn þar sem ég er með smá fyrirlestur á þriðjudaginn og þá er ég búin í skólanum þangað til svona í maí.

Læt þetta duga í bili og reyni að skella inn myndum seinna af myndavélinni hans pabba.

Comments:
Kærar kveðjur úr rigningunni í Húnaþingi vestra.
Passaðu að gera mömmu þinni ekki af bylt við - ég væri hrædd að hún mundi fá nett taugaáfall - allavega hláturkast!!!!!
Ása Ólafs.
 
Skrifa ummæli

<< Home
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?